Fleiri réttir á jólakaffiborð Mörtu Maríu

Marta María Arnarsdóttir skólameistari Hússtjórnarskólans en engri annarri lík.
Marta María Arnarsdóttir skólameistari Hússtjórnarskólans en engri annarri lík. mbl.is/Eyþór

Fyr­ir jól­in er ómiss­andi að líta inn hjá Mörtu Maríu Arn­ars­dótt­ur skóla­meist­ara Hús­stjórn­ar­skól­ans. Hún var ung að árum þegar amma henn­ar og nafna kenndi henni að baka randalínu, dekka borð og bjóða ást­vin­um í fal­legt kaffi­boð. Marta María ger­ir allt sem hún kem­ur ná­lægt fal­legra og deil­ir hér með les­end­um nokkr­um góðum Húsó-upp­skrift­um, en einnig upp­skrift­um frá sér sjálfri.

Sjá má uppskriftir af randalínu ömmu, lúxusfléttunni, Húsó-draumakökunni, Húsó-kleinum og Húsó-lagtertunni hér.

Hunangsbrauðbollurnar hennar Mörtu Maríu eru sætar og lungnamjúkar og því …
Hunangsbrauðbollurnar hennar Mörtu Maríu eru sætar og lungnamjúkar og því tilvaldar í sparikaffiboðið. mbl.is/Eyþór

Hunangsbrauðbollur

Þessi uppskrift gefur um það bil 13 brauðbollur. Þessar brauðbollur eru sætar og lungnamjúkar og því tilvaldar í sparikaffiboðið.

  • 40 gr. smjör
  • 1 dl mjólk
  • 2 ½ tsk þurrger
  • 2 msk hunang
  • 210 gr. hveiti
  • ¼ tsk salt
  • Egg, til að pensla

Aðferð:

  1. Bræðið smjör við vægan hita.
  2. Bætið mjólkinni við út í pottinn og takið af hellunni (þá ætti blandan að vera um það bil 37°C).
  3. Blandið þurrgerinu við blönduna og leyfið gerinu að leysast upp.
  4. Blandið því næst hunanginu saman við blönduna og leyfið því að leysast upp að mestu í volgum vökvanum.
  5. Blandið því næst hveitinu og saltinu saman við blönduna í skál og hrærið í með sleif.
  6. Látið hefast í 40 mín á volgum stað.
  7. Myndið um það bil 13 bollur, raðið á bökunarpappír á plötu og látið hefast aftur í um það bil 20 mínútur og penslið með egginu.
  8. Bakið bollurnar á 180°C í um það bil 12 mínútur eða þar til þær eru orðnar gullinbrúnar.
Uppáhaldssmákökurnar hennar Mörtu Maríu eru mjög sparilegar. Þær eru stökkar …
Uppáhaldssmákökurnar hennar Mörtu Maríu eru mjög sparilegar. Þær eru stökkar og mjúkar á sama tíma. mbl.is/Eyþór

Smákökur

Þetta eru uppáhaldssmákökurnar mínar, algjörar spari með nóg af súkkulaði og öllu því besta. Stökkar en mjúkar á sama tíma, sem mér finnst algjör nauðsyn.

  • 120 gr. smjör, lint
  • 120 gr. púðursykur
  • 40 gr. sykur
  • 1 egg
  • 1 tsk vanilludropar
  • 170 gr. hveiti
  • ½ tsk lyftiduft
  • ½ tsk matarsódi
  • 1 tsk salt
  • 200 gr. suðusúkkulaði, brytjað
  • 50 gr. valhnetur, saxaðar

Aðferð:

  1. Stillið ofninn á 180 °C.
  2. Hrærið saman smjör og sykur þar til blandan verður orðin nokkuð ljós og létt.
  3. Bætið egginu saman við og hrærið.
  4. Bætið því næst vanilludropum, hveiti, lyftidufti, matarsóda og salti saman við og hrærið í stutta stund eða þar til öllu er blandað saman.
  5. Bætið að lokum suðusúkkulaðinu og valhnetum saman við og hrærið stuttlega.
  6. Myndið fremur litlar kúlur úr deiginu og gætið þess að hafa gott pláss á milli þeirra á bökunarplötunni því þær stækka í ofninum.
  7. Bakið við 180 °C í 8 mínútur. Mikilvægt er að hafa þær ekki of lengi inni svo þær verði mjúkar.
Allra bestu lakkrístopparnir eru þeir sem Marta María gerir.
Allra bestu lakkrístopparnir eru þeir sem Marta María gerir. mbl.is/Eyþór

Lakkrístoppar

Allra bestu lakkrístopparnir sem eru stökkir og mjúkir, en ekki harðir og þurrir.

  • 3 eggjahvítur
  • 200 gr. púðursykur
  • 150 gr. súkkulaðihjúpað lakkrískurl

Aðferð:

  1. Kveikið á ofninum, stillið á 150°C á undir og yfir hita, ekki blástur.
  2. Þeytið eggjahvíturnar og þegar mjúkir toppar hafa myndast bætið þá sykrinum hægt og rólega saman við á meðan þið þeytið. Þegar allur púðursykurinn er kominn saman við þeytið þá í 17 mínútur.
  3. Bætið lakkrískurlinu saman við og blandið varlega saman með sleikju.
  4. Notið tvær skeiðar til þess að móta toppana, gætið þess að hafa þá litla og pena og nóg pláss á milli þeirra þar sem topparnir stækka eilítið í ofninum.
  5. Bakið í 17-20 mín, fer eftir ofnum.
Leyndarmálið við heita súkkulaðið hennar Mörtu Maríu er smjörklípan.
Leyndarmálið við heita súkkulaðið hennar Mörtu Maríu er smjörklípan. mbl.is/Eyþór

Heitt súkkulaði

  • Örlitla smjörklípu (um það bil 10 gr.)
  • 1 L nýmjólk
  • 160-200 gr. suðusúkkulaði
  • ¼ tsk salt
  • Rjómi, þeyttur
  • Kökuskraut (sprinkles)

Aðferð:

  1. Bræðið smjörið við vægan hita í potti.
  2. Bætið suðusúkkulaði út í og bræðið saman við smjörið, við vægan hita. Gætið þess að brenna ekki súkkulaðið.
  3. Bætið mjólkinni við blönduna í pottinum í mjög litlum skömmtum og hrærið stöðugt í súkkulaðiblöndunni á meðan með sleif. Þegar öll mjólkin er komin saman við er súkkulaðið hitað upp að suðu og bætið saltinu saman við.
  4. Berið fram með þeyttum rjóma og dreifið jafnvel skrauti yfir rjómann til að gera framsetninguna sæta og skemmtilega.

Þess­ar upp­skrift­ir, sem og aðrar, má finna í blaðinu Hátíðarmat frá Hag­kaup.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka