Sænski glæpasagnahöfundurinn Viveca Sten hefur sent frá sér spennusöguna Mýrarljós, fjórðu bókina í ritröðinni „Morðunum í Åre“, og heldur sama takti og fyrr. Sagan er ekki aðeins spennandi heldur lýsir hún vandamálum, sem gjarnan blasa við, á raunsæjan hátt og hvaða afleiðingar viðbrögð við þeim, rétt eða röng, geta haft.
Fátt er áhyggjulausara en líf ungra háskólanemenda. Ekkert þykir eðlilegra en að sleppa fram af sér beislinu að loknum prófum, en þótt enginn ætli sér að ganga af björgum fram fara sumir of geyst í gleðinni og skaðinn er skeður áður en nokkur fær rönd við reist. Ábyrgðin vill gleymast á djamminu og hver bendir á annan. Gömul saga og ný.
Frásögnin af skíðaferð sexmenninganna, sem Mýrarljós hverfist um, lýsir þessu vel. Eftirvæntingin í upphafi ferðar leynir sér ekki á brautarstöðinni í Uppsölum, en ekki er allt sem sýnist. Á svipstundu fækkar ekki aðeins í hópnum heldur verður hver höndin upp á móti annarri, hver hefur sinn djöful að draga og jafnvel sjálfskipaður leiðtogi missir tökin. Hættan leynist ekki aðeins í erfiðum og bröttum brautum vinsæls skíðasvæðis heldur er hún alltumlykjandi. Kaldur veruleikinn á ekkert skylt við vota drauma og fólk verður hvorki dæmt eftir kynferði né útliti, frægð eða frama heldur af mannkostum og verkum.
Lýsing á ungu og óreyndu krökkunum kallast á margan hátt á við líf hinna eldri og reyndari. Krakkarnir eru ólíkir eins og þeir eru margir en eiga sína drauma og þrár. Stúlkurnar Fanny og Olivia ásamt Emil virka traustar og ábyrgar, en Amir og Pontus eru ósjálfstæðari og gapa upp í Wille, sem á sterkefnaða foreldra og stefnir sömu leið. Hann nýtur valdsins sem hann hefur yfir skólafélögunum með tilheyrandi yfirlæti og hroka. Emil er samkynhneigður og fær stundum að heyra það, en hann virðist ekki láta mótlætið á sig fá, er yfirvegaður og margt til lista lagt.
Samsvarandi persónur eru í heimi hinna fullorðnu. Auðkýfingurinn Henry Silvester hefur ákveðið vald yfir Hönnu lögreglukonu, ekki síst peninganna vegna. Åke Carlsson er óþolandi nágranninn, sem ætlast til þess að allir fari eftir því sem hann segir. Hús foreldra Willes í Åre, þar sem krakkarnir eru í skíðafríinu, fer sérstaklega í taugarnar á honum og þeir finna vel fyrir yfirgangi hans. Faðir Antons lögreglumanns er af sama meiði, undirofursti á eftirlaunum, sem lifir samkvæmt reglum hersins og stjórnar fjölskyldunni með hervaldi. Fyrir vikið þorir Anton ekki að koma út úr skápnum og það eitrar andrúmsloftið í nærumhverfi hans. Daníel lögreglumaður tiplar á tánum og er óöryggið uppmálað í einkalífinu, en gerir allt sem hann getur til að komast á rétta braut.
Boðskapur sögunnar snýr að því hvernig takast má á við erfiðleika og hvað betur má fara í daglegu lífi. Enginn á að komast upp með afbrot og allir eru jafnir fyrir lögum. Sambandsslit og skilnaðir reynast yfirleitt öllum viðkomandi erfið, ekki síst þegar ekki er hægt að ræða saman á yfirvegaðan hátt. Kynferðisleg áreitni er einmitt það en hvorki káf né þukl, fordómar eru sem olía á eld og þegar öllu er á botninn hvolft er öllum fyrir bestu að koma hreint fram með sannleikann og fyrirgefninguna að vopni. Viveca Sten kemur þessu vel til skila í bókinni og persónur hennar, eins ólíkar og þær eru, vega hver aðra upp og mynda góða og trúverðuga heild. Öllum verður á og allir geta haft rangt fyrir sér en mikilvægt er að viðurkenna mistök og reyna að læra af þeim.
Spennan er ekki bundin við eftirmála afbrota. Einkalíf Hönnu og Daníels, helstu persóna ritraðarinnar, er ekki síður í sviðsljósinu. Í fyrri bókum hafa þau greinilega hrifist hvort af öðru án þess að stíga skrefið til fulls. Hanna er með alla þræði í hendi sér og Daníel heldur í vonina en þótt þau vinni vel saman er ekki á allt kosið. Anton glímir líka við ákveðinn vanda vegna einkalífsins og setur foreldrum sínum stólinn fyrir dyrnar. Þegar á reynir er það ástin sem ræður för, en hún getur reyndar verið blind.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
