Guðdómlega góður ofnbakaður þorskur í sítrónurjómasósu

Undursamlega góður fiskréttur bakaður í sítrónurjómasósu sem bráðnar í munni.
Undursamlega góður fiskréttur bakaður í sítrónurjómasósu sem bráðnar í munni. Ljósmynd/Gígja S. Guðjónsdóttir

Þessi ofnbakaður fiskréttur, þorskur í sítrónurjómasósu, er guðdómlega góður og passar ákaflega vel sem mánudagsrétturinn. Heiðurinn af uppskriftinni á Gígja S. Guðjónsdóttir, matarbloggari og flugfreyja, en réttinn gerði hún fyrir uppskriftavefinn Gott í matinn.

Sítrónurjómasósan parast mjög vel með þorskinum og lyftir honum á hærra plan. Ég get vel mælt með þessum fiskrétti og hann kláraðist upp til agna í fyrstu atrennu heima hjá mér. Það allra besta er að það tekur enga stund að gera þennan rétt og fyrirhöfnin er lítil sem engin.

Ofnbakaður þorskur í sítrónurjómasósu

Fyrir 4

  • 4 þorskstykki (4-5)
  • 50 g smjör
  • ½ bolli rjómi frá Gott í matinn
  • 2 msk.hunangs-dijon-sinnep
  • 1 ½ msk. sítrónusafi
  • Salt og pipar eftir smekk
  • Skarlottulaukur eftir smekk
  • Fersk steinselja og sítrónusneiðar eftir smekk

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180°C.
  2. Byrjið á að setja í eldfast form og kryddið með salti og pipar á báðum hliðum.
  3. Skerið skarlottulaukinn smátt niður eftir smekk og setjið yfir fiskinn.
  4. Setjið síðan smjör, rjóma, dijon-sinnep, sítrónusafa, salt og pipar eftir smekk í skál.
  5. Hitið í örbylgjuofni tvisvar sinnum í 30 sekúndur og hrærið í á milli.
  6. Hellið síðan sósunni yfir fiskinn og kryddið hann til með þurrkuðu steinseljukryddi eða ferskri steinselju og skreytið með sítrónusneiðum.
  7. Setjið fiskinn inn í ofn í um það bil 20-25 mínútur.
  8. Berið fram með því sem hugurinn girnist, til dæmis fersku salati, soðnum grjónum eða kartöflum ef vill.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert