„Þetta hefur gríðarlega mikla þýðingu fyrir mig, sérstaklega þar sem þetta er mín fyrsta bók,“ segir Birna Daníelsdóttir sem tók við Sólfaxa – íslensku barnabókaverðlaununum 2025 fyrir skömmu. Verðlaunin eru veitt fyrir handrit að myndríkri bók en verðlaunabók Birnu ber titilinn Ég bý í risalandi. Á fjórða tug handrita bárust í samkeppnina í ár.
„Það er gott að komast svona á blað. Ég skipti um stefnu í lífinu. Ég hafði aldrei trú á mér til að fara í listnám. Þannig að hafa gert það, svona seinna meir, og fá svo þessi verðlaun, gerir mig rosalega stolta af sjálfri mér.“
Þetta er í fyrsta sinn sem Sólfaxi – íslensku barnabókaverðlaunin eru veitt en samkeppnin stendur þó á gömlum grunni. Stofnað var til verðlaunanna árið 1985 undir heitinu Íslensku barnabókaverðlaunin en árið 2024 var eðli þeirra breytt og einungis óskað eftir handritum að myndríkum bókum. Fengu þau af því tilefni nýtt nafn, Sólfaxi – íslensku barnabókaverðlaunin.
Að samkeppninni standa fjölskylda Ármanns Kr. Einarssonar, Barnavinafélagið Sumargjöf og Forlagið, sem gefur sigurhandritið út á bók að keppni lokinni.
Í dómnefnd sátu Anna Cynthia Leplar, Guðrún Lára Pétursdóttir og Sölvi Sveinsson en í umsögn hennar segir meðal annars:
„Ég bý í risalandi eftir Birnu Daníelsdóttur er einstaklega falleg bók um vandræðin sem fylgja því að vera lítill í veröld sem sniðin er að fullorðnu fólki en líka um allt það stórfenglega sem kemur í ljós þegar horft er á heiminn úr tæplega eins metra hæð. Myndir og texti hjálpast að við að segja söguna og fanga á frumlegan og frjóan hátt sjónarhorn barnsins, hugarheim þess og ímyndunarafl. [...] Ég bý í risalandi er dásamleg bók sem ungir og aldnir hafa án efa gaman af að lesa aftur og aftur.“
Spurð hvaðan hugmyndin að bókinni hafi sprottið segir Birna: „Í bókinni er ég að skoða hvernig börnin sjá heiminn. Þau ná manni kannski ekki nema upp á mið læri og sjá veröldina frá öðru sjónarhorni. Elsti strákurinn minn grínast reyndar með það að ég hafi verið að skrifa út frá sjálfri mér þar sem ég er ekki há í loftinu.“
Hún segist sjálf eiga þrjú börn og hafa sótt í þeirra upplifanir af umhverfinu. „Ég sótti mikið í þá fjársjóðskistu. Á einni opnunni í bókinni til dæmis eru börnin nær jörðinni og sjá meira það sem er nær þeim. Þau tína upp dót af jörðinni og það er allt eitthvað sem ég hef fundið í vösum hjá börnunum mínum þegar ég hef verið að setja í vél. Það eru snæri, tappar og skrúfur og alls kyns dót sem er verið að safna. Svo fékk veggjakrot, sem dóttir mín hefur teiknað hérna heima, sitt pláss. Ég tók mynd af því og notaði í bókina. Þannig það læðist inn alls konar úr fjölskyldulífinu.“
Aðspurð segir Birna litagleði skipta miklu máli þegar að höfða eigi til barna. „Mér finnst krakkar heillast af litasprengjum, einfaldleika og jafnvel að þetta sé eitthvað sem þau gætu líka teiknað. Það er oft erfiðara að teikna einfalt.“
Eins og fyrr segir er Ég bý í risalandi fyrsta bók Birnu og því liggur beint við að spyrja hana hvað hún hafi fengist við áður.
„Ég lærði líffræði hérna heima og fór svo í meistaranám í sjávarlíffræði í Lundi í Svíþjóð. Við bjuggum þar í mörg ár. Þegar ég kom heim fór ég að vinna við örverufræði, í gæðaeftirlitsdeild hjá Alvotech. Svo var ég að nálgast fertugt og fór í kulnun. Svoleiðis lífsreynsla lætur mann líta í eigin barm. Þetta var kannski einhver miðlífskrísa í bland,“ segir hún og hlær.
„Það hafði alltaf verið draumur minn að vinna við meiri skapandi verkefni. Ég hafði sem barn teiknað mikið og farið á myndlistarnámskeið. Það að gera eitthvað skapandi og með höndunum heillaði mig alltaf mest. Eftir þessa kulnun ákvað ég að sækja um í Myndlistarskóla Reykjavíkur, í teiknideildina. Þegar ég komst inn ákvað ég að segja upp vinnunni og láta á þetta reyna. Ég vildi gefa mér þessa gjöf, að vera í námi í tvö ár. Þegar ég var byrjuð var síðan ekki aftur snúið.“
Birna segir að í náminu hafi þau verið hvött til að prófa sig áfram með mismunandi aðferðir. „Ég heillaðist af því að mála og teikna, klippa út og endurraða. Ég nota blandaða tækni og í bókinni blanda ég saman ólíkum efnivið og áferð.“
Spurð hvort hún hafi alveg sagt skilið við líffræðina segir Birna svo ekki vera. „Síðustu tvö sumur hef ég farið í hvalatalningu fyrir Hafró og var eiginlega bara að koma í land. Þegar maður vinnur sjálfstætt þá er gott að geta tekið svona verkefni að sér. Svo er ég líka í aukavinnu í eldhúsi. Ég verð að reyna að hafa í mig og á meðan ég er að reyna að koma mér fyrir í nýjum bransa, skapa mér nafn og pláss.“
Hefur bakgrunnur þinn í líffræði áhrif á hvað þú teiknar?
„Mig langar að nýta líffræðina meira og taka að mér myndlistarverkefni tengd henni. Þegar ég var í líffræðináminu fannst mér langskemmtilegast í verklegu tímunum þegar maður var að teikna upp öll dýrin og krufningarnar og þegar maður var að glósa alla lífsferlana. Ég gleymdi mér stundum í því í staðinn fyrir að læra. Þegar ég er að búa til karaktera þá nota ég stundum makrómyndir af skordýrum sem innblástur að andlitum.“
Birna segir að sig langi til að halda áfram að gera barnabækur þegar hún er spurð hvað taki við. „Svo er ég líka að mála og er með málverkasýningu í undirbúningi. Mér finnst eiginlega of margt skemmtilegt, til dæmis prentverk og að sauma út.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
