Knútur Rafn Ármann á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni, sem er í anda Friðheima. Hann er mikill sælkeri og hefur ávallt haft áhuga á mat, og það má með sanni segja að ástríða hans fyrir honum skíni í gegn í nánast öllu sem hann tekur sér fyrir hendur.
Knútur er, ásamt konu sinni Helenu Hermundardóttur, eigandi Friðheima, en Friðheimar fagna einmitt 30 ára afmæli á þessu ári.
„Það er ótrúlegt að líta til baka og horfa yfir farinn veg,“ segir Knútur. „Ekki grunaði okkur að þetta yrði útkoman 30 árum seinna þegar við settumst hér að. En við erum bara rétt að byrja og margt spennandi í pípunum.“
Ástríðan fyrir mat og matargerð hefur fylgt Knúti frá því hann man eftir sér.
„Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á mat, en mamma sagði oft sögur af mér sem pjakki að smakka öll kryddin í eldhúsinu. Ég ætlaði að verða kokkur þegar ég var yngri og var á matvælasviði í Fjölbraut í Breiðholti. Vann mikið sem þjónn í bænum, á Óðinsvé og Viðeyjarstofu, en hestamennskan hafði yfirhöndina, og ég endaði á Hólum í Hjaltadal. En svo er lífið svo skemmtilegt að síðan við opnuðum Friðheima fyrir gestum og gangandi hef ég verið viðloðinn matarupplifun í gegnum veitingarekstur okkar.
Mín sýn, og sú sem endurspeglast í matseðli Friðheima, er að góður matur þurfi ekki að vera flókinn. Ef hráefnin eru fersk og uppruninn skýr, þá talar maturinn sínu máli,“ segir Knútur með bros á vör.
Vínstofa Friðheima er eitt af nýrri verkefnum Friðheimafjölskyldunnar, en hún opnaði sumarið 2023 og er vínstofa og veitingastaður í gömlu gróðurhúsi, ásamt því að búa yfir þremur fullbúnum fundarherbergjum sem nýta má í fundi, vinnustofur og matar- og vínupplifun.
„Núna erum við að undirbúa spennandi vetrardagskrá í Vínstofunni okkar,“ segir Knútur. „Við höfum reynt að vera dugleg að bjóða upp á skemmtilega viðburði í Vínstofunni og ætlum að hafa þétta og góða dagskrá núna fyrir jólin. Við verðum til dæmis með konukvöld þann 20. nóvember og karlakvöld í kjölfarið þann 27. nóvember, og Pálmi Gunnarsson verður með tónleika 21. nóvember sem eru nú þegar löngu uppseldir.
Þann 21. nóvember ætlum við að taka tvist á eldhúsið okkar og hefjum sölu á jólaplatta með jólalegum for-, aðal- og eftirréttum sem verður í boði ásamt hefðbundnum matseðli út desember. Þetta er tilvalin matarveisla fyrir einstaklinga, vinahópa og vinnustaði, og hægt að bóka í gegnum fridheimar@fridheimar.is. Svo má toppa upplifunina með hótelgistingu hjá nágrönnum okkar í Blue Hotel Fagralundi og þá er hægt að labba heim eftir herlegheitin.“
Upplýsingar um viðburði Vínstofunnar má finna á hér og á Facebook-síðu Vínstofu Friðheima.
Fjölskyldan deilir öll sömu ástríðu á mat og leggur mikið upp úr gæðastundum þegar matur er annars vegar.
„Eldhúsið hefur alltaf verið hjarta heimilisins hjá okkur og fjölskyldan safnast saman yfir góðum mat og góðri stemningu. Kvöldmaturinn er heilög stund hjá okkur,“ segir Knútur, dreyminn á svipinn.
Knútur setti saman draumamatseðil vikunnar – þar sem einfaldir réttir, íslenskt hráefni og dálítill Friðheimaandi ræður ríkjum.
„Þorskhnakkar eru uppáhaldsfiskurinn minn og fersk basilíka gerir allt betra, og ekki væri verra að hafa með Piccolotómata frá okkur.“
Þriðjudagur – Spaghettí Bolognese
„Helena konan mín býr til besta spaghettí Bolognese í heimi. Hún veit aldrei hvernig hún fer að því, en það smakkast alltaf frábærlega. Leynihráefnið er Friðheimapastasósan okkar.“
„Við fáum barnabörnin oft í mat í miðri viku, og þá er gott að hafa eitthvað einfalt upp í erminni sem allir kunna að meta.“
„Fiskur tvisvar í viku er eitthvað sem ég reyni að miða við, og ekki er verra ef hann er bleikur. Silungur vekur alltaf upp hlýjar minningar um veiðiferðir með Knút afa mínum, og því passar hann afar vel inn í vikumatseðilinn.“
„Mér finnst notalegt að fagna helginni með léttum kvöldverði og vínglasi, og þessi réttur frá Leifi vini mínum á La Primavera hittir alltaf í mark.“
„Við erum svo rík að eiga fimm börn, og á öllum aldri, og um helgar koma þau oft öll heim í hreiðrið. Við náum að sameinast öll fjölskyldan yfir góðri máltíð. Með nautalund þarf að vera eðalgott rauðvín.“
Sunnudagur – Lambalæri og meðlæti
„Það er notaleg hefð að borða sunnudagslæri, og þá helst frá vinum okkar á Laugardalshólum; það setur svo góðan tón inn í nýja viku. Uppskrift frá Ragnari Frey lækni í eldhúsinu getur ekki klikkað.“