Kaja ljóstrar upp uppskriftinni að þessari frægu súpu

Karen Jónsdóttir, oftast kölluð Kaja, er iðin við að gera …
Karen Jónsdóttir, oftast kölluð Kaja, er iðin við að gera matarmiklar og bragðgóðar súpur yfir vetrartímann. mbl.is/Karítas

Karen Jónsdóttir, oftast kölluð Kaja, sem rekur framleiðslufyrirtækið og heildsöluna Kaja Organic er iðin við að gera matarmiklar súpur þegar veturinn ber að garði. Margir þekkja Kaju betur í gegnum lífræna kaffihúsið sem bar nafnið Café Kaja á Akranesi. Þar var hægt að fá árstíðarbundna rétti sem yljuðu sálinni, eins og Mexíkósúpuna, sem er hennar uppáhaldsvetrarsúpa.

Kaja ljóstrar nú í fyrsta skipti upp uppskriftinni að þessari frægu súpu sem á eftir að gleðja lesendur Morgunblaðsins.

Kaja afhjúpar hér uppskriftinni að mexíkósúpunni sinni frægu.
Kaja afhjúpar hér uppskriftinni að mexíkósúpunni sinni frægu. mbl.is/Karítas

Lífið tók völdin

Síðastliðið eitt og hálft ár hefur mikið gengið á í lífi Kaju og haft mikil áhrif á hana, bæði persónulega og faglega.

„Það má segja að lífið hafi tekið völdin í mars á síðasta ári og í einu vetfangi umturnaðist veruleiki minn. Í kjölfar alvarlegs slyss sem eiginmaður minn, Kristján Baldvinsson, lenti í hef ég verið að reka tvö fyrirtæki.“

Af þeim sökum hefur lítið heyrst frá Kaju og lítið verið í gangi varðandi vöruþróun. „Við höfum bara verið að troða marvaðann. En lífið er að komast á rétt ról, eiginmaður minn er loksins kominn til vinnu og Kaja, barnið mitt, er því að fara á fullt aftur,“ segir Kaja meyr.

Aðalviðfangsefni Kaju í dag er annars vegar að undirbúa jólin og er hnetusteik Kaju komin í fulla framleiðslu. Hins vegar hefur talsverður tími farið í að finna nýjan birgi á lífrænni kókosmjólk sem hægt er að nota í súpur og sósur.

„Þar sem birgirinn okkar hætti með kókosmjólkina sem við notuðum, þá stoppaði framleiðsla á súpum og sósum í júlí. En nú hillir vonandi undir gleðifréttir – nýr birgir er fundinn og við munum gera prufu með lífrænni kókosmjólk í vikunni. Ef vel tekst til og gæðin haldast munum við hefja framleiðslu á ný. Þegar þessum fasa er lokið munum við halda áfram með þróun á glútenlausu pönnukökumixi og mögulega glútenlausu köku- og tertumixi. Kökublöndur sem yrðu lífrænt vottaðar og í hollari kantinum, bragðgóð næring. Það er af nógu að taka og framtíðin er björt í lífræna geiranum.“

Breytir mataræðinu eftir árstíðum

Kaja segir að mataræði hennar breytist eftir árstíðum. „Það gerist ósjálfrátt. Ég er frekar fyrir létta fæðu og borða því mikið af salati og fiski á sumrin, en yfir vetrartímann dettur salatið út og súpur taka við. Ég veit ekkert betra en að borða bragðmikla og kröftuga súpu eins og þessa sem ég gef lesendum uppskriftina að.“

Mexíkósúpa Kaju er hennar uppáhald. „Hana nota ég bæði sem súpu og sem grunn í fiskrétt með Mexíkó-ívafi. Þar sem ég er mjög hrifin af chili á ég það til að bæta chili-túnfiski út í súpuna svo úr verði eins konar fiskipottréttur. Síðan set ég ost ofan á – hvort sem ég er með réttinn í súpuformi eða sem fiskrétt,“ segir Kaja.

„Ég er hér með uppskrift að súpunni fyrir lesendur, sem ég hef reiknað niður í hæfilegt magn, um einn og hálfan lítra. Fyrir þá sem ekki vilja mjög sterkan mat er tilvalið að minnka magnið af jalapenó, og fyrir þá sem vilja próteinríkari súpu er hægt að bæta við niðursoðnum nýrnabaunum. Það er bæði gott að setja hefðbundnar eða þær með chili. Ég vona svo að ég geti komið með þessa bragðgóðu og kröftugu súpu aftur á markað sem fyrst,“ segir Kaja að lokum brosandi.

Kaja mælir með því að setja rifinn ost yfir súpuna …
Kaja mælir með því að setja rifinn ost yfir súpuna þegar hún er borin fram. mbl.is/Karítas

Mexíkósúpa Kaju 

Fyrir 4–5

  • 400 g tómatar í dós eða krukku
  • 200 g kókosmjólk
  • 100 g gulrætur, skornar í bita
  • 50 g laukur, skorinn smátt
  • 1 g þurrkuð steinselja
  • 4 g hvítlauksduft
  • 4 g þurrkað chili
  • 10 g sjávarsalt
  • Jalapenó eftir smekk
  • 100 g paprika, skorin
  • 100 g niðursoðnar nýrnabaunir
  • 110 g vatn (til að leggja döðlurnar í)
  • 100 g döðlubitar

Aðferð:

  1. Byrjið á því að leggja döðlurnar í bleyti í vatninu.
  2. Takið til stóran og góðan súpupott og setjið tómata, kókosmjólk, gulrætur, lauk og jalapenó eftir smekk ofan í.
  3. Sjóðið saman og látið suðuna koma upp. Látið malla í um 30 mínútur eða þar til grænmetið verður mjúkt.
  4. Hellið vökvanum af nýrnabaununum og bætið þeim og paprikunni út í. Látið suðuna koma upp aftur.
  5. Setjið döðlurnar ásamt vatninu í blandara, maukið og hellið síðan út í pottinn. Látið malla í um 10 mínútur.
  6. Þegar þið eruð ánægð með mýkt súpunnar, berið hana fram með rifnum osti að eigin vali. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert