Vatnsmelónudraumur Unnar er frískandi

Unnur Pálmarsdóttir býður lesendum upp á detox-drykk, Vatnsmelónudraum Unnar.
Unnur Pálmarsdóttir býður lesendum upp á detox-drykk, Vatnsmelónudraum Unnar. mbl.is/Hulda Margrét

Unnur Pálmarsdóttir deilir með lesendum frískandi detox-drykk, ljósrauðum drykk sem heitir einfaldalega Vatnsmelónudraumur Unnar. Hann á vel við þessa dagana þar sem dagurinn er farinn að styttast og myrkrið sækir á. Það er svo gott að fá hressandi drykk sem minnir á sumarið og gefur orku inn í daginn.

Unnur er eigandi Fusion Fitness Academy, hóptímakennari og þjálfari hjá Kötlu Fitness, einkaþjálfari og mannauðsráðgjafi, svo fátt sé nefnt. Jafnframt starfar hún sem fararstjóri, gjarnan á suðrænum slóðum þar sem sólin skín. Það er aldrei lognmolla í kringum Unni – hún vill helst hafa marga bolta á lofti í einu og nýtur þess að vera til.

„Þessi hressandi detox-drykkur hentar öllum sem vilja ferskleika og kraft í lífið. Vatnsmelónudrykkur byrjar með þroskuðum og safaríkum vatnsmelónum,“ segir Unnur.

Það er heilsufarslegur ávinningur að fá sér þessa blöndu en vatnsmelónur eru ríkar af A- og C-vítamínum, sem og kalíum- og B6-vítamínum. Þær innihalda einnig sítrúlín, sem er amínósýra sem slakar á vöðvum og getur unnið gegn streitu og háum blóðþrýstingi.

Vatnsmelónudraumur Unnar er frískandi og ljúffengur drykkur sem gefur orku …
Vatnsmelónudraumur Unnar er frískandi og ljúffengur drykkur sem gefur orku inn í daginn. mbl.is/Hulda Marrgrét

Vatnsmelónudraumur Unnar

Veljið magn eftir ykkar hentugleikum

  • Vatnsmelóna skorin í bita að vild
  • Frosið mangó
  • Frosin jarðarber að vild
  • Agúrka, nokkrar sneiðar
  • 2-3 dl kókosvatn
  • Klakar eftir þörfum

Aðferð:

  1. Setjið allt hráefnið nema klaka í blandara og hrærið saman þar til drykkurinn er tilbúinn.
  2. Hellið í fallegt glas og fyllið upp með klökum eftir smekk.
  3. Berið fram og njótið hvers sopa.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert