Amerískar pönnukökur eru meira en bara morgunmatur – þær eru smá dekur, sykursæt stund sem sameinar fjölskylduna við eldhúsborðið. Hvort sem það er rólegur sunnudagsmorgunn, barnabröns eða einfalt mjólkurglas og nostalgía, þá eru þær alltaf góð hugmynd. Árni Þorvarðarson, fagstjóri við Hótel- og matvælaskólann, opnar hér uppskriftabók sína og deilir með lesendum Matarvefsins uppskrift að hans uppáhalds amerísku pönnukökum.
„Ef íslenskar pönnukökur eru þunnar, brakandi og rúllaðar með sykri, þá eru hinar amerísku systur þeirra gjörólíkar – en ekki síður eftirsóttar. Þær eru þykkar, dúnmjúkar og léttar, staflaðar hver ofan á aðra og bornar fram með hlynsírópi, smjöri, ferskum berjum eða jafnvel beikoni fyrir þá sem kunna að meta sætt og salt í einu,“ segir Árni.
Árni Þorvarðarson á stóra og mikla uppskrifabók sem hann opnar reglulega fyrir lesendum og deilir með þeim uppskrift.
mbl.is/Eyþór Árnason
Amerískar pönnukökur eiga sér langa sögu í norður-amerískri morgunverðarhefð og eru tákn um notalega byrjun á degi. Það sem einkennir þær er notkun lyftidufts sem gerir þær loftkenndar og léttar, með mjúkt hjarta og örlítið stökkar brúnir.
Hægt er að bera amerískar pönnukökur fram með alls konar góðgæti. Hér eru nokkrar góðar hugmyndir að meðlæti:
- Klassískt: Hlynsíróp og smjör – meira þarf ekki.
- Berjaútgáfan: Bláber, jarðarber og rjómi eða sýrður rjómi.
- Súkkulaði: Súkkulaðidropar í deigið og Nutella ofan á.
- Banani & hnetusmjör: Mettandi og orkuríkt.
- Beikon & síróp: Fullkomið jafnvægi milli sætu og salts.
Amerískar pönnukökur
8–10 stk.
- 250 g hveiti
- 2 msk. sykur
- 2 tsk. lyftiduft
- ½ tsk. matarsódi
- ½ tsk. salt
- 2 egg
- 300 ml mjólk
- 50 g bráðið smjör (eða matarolía)
- 1 tsk. vanilludropar (valkvætt)
Aðferð:
- Byrjið á því að blanda saman þurrefnunum, hveiti, sykri, lyftidufti, matarsóda og salti í skál.
- Þeytið saman egg, mjólk og vanillu í annarri skál.
- Sameinið deigið.
- Hellið blautu efnunum saman við þurrefnin og hrærið þar til kekkjalaust.
- Bætið bræddu smjöri saman við í lokin.
- Steikið pönnukökurnar á pönnukökupönnu eða annarri góðri pönnu.
- Hitið pönnuna með smá smjöri eða olíu (ekki of heita).
- Steikið litlar pönnukökur, um 10 cm í þvermál.
- Þegar loftbólur myndast á yfirborðinu (eftir 1–2 mínútur), snúið við og steikið aðra hliðina í 1 mínútu.
- Haldið volgum.
- Leggið kökurnar á disk og hyljið með viskastykki þar til allar eru tilbúnar.
- Berið fram með því sem ykkur þykir best, gott er að vera búin að undirbúa meðlætið áður en þið steikið pönnukökurnar.