„Sumir kalla það glæp að mæta með kökur á æfingu“

Jacob Kaminski, alla jafna kallaður Jake, elskar bæði að elda …
Jacob Kaminski, alla jafna kallaður Jake, elskar bæði að elda og borða og er snillingur í bakstri líka. Ljósmynd/Aðsend

Jacob Kaminski, alla jafna kallaður Jake, elskar bæði að elda og borða og er snillingur í bakstri líka. Hann hugsar vel um heilsuna og stundar til að mynda kickbox í góðum félagsskap hjá RVK MMA.

Frést hefur frá æfingafélögum hans að hann taki sig stundum til og baki fyrir þá og mæti með dýrðina á æfingar. Á dögunum bakaði hann þessar ómótstæðilegu súkkulaðibitakökur sem æfingafélagarnir misstu sig yfir.

Það var því ekkert annað í stöðunni en að heimsækja hann og fá hann til að deila uppskriftinni með lesendum Matarvefsins og fá innsýn í mataræði hans og ástríðu tengda matargerð og bakstri.

Jakob er 29 ára gamall og kemur frá Bandaríkjunum.

„Ég flutti til Íslands árið 2020 til að stunda meistaranám og varð fljótt hrifinn af landinu. Upphaflega ætlaði ég að vera í tvö ár, en vinnan, fólkið og daglegt líf héldu mér hér.

Ég starfa sem verkefnastjóri hjá Iceland School of Energy við Háskólann í Reykjavík og vinn að því að efla sjálfbæra orkunýtingu bæði hér á landi og á heimsvísu, með því að nýta þá miklu þekkingu og sögu sem Ísland hefur á sviði endurnýjanlegrar orku. Vinnudagarnir mínir eru því fjölbreyttir, enginn dagur er eins. Það sem hins vegar breytist ekki er æfingadagskráin mín, yfirleitt er ég í RVK MMA að æfa kickbox eða í þjálfun annaðhvort fyrir eða eftir vinnu,“ segir Jacob og brosir.

Matur í aðalhlutverki í fjölskylduarfleiðinni

Aðspurður segist Jacob hafa elskað að elda frá því hann man eftir sér – og ekki síður að borða.

„Fjölskylduarfleifðin mín er hálf ítölsk og hálf pólsk, þannig að maturinn var alltaf í aðalhlutverki, og er það enn í dag. Sunnudagsmáltíðirnar drógust gjarnan á langinn þar sem á boðstólnum var stór pottur af fersku pasta, heimagerðri sósu, bragðmiklar kjötbollur, nýbakað brauð og nóg af parmesanosti.

Frá pólsku hliðinni ólst ég upp við fylltar hvítkálsrúllur og deigbollur sem líkja má við dumplings. Hvítkálsrúllurnar voru fylltar með svínakjöti og hrísgrjónum og bakaðar þar til kálið var orðið silkimjúkt. Deigbollurnar voru yfirleitt fylltar með kartöflum, osti, lauk og smjöri,“ segir Jacob af innlifun.

„Einnig er gaman að segja frá því að ítalski hluti fjölskyldunnar minnar rak bakarí í Pennsylvaníu árum saman, en bakaríið var þekkt fyrir einstaklega góð brauð og sætabrauð. Það lokaði um svipað leyti og ég fæddist, en minningin lifir áfram í gegnum sögurnar sem allir segja. Enn í dag heyri ég frá fólki sem fór alla sunnudaga eftir messu í bakaríið og stóðst ekki freistinguna áður en það kom heim til sín, bakkelsið var borðað í bílnum á leið heim. Þó svo að bakaríið sé ekki til í dag þá hefur ástin á heimagerðum mat og bakstri alltaf fylgt mér.

Á virkum dögum kýs ég einfaldleika, en reyni þó að borða eitthvað sem er ferskt og hollt. Ræktin heldur mér við efnið, og þjálfarinn minn segir alltaf: „Lífið er 80/20.“

Ég borða hollt flesta virka daga og nýt þess svo aðeins um helgar. Formúlan mín á virkum dögum er einföld, ég set saman máltíð sem inniheldur a.m.k. eitt hráefni sem er próteinríkt, eitt hráefni sem er kolvetnaríkt og svo eitt hráefni sem er trefjaríkt borið fram með einfaldri sósu. Það getur verið til að mynda kjúklingur, hrísgrjón og brokkolí. Stundum geri ég sósu úr ferskri sítrónu, ólífuolíu og kryddjurtum. Þetta þarf ekki að vera flókið eða tímafrekt til að vera gott.“

Það sem þú borðar hefur bein áhrif

Mataræði Jacobs breytist ekki mikið eftir árstíðum en matarmeiri réttir eiga það til að detta inn þegar það kólnar í veðri.

