Iceland Airwaves-tónlistarhátíðin er handan við hornið, hefst á morgun, 6. nóvember, og stendur yfir til og með 8. nóvember. Ísleifur Þórhallsson er framkvæmdastjóri hátíðarinnar og Senu Live en eins og mörgum er eflaust í fersku minni tók Sena við rekstri hátíðarinnar árið 2018 og um leið ýmsum skyldum og ábyrgð sem honum fylgja.
„Þá var hún búin að vera til í mjög langan tíma,“ rifjar Ísleifur upp í samtali við blaðamann.
„Þetta byrjaði náttúrlega sem einhver hugmynd hjá Icelandair og tengdum aðilum sem leið til að koma fólki til landsins. Á þeim tíma var allt önnur staða en er í dag, túrisminn er búinn að springa út núna og orðinn risapartur af hagkerfinu en þá voru menn að láta sér detta eitthvað í hug til að koma fólki til landsins. Hátíðin var búin til í ákveðnum tilgangi, að vekja athygli á Íslandi og íslenskri tónlist, og við tökum það mjög alvarlega.“
Ísleifur segir hátíðina mikla landkynningu, líkt og kannanir hafi leitt í ljós.
„Íslandsstofa vinnur með okkur og gerir mælingar eftir hverja hátíð, hvert sé virði umfjöllunarinnar og það koma mjög háar tölur út úr því. Svo hafa verið gerðar stúdíur um hvað þetta skapar í hagkerfinu, afleidd viðskipti og fleira,“ segir Ísleifur.
Þó sé erfitt að meta þetta allt nákvæmlega. Hann hafi fundið fyrir því, í starfi sínu og ferðum utanlands sem því tengjast, hversu mikil virðing sé borin fyrir hátíðinni og sögu hennar.
„Það er stöðugt hægt að benda á bönd sem spiluðu á Airwaves á pínulitlum stöðum og urðu svo risastór. Listinn yfir þau atriði er bara endalaus í þessari 25 ára sögu,“ segir Ísleifur. Hann nefnir, sem nýleg dæmi, hljómsveitirnar Fontaines D.C. og Kneekap sem léku á Gauknum fyrir nokkrum árum.
Ísleifur nefnir að nágrannalönd Íslands séu öll með einhverjar hátíðir en dreymi þó um að vera með hátíð í líkingu við Iceland Airwaves.
„Þetta er búið að ná einhverjum ótrúlegum stað og þetta eru ótrúlega mikil verðmæti fyrir þjóðina, að þessi hátíð haldi áfram og sé í góðu fjöri.“
Hann er spurður hvort skipuleggjendur hafi, þrátt fyrir þessa velgengni, orðið varir við gagnrýni á hátíðina og segir hann að vissulega sé alltaf eitthvað um það.
„Við reynum bara að vera opin fyrir því og hlusta, auðvitað erum við bara með filter á það og vinnum bara úr því. Við erum ekkert að hlaupa til út af öllu sem við heyrum en erum með augu og eyru opin og gerum skoðanakönnun eftir hverja hátíð meðal gesta okkar. Það er alltaf mjög fróðlegt að lesa hana,“ svarar Ísleifur.
Blaðamaður skýtur hér inn í að vonandi sé meirihluti gesta ánægður.
„Já, já, algjörlega. Það er rosalega mikil velvild gagnvart hátíðinni og hvernig hún hefur verið síðastliðin tvö, þrjú ár. Ég held að það hafi verið mikil ánægja með hátíðina hjá öllum,“ svarar Ísleifur.
Stemningin er einstaklega skemmtileg á Iceland Airwaves, segir Ísleifur, jafnvel einstök.
„Að vera niðri í bæ, hlaupa á milli staða, hitta fólk og fá meðmæli, uppgötva ný bönd og fara á tónleika með hljómsveitum frá löndum sem þú hefur aldrei séð hljómsveitir frá áður,“ telur hann upp sem dæmi um kosti hátíðarinnar.
