Skáldskapur er stundum ótrúlega raunsær og glæpasagan Mál 1569 eftir Jørn Lier Horst er gott dæmi. Spennan er mikil og sannleikurinn dýru verði keyptur, en upp komast svik um síðir.
Sumir eru alltaf með hugann við vinnuna. Einn þeirra er William Wisting, lögregluforingi og lykilmaður í glæpasögum Jørns Liers Horsts, fyrrverandi rannsóknarlögreglumanns. Fréttir af horfinni konu sem varð sundurorða við eiginmann sinn skömmu áður vekja athygli lögregluforingjans í fríinu og hann á erfitt með að halda sig frá málsskjölunum. Óundirritað bréf með númeraröðinni 12-1569/99 og engu öðru dreifir huga hans og verður til þess að hann fer að grennslast fyrir um málið, sem hann reiknar út að sé frá miðju ári 1999.
Staðreyndirnar tala sínu máli. Ung stúlka var drepin 4. júlí 1999 og grunaður maður, fyrrverandi kærasti hennar, var dæmdur til að sitja inni í 17 ár. Nafnlausa bréfið lætur Wisting samt ekki í friði. Þarna er ekki allt sem sýnist.
Höfundi bókarinnar er tamt að vera með nákvæmar lýsingar á umfjöllunarefninu hverju sinni. Þær geta verið yfirþyrmandi en engu að síður þétta þær frásögnina, útskýra hvað stendur að baki ákveðnum vinnubrögðum og öðru og auka þannig skilning á verklagi, háttum og siðum. Persónulýsingarnar segja einnig áhugaverða sögu og varpa ljósi á hugarheim þeirra sem helst eiga hlut að máli, skýra gerðir þeirra og jafnvel aðgerðaleysi. Ákveðnar persónur í raunheimum koma jafnvel upp í hugann við lesturinn og það gerir söguna enn ískyggilegri.
Wisting er nákvæmur út í ystu æsar og veltir við hverjum steini. Hann setur sig í spor annarra, lokuð sund reynast vera víða í völundarhúsinu en hægt og sígandi þrengist hringurinn, þrátt fyrir mótspyrnu ýmissa sem hafa hagsmuna að gæta.
Mál 1569 er spennandi og trúverðug glæpasaga með vendingum í allar áttir og heldur til haga mikilvægi þess að hafa réttsýna menn við stjórnvölinn. Menn eins og Wisting.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
