Ebba Guðný er komin í vetrargírinn

Ebba Guðný Guðmundsdóttir hefur mikið dálæti af því að matreiða …
Ebba Guðný Guðmundsdóttir hefur mikið dálæti af því að matreiða matarmikla pottrétti á veturna. mbl.is/Eyþór Árnason

Ebba Guðný Guðmundsdóttir er komin í vetrargírinn og það þýðir að hún er farin að elda þyngri mat. Hún vill fá meira kjöt, fitu og heitan mat á þessum árstíma og nýtur þess að nostra við matargerðina í eldhúsinu.

Hún er þúsundþjalasmiður – hæfileikar hennar liggja víða. Hún er kennari, heilsuáhugamanneskja, fyrrverandi sjónvarpskokkur, bókaútgefandi, fyrirlesari, húsmóðir og móðir, og stekkur stundum í leikarahlutverkið líka.

Hún er líka mikill ástríðukokkur og þessa dagana er hún farin að malla matarmikla og bragðgóða vetrarrétti sem ilma um allt heimilið.

Ebba Guðný gefur lesendum Matarvefsins uppskrift að einum af sínum uppáhaldsvetrarréttum – Stroganoffi – sem nýtur mikillar hylli hjá fjölskyldunni.

„Þetta er uppskrift frá móðursystur minni sem hefur verið gerð í fjölskyldunni í áratugi. Réttinn er mjög einfalt að matbúa, en svo er mikilvægt að hann fái að malla í að minnsta kosti klukkustund. Hann verður betri með hverri mínútunni,“ segir Ebba og sleikir nánast út um.

Ebba Guðný
Ebba Guðný mbl.is/Eyþór

„Mér finnst líkaminn kalla meira á þyngri mat á veturna – kjöt, fitu, heitan mat og þess háttar. Mig langar minna í hrátt og minna í ávexti, þó að ég borði þá allan ársins hring. Ég fæ mér t.d. yfirleitt alltaf einhverja ávexti í jógúrtið mitt á morgnana. En ég sæki meira í rétti eins og til dæmis eldaða pottrétti. Ég hef líka verið að prófa mig áfram með Osso Buco og það er geggjaður matur líka, en aðeins meiri fyrirhöfn.“

Þakklát fyrir að eiga ástvini til að borða með

Ebba Guðný segist stundum vera þreytt – eins og aðrir – á eldamennsku, því allir þurfi að borða kvöldmat á heimilinu.

„Ég hef mest séð um það á mínu heimili, en þá minni ég mig á að ég er þakklát fyrir að eiga ástvini til að elda fyrir og borða með. En heilt yfir finnst mér mjög gaman að elda. Svo er ég matargat – ég elska góðan mat, og þegar maður eldar fær maður að ráða hvað á að vera í matinn, sem er frábært.

Mér finnst heimilisfólkið mitt enn fremur yndislegt – þau kvarta aldrei yfir matnum, eru alltaf þakklát og ljúf. Mér finnst þetta vera mikilvægt fyrir okkur öll; að koma saman, spjalla og borða kvöldmat saman.

Stundum talar fólk um að enginn komi í kvöldmat heima hjá þeim. Ég kannast ekki við það – það koma yfirleitt allir heim í kvöldmat, kannski af því að það er yfirleitt alltaf kvöldmatur, þó að hann sé mismerkilegur. En þau láta vita ef þau komast ekki og þá eiga þau afgang í ísskápnum. Það er alltaf allt borðað, allir glaðir með afganga.

Ég held að það sé alveg hægt að ala alla upp í því að gæta þess að ljúka við afganga. Útskýra fyrir krökkum að þetta er peningur og næring. Sniðugt er líka að kenna börnum leiðir til að hita upp afganga og nýta þá,“ segir Ebba Guðný glöð í bragði.

Stroganoffrétturinn hennar Ebbu Guðnýjar er matmikill og bragðgóður.
Stroganoffrétturinn hennar Ebbu Guðnýjar er matmikill og bragðgóður. Ljósmynd/Ebba Guðný

Stroganoff Ebbunnar Guðnýjar

Hér fyrir neðan má sjá uppskriftina, en Ebba segir að hún tvöfaldi hana gjarnan þar sem rétturinn sé svo vinsæll á hennar bæ. 

Ebba segir sér þykja best að bera réttinn fram með sætum kartöflum:
„Ég þvæ heilar miðlungsstórar kartöflur, pikka í þær með gaffli eða hníf á nokkrum stöðum, kem þeim fyrir á bökunarplötu og baka þær í eina klukkustund við 200°C. Þá ættu þær að vera eldaðar í gegn og auðvelt að fletta hýðinu af, stappa þær og bera fram með réttinum.“

Ef þið viljið frekar hafa hrísgrjón með, þá er hér góður tími til að skola hýðishrísgrjón í sigti, setja í pott og sjóða rólega á meðan kjötið sýður – eða sjóða kartöflur. 

Til að sjóða kartöflur, setjið þá kartöflur í pott með köldu vatni (eða heitu), látið vatnið fljóta yfir þær og látið suðuna koma upp. Lækkið hitann og látið malla í um 20 mínútur – fer eftir stærð kartaflanna.

Stroganoff er uppáhaldsvetrarréttur Ebbu Guðnýjar og hún gerir iðulega tvöfalda …
Stroganoff er uppáhaldsvetrarréttur Ebbu Guðnýjar og hún gerir iðulega tvöfalda uppskrift þar sem rétturinn nýtur mikilla vinsælda á heimilinu. Ljósmynd/Ebba Guðný

Stroganoff

  • 100 g smjör
  • 2 stórir laukar
  • 500 g lamba- eða nautagúllas
  • 1 rífleg msk. sinnep
  • 2 ríflegar msk. tómatpúrra
  • 1 dl vatn
  • 1 dós sýrður rjómi 10% (250 g)
  • Sjávarsalt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Skerið laukana sæmilega smátt og steikið upp úr smjöri þar til þeir mýkjast, en brúnist ekki.
  2. Takið mest af lauknum af pönnunni og geymið til hliðar á meðan þið brúnið kjötið.
  3. Setjið svo laukinn aftur út á hjá kjötinu.
  4. Bætið við sinnepi, tómatpúrru, sýrðum rjóma og vatni og látið sjóða í eina til tvær klukkustundir við lágan hita.
  5. Smakkið sósuna eftir klukkustund og saltið og piprið eftir smekk. Einnig má bæta við tómatpúrru og sinnepi ef þið viljið meiri bragðstyrk.
  6. Berið fram með því sem hugur ykkar girnist, t.d. með kartöflum, grjónum eða góðu brauði.

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert