Auður Jónsdóttir, rithöfundur og barnabarn Halldórs Laxness Nóbelsskálds, spyr sig að því hvers konar bækur ungt fólk á Íslandi sé að lesa, ef það les bækur á annað borð.
Mbl.is hefur í vikunni fjallað um að innan við þriðjungur framhaldsskólanema lesi skáldsögu eftir Halldór Laxness sem hluta af skyldunámi sínu í íslensku.
Auður var í viðtali hjá fréttastofu Sýnar vegna málsins og skrifaði í kjölfarið færslu á Facebook-síðu sína þar sem hún veltir vöngum yfir stöðu bókmennta meðal ungs fólks og rifjar upp minningar tengdar afa sínum.
Auður segist vera hugsi yfir þeim skýringum sem hún hefur á brotthvarfi bóka Nóbelsskáldsins úr menntaskólum landsins.
„Því ég held að skýringarnar kalli bara á fleiri spurningar, þetta hvarf hans er einungis, held ég, birtingarmynd umfangsmeiri breytinga. Eins og breytinga á atferli okkar og menningu.
Um leið og skáldskapur hans er svo samtvinnaður sögu okkar og tungumáli. Forvitnilegt er að velta fyrir sér hvað krakkarnir í menntó lesa frekar. Hvaða höfundar eru það? Hvernig bækur?“ segir í færslu Auðar.
Auður, sem bjó í Englandi hluta æsku sinnar, rifjar upp þann tíma er hún flutti heim til Íslands og það rann upp fyrir henni hve mikilvægur afi hennar var í augum fólks.
Einnig rifjar hún upp minningu úr æsku sinni er hún ætlaði að ganga í augun á afa sínum með því að lesa Íslandsklukkuna, sem Laxness sendi frá sér í þremur hlutum á árunum 1943-1946.
„Hann firrtist þá við, svona þyrlaðist upp eins og hann gat átt til, og býsnaðist eitthvað í mömmu eða pabba yfir að ég væri að lesa bók sem ég skildi ekkert í og að það myndi fæla mig frá því að lesa hana – þegar ég hefði öðlast meiri skilning,“ skrifar Auður.
„Kannski eru þau sem eru yngri en við alltaf dæmd til að vera að lesa eitthvað vitlausara en við. Veit ekki. Kannski er spurningin ekki hvort yngra fólk sé hætt að lesa Laxness heldur hvort og hvað það er að lesa. Og er það yfir höfuð líka að lesa á íslensku?,“ segir í lok færslu Auðar.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
