Leikkonan Margrét Ákadóttir bauð Erni Árnasyni og blaðamanni í kaffi til sín í Mosfellsbæ einn eftirmiðdag í vikunni. Við vorum mætt til að ræða nýjustu kvikmynd þeirra Víkina sem nú er komin í sýningu.
Í myndinni leika þau hjón sem fá óvæntan gest í heimsókn og er óhætt að segja að sú heimsókn sé afdrifarík.
Hjónin Bragi Þór Hinriksson og Helga Arnardóttir eru framleiðendur kvikmyndarinnar, ásamt Birni Ófeigssyni meðframleiðanda, en Bragi og Helga eiga og reka framleiðslufyrirtækið H.M.S. Productions.
Þau leituðu ekki langt yfir skammt þegar kom að því að ráða í hlutverk aðalleikkonunnar því Margrét er móðir Helgu. Tökustaðurinn var meðal annars við bústað foreldra Braga fyrir vestan en hann er langt frá allri byggð og erfitt að komast þangað nema á bátum og flugvélum.
Bragi skrifaði handritið að Víkinni en áður hefur hann aðallega fengist við barna- og unglingamyndir og gamanmyndir. Nú tekst hann á við hádramatíska spennumynd.
„Við leikum hjón þar sem eiginmaðurinn er flugmaður en foreldrar Braga fljúga einmitt sjálf í sinn bústað, eins og þessi hjón. Það er venjulegt líf hjá fólki sem á flugvél; það skreppur á flugvélinni milli landshluta,“ segir Margrét og brosir.
„Viltu vita plottið?“ spyr Örn og blaðamaður er til í það, upp að því marki að það skemmi ekki fyrir áhorfendum.
„Þarna kemur bandarískur maður sem telur sig vera son minn og vill fá DNA-próf til að sanna það, en þau eru aldeilis ekki til í það og finnst þetta hið mesta rugl,“ segir Örn.
„Svo kemur önnur skýring og þú færð ekki að vita hana,“ segir Örn og hlær.
„Þetta er virkilega flott plott. Það eru margir á Íslandi rangfeðraðir og sjálf þekki ég marga,“ segir Margrét.
„Það eiga allir sér einhver leyndarmál,“ segir Örn.
Þannig að þarna dúkka upp leyndarmál sem eiginkonunni er ekki kunnugt um?
„Það er eiginlega öfugt. Mér er kunnugt um ýmislegt,“ segir Margrét sposk.
„Þarna eru óuppgerðar og blendnar tilfinningar sem blossa upp í sambandi sem orðið er þreytt. En þau lenda þarna í mikilli lífshættu,“ segir Margrét.
Kvikmyndin Víkin er eins og fyrr segir tekin upp að hluta til á Hornströndum og að hluta til í sumarbústað fyrir austan fjall.
„Eitt sinn þegar við vorum að taka upp fyrir vestan þurftum við einn daginn að spýta í lófana því veðurspáin var ógnvænleg. Skipstjórinn hringdi og sagði að ef hann ætti að sigla með okkur til baka, þyrfti það að gerast næsta dag, annars yrðum við föst þarna,“ segir Örn.
Hvað var það eftirminnilegasta í tökunum?
„Það er mikið ofbeldi í myndinni og það er rosalega erfitt að leika í þeim senum. Við erum þarna mikil fórnarlömb og erum að kljást við ungan mann sem við ráðum ekki við. Við vitum að við munum sennilega deyja,“ segir Margrét.
„Ég fann þegar ég var að talsetja sjálfa mig um daginn að ég var gjörsamlega búin á því þegar ég kom heim. Ég fór bara að gráta,“ segir Margrét.
Ítarlegt viðtal er við Margréti og Örn í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
