Það er stundum erfitt að fá hugmyndir að nýju meðlæti með veislumatnum um hátíðirnar. Hér má finna uppskriftir frá Snædísi Jónsdóttur matreiðslumanni að kremuðu gúrkusalati, mysingskartöflum og púrtvínssósu.
Kremað gúrkusalat
- 3 stk. gúrkur
- 1 stk. rauðlaukur
- 1 dós 36% sýrður rjómi
- sítrónubörkur
- 1 búnt dill
Aðferð:
- Skerið gúrkuna í sneiðar.
- Skerið rauðlaukinn í strimla.
- Saxið dillið smátt.
- Blandið saman dilli og sýrðum rjóma, rífið sítrónubörk yfir og blandið því við gúrkuna og rauðlaukinn.
Mysingskartöflur henta með hvaða kjöti sem er.
mbl.is/Eyþór
Mysingskartöflur
- 1 kg forsoðnar kartöflur
- 250 g mysingur
- 250 g púðursykur
Aðferð:
- Setjið mysing og púðursykur í pott.
- Hrærið vel í þar til púðursykurinn er leystur upp.
- Bætið svo kartöflum út í pottinn og hitið upp, leyfið karamellunni að hjúpast við kartöflurnar.
Púrtvínssósa
- 750 ml nautasoð (má einnig vera kjúklingasoð)
- 350 ml púrtvín
- 100 ml rauðvín
- 50 g smjör
- 5 g timían
- eplaedik
- salt
Aðferð:
- Hellið púrtvíni og rauðvíni í pott ásamt soðinu og sjóðið niður um helming.
- Smakkið sósuna til með eplaediki og salti.
- Að lokum er smjöri hrært saman við ásamt timíanlaufum.
Þessa uppskrift, sem og aðrar, má finna í blaðinu Hátíðarmat frá Hagkaup.