„Ég á það til að elda sömu réttina aftur og aftur þar til mér finnst ég hafa fullkomnað þá. Ef eitthvað er, þá einkennist veturinn af notalegum og hægelduðum réttum, en sumarið af grillmat og stórum salötum.“

Mataræði samhliða hreyfingu er eitt af því sem hann hugsar ávallt út í til að ná sem bestum árangri.

„Það sem þú borðar hefur bein áhrif á hvernig þú æfir, hvernig þér líður og hvaða árangri þú nærð. Matur er eldsneyti og ég hugsa þetta svona: „Gefðu líkamanum þá orku sem hann þarfnast til að þú fáir þá orku sem þú vilt“. Fyrir mér eru virkir dagar hollir og einfaldir, en um helgar er meiri frjálsræði og tími til að njóta, þó innan skynsamlegra marka“.

Súkkulaðibitakökurnar hans Jake njóta mikilla vinsælda hjá æfingafélögunum.
Súkkulaðibitakökurnar hans Jake njóta mikilla vinsælda hjá æfingafélögunum. Ljósmynd/Aðsend

„Uppáhaldseftirréttur sem ég geri aftur og aftur“

Stundum læðist þessi 20% hluti af 80/20 viðmiðinu inn á einhverja tilviljunarkennda þriðjudaga hjá Jacobi.

„Það er ekki gott að bæla löngunina, því þá verður hún bara verri. Ég trúi heldur ekki á að gera „lágkaloríuútgáfur“ af venjulegum eftirréttum. Yfirleitt baka ég því bara og deili kræsingunni með öðrum til að koma lönguninni út úr kerfinu.

Súkkulaðibitakökur finnst mér henta best til þessa, þær má stækka eða minnka eftir þörfum, þær þola flutning vel, og á erfiðum dögum eru þær einfaldlega bestar. Kannski er það bandaríska í mér, en súkkulaðibitakaka hittir alltaf beint í mark og er fullkominn eftirréttur í réttri stærð. Hún bragðast vel, vekur upp minningar og lætur manni líða vel,“ segir Jacob og lætur sig dreyma.

„Mín uppskrift er nokkuð einföld, brúnað smjör, rausnarleg klípa af salti og kælt deig. Þegar ég get, leyfi ég deiginu að hvíla yfir nótt. Svo pakka ég saman nokkrum smákökum og tek með mér í ræktina og býð upp á eftir æfingu. Sumir kalla það glæp að mæta með kökur á æfingu, en það er enginn sem kvartar eftir erfiða æfingu,“ segir Jacob að lokum og brosir breitt.

Girnilegar eru þær.
Girnilegar eru þær. Ljósmynd/Aðsend

Ómótstæðilegu súkkulaðibitakökurnar hans Jake

  • 145 g púðursykur
  • 130 g sykur
  • 200 g ósaltað smjör, skipt í tvennt
  • ¾ tsk. salt
  • 3 tsk, vanilluduft
  • 1 tsk matarsódi
  • 1 egg
  • 1 eggjarauða
  • 250 g hveiti
  • 300 g Nóa Síríus suðusúkkulaði, saxað í bita

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 190°C.
  2. Takið bökunarplötu og leggið á bökunarpappír.
  3. Bræðið helming smjörsins í litlum potti við vægan hita þar til það verður gullbrúnt og gefur frá sér hnetukeim. Setjið til hliðar til að kólna eða kælið þar til það harðnar.
  4. Blandið saman púðursykri, hvítum sykri, brúnaða smjörinu, afganginum af smjörinu, salti, vanilludufti og matarsóda í stórri skál.
  5. Hrærið þar til blandan er slétt og sykurinn mestmegnis uppleystur.
  6. Bætið egginu og eggjarauðunni út í og þeytið þar til deigið er orðið kremkennt. Skafið hliðarnar á skálinni til að tryggja jafna blöndun.
  7. Sigtið hveitið saman við og blandið varlega, aðeins þar til deigið hefur blandast, ekki ofhræra.
  8. Bætið saxaða súkkulaðinu út í og blandið saman þannig að það dreifist jafnt.
  9. Hyljið deigið og kælið í að minnsta kosti 2 klukkustundir.
  10. Mótið deigið í sívaling, vefjið plastfilmu utan um og frystið. Þá er auðvelt að skera í sneiðar og baka kökur síðar.
  11. Mótið bita (um 50 g af deigi í hverja köku) og setjið á bökunarplötuna. Hafið bil á milli, um 6–8 kökur á plötu.
  12. Bakið í um það bil 12 mínútur.
  13. Látið kökurnar kólna á plötunni þar til þær eru nógu stífar til að færa til. Áður en þær kólna alveg má nota breitt glas eða hringlaga form til að móta hverja köku.
  14. Geymið í loftþéttu íláti við stofuhita í allt að 5 daga eða frystið til lengri geymslu.

 

 

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert