Hekla Nína Hafliðadóttir, leirlistakona, fékk það fallega verkefni að búa til bolla og kertadiska til styrktar Bleiku slaufunni. Hekla Nína er einungis 25 ára gömul og hefur þegar vakið mikla athygli fyrir handverk sitt, meðal annars hundaskálarnar sem runnu út.
Bollarnir sem Hekla Nína hannaði og gerði til að styðja málstaðinn hjá Krabbameinsfélaginu eru handgerðir og handmálaðir með fallegum bleikum hjörtum.
„Það fer mikil ást og hlýja í hvern bolla og ég vona að það skili sér til allra sem nota bollana,“ segir Hekla Nína um hönnun sína.
„Hönnunin er eitthvað sem ég hef unnið mikið með áður, en vinsælustu bollarnir mínir eru einmitt bollar með rauðum hjörtum. Einnig gerði ég svipað samstarf með SÁÁ fyrr á árinu, sem var líka frábært! Það mætti því segja að þetta mynstur sé eitthvað sem ég hef unnið mikið með.“
Aðspurð segir Hekla Nína að málefnið sé henni hugleikið og tengist henni beint.
„Mamma mín greindist með brjóstakrabbamein árið 2024 og stendur því málefni Bleiku slaufunnar mér mjög nærri. Að horfa upp á mömmu ganga í gegnum þetta erfiða verkefni var ótrúlega erfitt – og er enn – þótt hún hafi klárað lyfja- og geislameðferð með stæl og rúllað því upp. Þetta er sjúkdómur sem hefur áhrif á lífið um ókomna tíð. Þess vegna tók ég stolt þátt í því að styðja við þetta flotta málefni, sem vekur athygli á því hversu margar hetjur berjast við þennan erfiða sjúkdóm – eins og mamma mín.“
Hekla Nína heldur árlega upp á Bleika daginn.
„Ég elska Bleika daginn. Bleikur er nefnilega uppáhaldsliturinn minn. Ég klæddi mig í bleikt, fallegt dress, fékk mér bleikar kræsingar og – eins og alltaf – keypti ég mér bleikt til að styrkja málefnið.“
Hvað finnst þér best að drekka úr bollunum?
„Mér finnst best að fá mér gott te eða heitt kakó, en bollana er auðvitað hægt að nota undir hvað sem er! Ég nota til dæmis einn undir förðunarburstana mína. Síðan er hægt að nota kertadiskana á margvíslegan hátt – ég geymi til að mynda skartið mitt á einum slíkum. Svo er hægt að nota þá sem kökudiska eða meðlætisdiska með bollunum, ef vill.“
Fyrir áhugasama er hægt að kaupa bollana og kertadiskana í Bleiku búðinni hjá Krabbameinsfélaginu. Þessi varningur er enn þá til sölu, og fyrir þá sem langar er tilvalið að styrkja Bleiku slaufuna og eignast fallega keramikmuni í leiðinni.
Hægt er að fylgjast með Heklu Nínu á heimasíðu hennar hér og á Instagram-reikningum hennar hér.