Þegar snjókorn féllu yfir veislu í Kerlingarfjöllum

Rómantíkin sveif yfir í Kerlingarfjöllum meðan á matarupplifuninni stóð og …
Rómantíkin sveif yfir í Kerlingarfjöllum meðan á matarupplifuninni stóð og snjókorn féllu af himnum. Ljósmynd /Cindy Rún Xiao Li

Nýliðna helgi fór ég upp á hálendið, nánar tiltekið í Kerlingarfjöll Highland Base, þar sem ég naut ævin­týralegrar matarupplifunar sem á fáa sína líka.

Hér var á ferðinni einstakur matarviðburður þegar Michelin-kokkurinn Þráinn Freyr Vigfússon galdraði fram listræna og fallega rétti á fyrsta vetrardegi, á meðan snjókorn féllu hljóðlega að ofan í kyrrðinni.

Að vera á hálendinu, þar sem íslensk náttúra skartar sínu fegursta og vetur konungur lætur að sér kveða, á sama tíma og Þráinn og teymi hans bera fram margréttaseðil með skírskotun í íslenskt hráefni, er ólýsanleg upplifun.

Þráinn Freyr Vigfússon og Ingi Þórarinn Friðriksson, forstöðumaður hálendismiðstöðvarinnar í …
Þráinn Freyr Vigfússon og Ingi Þórarinn Friðriksson, forstöðumaður hálendismiðstöðvarinnar í Kerlingarfjöllum, fögnuðu því að geta staðið saman að þessari matarupplifun á hálendi Íslands. Ljósmynd/Cindy Rún Xiao Li

Þetta var án efa ein ævintýralegasta matarupplifun sem ég hef notið. Umhverfið átti stóran þátt í því að gera kvöldið svona einstakt og eftirminnilegt. Eins og margir vita er Þráinn margverðlaunaður matreiðslumaður og eigandi veitingastaðanna ÓX og Sumac. ÓX, sem var opnaður árið 2018, er veitingastaður á heimsmælikvarða þar sem gestir njóta matarupplifunar innblásinnar af íslenskri matarhefð og þar er lögð áhersla á hráefni úr nærumhverfinu. ÓX hlaut sína fyrstu Michelin-stjörnu árið 2022 og græna Michelin-stjörnu, sem veitt er fyrir sjálfbærni, árið 2025.

Boðið var upp á fimm rétta matseðil ásamt nokkrum milliréttum, og sótti Þráinn innblástur í hefðbundna íslenska matargerð. Réttirnir voru byggðir á íslensku hágæðahráefni og fyrir þá sem vildu var boðið upp á vínpörun með hverjum rétti.

Þráinn Freyr Vigfússon galdraði fram listræna og fallega rétti á …
Þráinn Freyr Vigfússon galdraði fram listræna og fallega rétti á fyrsta vetrardegi í einstökum matarupplifunarviðburði í Kerlingarfjöllum. Ljósmynd/Cindy Rún Xiao Li

Ferðalag bragðlaukanna – réttir sem töluðu til allra skilningarvita

Ferðalagið sem Þráinn og félagar buðu upp á var ævintýri fyrir bragðlaukana, þar sem frumleiki og óvæntar samsetningar bragðs og áferðar léku við öll skilningarvitin.

Fyrsti rétturinn sem borinn var fram var grafinn karfi með íslensku wasabi, hnúðkáli og fíkjulaufi. Rétturinn var bæði fallegur og bragðgóður, og wasabi-rótin paraðist ákaflega vel með karfanum.

Frumleikinn var í fyrirrúmi þegar næsti réttur var borinn fram – sandvíkurrófur með skyri, stökku brauði og andareggjum. Óvenjuleg samsetning bragðs og áferðar kom skemmtilega á óvart.

Þriðji rétturinn var skötuselur, vin jaune, með kræklingi og hvönn – ómótstæðilega góður. Steikingin á skötuselnum var fullkomin og bragðgæðin einstök.

Fjórði rétturinn, og sá matarmesti, var nautaribeye – cap-hlutinn, sem hafði verið hægeldaður í um það bil tólf klukkustundir eftir snögga steikingu. Með nautinu voru kartöflur, blaðkál og vesturrósarostur.

Í lokin var boðið upp á dýrindis eftirrétt þar sem bláber léku aðalhlutverkið ásamt mascarpone-osti, lakkrís og pönnuköku í nýrri útfærslu.

Fallega var lagt á borð þar sem allir gestir fengu …
Fallega var lagt á borð þar sem allir gestir fengu matseðil hannaðan af Elsu Nielsen, grafískum hönnuði, ásamt smjörhníf merktum ÓX sem leyndist í innmerktri tauservíettu. Ljósmynd/Cindy Rún Xiao Li

Kyrrð, náttúrubað og hamingja í hjarta hálendisins

Kvöldið var ógleymanlegt og allir lögðu sitt af mörkum til að gera viðburðinn eftirminnilegan. Híbýlin í Kerlingarfjöllum eru hlýleg og andrúmsloftið rómantískt. Það er einhver dulúð í loftinu þarna í óbyggðunum, og dásamlegt að geta skroppið í náttúruböðin fyrir kvöldverðinn, sötrað heitt, þykkt súkkulaði og andað að sér fersku fjallaloftinu.

Eftir að hafa snætt kvöldverðinn og notið framúrskarandi þjónustu lagðist ég södd og sæl á koddann eftir dásamlegan dag í óbyggðum, fjarri öllu áreiti, og naut kyrrðarinnar.

Það verður enginn svikinn af upplifun sem þessari.

Boðið var upp á litla smakkrétti áður en fyrsti rétturinn …
Boðið var upp á litla smakkrétti áður en fyrsti rétturinn á seðli var borinn fram þar sem hangikjötstartar var meðal annars í forgrunni. Ljósmynd/Cindy Rún Xiao Li
Fyrsti rétturinn sem borinn var fram var grafinn karfi með …
Fyrsti rétturinn sem borinn var fram var grafinn karfi með íslensku wasabi, hnúðkáli og fíkjulaufi. Rétturinn var bæði fallegur og bragðgóður. Ljósmynd/Cindy Rún Xiao Li
Þráinn og teymið vönduðu til verka og hugsað var fyrir …
Þráinn og teymið vönduðu til verka og hugsað var fyrir hverju smáatriði í framsetningu réttanna. Ljósmynd/Cindy Rún Xiao Li
Kerlingarfjöll Highland Base fékk Michelin-lykilinn fyrr í mánuðinum og er …
Kerlingarfjöll Highland Base fékk Michelin-lykilinn fyrr í mánuðinum og er því í hópi 34 gististaða á Norðurlöndunum. Ljósmynd/Cindy Rún Xiao Li
Þráinn fer yfir matseðil kvöldsins með teyminu.
Þráinn fer yfir matseðil kvöldsins með teyminu. Ljósmynd/Cindy Rún Xiao Li
Þráinn og teymið hans í eldhúsinu og sal fékk mikið …
Þráinn og teymið hans í eldhúsinu og sal fékk mikið hrós fyrir frammistöðu sína frá gestum kvöldsins. Ljósmynd/Cindy Rún Xiao Li
Gestir kvöldsins voru leystir út með fallegum gjöfum sem munu …
Gestir kvöldsins voru leystir út með fallegum gjöfum sem munu gera upplifunina ógleymanlega. Ljósmynd/Cindy Rún Xiao Li
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert