Tónlistarmaðurinn kunni, Jóhann Helgason, gefur út nýja plötu í mánuðinum og fylgir henni úr hlaði með útgáfutónleikum í Bæjarbíói í Hafnarfirði næsta laugardag. Þar mun Jóhann koma fram ásamt einvalaliði hljóðfæraleikara en lögin fyrir plötuna voru tekin upp í upptökuveri í fyrra.
Segja má að Jóhann sé einn af farsælustu lagahöfundum í popptónlistinni á Íslandi en hann er þó ekki þekktastur sem einherji. Dúettar með Magnúsi Þór Sigmundssyni eða Helgu Möller eru víðfrægir og þá hafa ófáir söngvararnir sungið lög Jóhanns í gegnum áratugina. Þrátt fyrir það er þó um níundu sólóplötu Jóhanns að ræða en hann bendir á að langt sé liðið frá þeirri síðustu.
„Ég hef ekki gert eiginlega sólóplötu með nýjum lögum frá árinu 1999 og hef gert meira af því að semja fyrir aðra. Ég gerði þrjár sólóplötur á níunda áratugnum og fjórar á árunum 1996-99,“ segir Jóhann og hann segist á nýju plötunni halda sig í sinni deild.
„Þetta er popptónlist og ekki ósvipað því sem er á öðrum sólóplötum eftir mig. Ég fer ekki langt frá upprunanum og því sem ég ólst upp við á sjöunda og áttunda áratugnum. Það er mín deild,“ segir Jóhann en lögin urðu til árið 2023. Spurður um hvort hann hafi samið jafnt og þétt í gegnum tíðina segir Jóhann svo ekki vera. Hann setji sig gjarnan í stellingar og semji lög þegar á þarf að halda.
Jóhann segir að kostnaðarsamt sé að gefa út á vínyl núorðið en platan verður fáanleg á vínyl í takmörkuðu upplagi. Á næsta ári fer tónlistin á streymisveitur að öllu óbreyttu. Jóhann sótti um listamannalaun 2023 og fékk sex mánaða starfslaun. Afraksturinn er umrædd plata sem ber heitið JH.
Á útgáfutónleikunum verður platan leikin í heild sinni fyrir hlé. Rokksveitin Gammar sá um undirleik í hljóðveri og kemur einnig fram með Jóhanni á tónleikunum. Hana skipa Björn Thoroddsen á gítar, Þórir Baldursson á Hammond-orgel, Bjarni Sveinbjörnsson á bassa, Sigfús Óttarsson á trommur og Stefán S. Stefánsson á saxófón. Edda Borg Ólafsdóttir mun auk þess leika á hljómborð á tónleikunum. Engir aukvisar þar á ferð. Eftir hlé munu áhorfendur fá að heyra ýmis lög eftir Jóhann og í það minnsta nokkur af þeim þekktari.
„Þá munum við taka lagið Take Your Time og það hef ég ekki gert á tónleikunum síðan á níunda áratugnum. Við tökum einnig lög eins og She’s done it again, Sail on, mögulega Yaketty Yak og fleiri lög sem fólk þekkir eftir hlé.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