„Gestirnir eru rosalega þakklátir og glaðir og oft tala listamenn um það hvað þeir finna mikla gleði og orku frá gestunum. Það verður einhver hamingjuhringrás til.“
Og hvað skyldi nú bera hæst á hátíðinni í ár? Ísleifur segir erfitt fyrir sig að velja úr og benda á þar sem um 100 bönd séu í boði og tónleikastaðirnir fjölmargir og ólíkir, m.a. Listasafn Reykjavíkur í Hafnarhúsi, Fríkirkjan, Nasa og Kolaportið.
„Listasafnið er stærsti staðurinn og þar verða spennandi listamenn sem eru að gera það gott víða um heim,“ segir Ísleifur og nefnir sem dæmi um þá Ian, Joey Valence & Brae, Sayu Gray, Fat Dog og Kenyu Grace. Nú bætist við tónleikastaðirnir Lemmy og Bird og því verði sannarlega af nógu að taka, bæði hvað varðar listamenn og tónleikastaði, og mikil fjölbreytni.
Ísleifur er spurður út í hlutfall íslenskra og erlendra atriða á hátíðinni og segir hann það nokkuð jafnt, um eitt íslenskt á móti hverju erlendu. En hvernig fer valið fram á tónlistarmönnum og hljómsveitum? Ísleifur svarar því til að það sé endalaust viðfangsefni sem spanni svo til allt árið.
„Það þarf að vera frumlegt, bandið þarf að hafa einhverja rödd og hafa eitthvað að segja, ekki einhverjar eftirhermur, og þarf að vera tilbúið að fara á svið. Við erum alveg til í eitthvað „up and coming“ og eitthvað nýtt en þau þurfa að geta verið á sviði og spjarað sig í 40 mínútur, að minnsta kosti. Það er svo mikil ásókn í að fá að spila á hátíðinni,“ segir Ísleifur.
Einn viðburðanna á dagskrá er Airwaves Partners Event og hefur hann verið hluti af hátíðinni í nokkur ár. Ísleifur er spurður að því hvaða viðburður þetta sé og svarar hann því til að hann sé öllu teygjanlegri en aðrir á hátíðinni, ekki bundinn við einn ákveðinn tónleikastað, lengd eða fjölda daga.
„Oft vill fólk bjóða upp á eitthvað yfir daginn því þá eru mörg þúsund manns, sérstaklega útlendingar, að leita að einhverju til að gera áður en fyrsti dagskrárliður byrjar. Það eru rosalega margir hliðar- og aukaviðburðir alla vikuna,“ bendir Ísleifur á.
Ísleifur segir alltaf ábata af því að vera með Airwaves-armband, þótt vissulega séu líka viðburðir með fríum aðgangi á dagskrá. Blaðamanni leikur forvitni á að vita hvort einhverjar kvartanir hafi borist skipuleggjendum yfir of miklu framboði viðburða og Ísleifur hlær að spurningunni.
„Við fáum allt, það er bæði of lítið og of mikið, hátíðin of lítil eða of stór. Það er svolítið út og suður og eiginlega innbyggt í hátíðina að þú missir af ansi miklu. Það eru alltaf sjö, átta staðir í gangi í einu svo þú þarft að velja og hafna. En við reynum að hafa dagskrána þannig að það séu ekki of miklir árekstar hjá böndum sem eru svipuð eða höfða til svipaðra hópa,“ svarar Ísleifur.
Hluti af stemningunni sé líka að hlaupa á milli staða, reyna að sjá og heyra eins mikið og kostur er. Ísleifur nefnir að lokum tónleika í Eldborg. Þeir fyrri verða á fimmtu- og föstudegi og eru samstarfsviðburður Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Mugisons en þeir seinni í samstarfi við hljómsveitina múm.
Allar frekari upplýsingar má finna á icelandairwaves.is.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
