Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið hyggst ráðast í víðtækar breytingar og hagræðingar á næstu árum til að auka skilvirkni, bæta þjónustu og nýta fjármuni betur.
Alls eru 21 verkefni þegar í vinnslu og stefnt er að því að ljúka þeim fyrir árið 2030.
Þetta kemur fram í tilkynningu ráðuneytisins.
Á meðal stærstu aðgerða er sameining fjölmargra stofnana á sviði menningar og háskólastarfs. Kvikmyndasafn Íslands, Hljóðbókasafnið og Landsbókasafnið verða sameinuð, sem og Listasafn Íslands og Listasafn Einars Jónssonar.
Þá verður komið á sameiginlegri yfirstjórn yfir Þjóðleikhúsið, Óperuna og Íslenska dansflokkinn, en fyrsta skrefið hefur þegar verið stigið með stofnun Óperunnar innan Þjóðleikhússins í sumar.
Í tilkynningunni kemur fram að viðræður séu í gangi um sameiningu Háskólans á Akureyri og Bifrastar og að niðurstöðu þeirra sé að vænta á næstu mánuðum.
Auk þess hefur Háskólinn á Hólum undirritað samkomulag við Háskóla Íslands um stofnun háskólasamstæðu sem stefnt er á að taki til starfa í áföngum frá 2026.
Einnig er í skoðun að Keldur og Landbúnaðarháskóli Íslands muni starfa saman undir merkjum þeirrar háskólasamstæðu.
Á sviði nýsköpunar og vísinda verður fjöldi samkeppnissjóða skertur úr átta í fjóra í þágu aukinnar skilvirkni, svo aukið fé skili sér til verkefna og lægri umsýslukostnaðar, að því er segir í tilkynningunni.
Jafnframt stendur til að endurskoða endurgreiðslur vegna kvikmyndaframleiðslu og auka notkun gervigreindar í stjórnsýslu og heilbrigðiskerfinu.
Samkvæmt ráðuneytinu miða allar breytingarnar að því að lækka rekstrarkostnað, tryggja skilvirkari stuðning við menningu, vísindi og háskólastarf og styrkja þjónustu við almenning.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
