Malin Fors er með eftirminnilegustu persónum glæpasagna og Villuljós er með bestu sögum Svíans Mons Kallentofts með lögregluforingjann í aðalhlutverki.
Sagan spinnst út frá líki af óþekktum dreng sem fannst á engi í Linköping í Svíþjóð fyrir nokkrum árum. Malin rannsakar málið en alkóhólisminn og afneitunin eru henni ekki aðeins fjötur um fót heldur er hún á bjargbrúninni og ekki líkleg til stórræða.
Þó að allt gangi Malin í mót skyldi enginn afskrifa hana. Hún er ofurkona og þegar hún er í ham stenst enginn henni snúning. Meira að segja elskhugi hennar finnur rækilega til tevatnsins og á það svo sannarlega skilið.
Palli var einn í heiminum og ætla mætti að Malin væri það líka en svo er auðvitað ekki. Lögregluteymi hennar er firnasterkt og bakland hennar þar traust. Lýsing á þessum kjarna, vinnubrögðum hvers og eins og viðbrögðum við óvæntum atburðum gerir mikið fyrir söguna og sýnir hvað öflug liðsheild skiptir miklu máli. Tengsl koma sér einnig vel, ekki síst náin fjölskyldutengsl.
Lygin gegnir veigamiklu hlutverki í bókinni. Allir hafa eitthvað að fela og sumir beita ýmsum brögðum til þess að hylja slóð sína, en eins og í raunheimum kemur sannleikurinn yfirleitt í ljós. Hann getur komið sér illa, ekki síst þegar laganna verðir eiga í hlut, en þegar öll sund virðast lokuð opnast stundum undankomuleiðir. Hvort þær leiða til góðs fer eftir aðstæðum. Líka hjá Malin.
Ofbeldi er yfirleitt eitt helsta einkenni glæpasagna. Glæpamenn eru gjarnan fól en ruddarnir leynast víða, líka á meðal þeirra sem taldir eru vammlausir eða eiga að vera það stöðu sinnar vegna. Vald, hatur og hefnd fara illa saman en skipta oft máli í þessum sögum. Villuljós er allt þetta og mikið meira. Spennandi frásögn með sálfræðilegu og heimspekilegu ívafi um líf og dauða. Frábær og trúverðug glæpasaga.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
