Glæpasagan Rósa og Björk eftir finnska rithöfundinn Satu Rämö er framhald af Hildi, sem kom út á íslensku í fyrra. Sem fyrr er helsta sögusviðið Ísafjarðarbær og nágrenni með Hildi rannsóknarlögreglumann í aðalhlutverki. Óleyst mál er til lykta leitt og önnur eru rannsökuð en ekki eru öll kurl komin til grafar og margt býr í þokunni.
Í Hildi var sagt frá sporlausu hvarfi Rósu og Bjarkar, yngri systra Hildar, 1994 og í nýju bókinni er haldið áfram þar sem frá var horfið um 26 árum síðar. Fjölskyldusagan er þyrnum stráð en jafnt og þétt skýrist málið.
Samfara leit Hildar að systrum sínum rannsakar hún tvö dauðsföll. Þekktur athafnamaður og stjórnmálamaður er myrtur á skíðasvæði Ísfirðinga og um svipað leyti ferst maður í flugslysi skömmu eftir flugtak frá Reykjavíkurflugvelli. Hulda er skyggn og tengir málin, en þó að niðurstaða fáist eru enn lausir endar.
Sagan er spennandi og mörgum steinum er velt við áður en lausnin liggur fyrir. Farið er fram og aftur í tíma með Hildi sem hryggjarstykki og finnska lögreglumanninum Jakobi vex fiskur um hrygg með hverri lykkju.
Fjölskyldusaga Hildar er átakanleg, en jafnframt sérlega vel gerð og lýsandi, og hugsanlega hefði farið betur á því að hafa hana í fyrri bókinni. Þá hefði verið hægt að fylla betur í eyðurnar í hinum hlutanum í stað þess að gefa slúðrinu og sleggjudómunum byr undir báða vængi. Þar gengur Hildur lengst af öllum, en hún hefur síst efni á því, opinberar að hún hafi ekkert fjármálavit, þegar kemur að lánum!
Ofbeldi af ýmsum toga, yfirgangur, ástleysi, afprýðisemi og hefnd eru ríkjandi stef í sögunni að ónefndri ástinni og umhyggjuseminni. Höfundur býr til eftirminnilega frásögn af heimilislífi, mismunandi lífsbaráttu, fátækt, auði og valdi, og tengir brotin saman í góða heild. Ýmsar brotalamir í kerfinu eru viðraðar og ljóst að Satu Rämö hefur nægan efnivið.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
