Illska manna er yrkisefni Kára Valtýssonar í glæpasögunni Hyldýpi. Hann gerir sér sérstaklega mat úr ástandinu í Darfúr-héraði í Súdan í Afríku og stöðunni á Íslandi og hvað geti gerst án forvarna hérlendis, blandar saman raunveruleika og skáldskap og farnast það vel að mörgu leyti.
Lýsingin á hömungunum í Súdan fyrir um 20 árum er vægast sagt hryllileg. Viðbjóðurinn er takmarkalaus og óeðli manna með ólíkindum. Á meðal hjálparstarfsmanna hjá Læknum án landamæra er ungur læknir frá Akureyri, Dögg Marteinsdóttir. Hún og Sarah, kollegi hennar frá Bandaríkjunum, ganga saman í gegnum súrt og sætt og skilja má að misþyrmingin, sem þær upplifa, sé daglegt brauð í Súdan. Helvíti getur ekki verið verra.
Um margradda frásögn er að ræða. Vonleysið skín í gegn hvert sem litið er og þá er hvorki hjálparstarfið í Afríku né ástandið á Íslandi undanskilið. Nýtt líf eykur von, en oftar en ekki fylgir því ótímabær dauði með skelfilegum afleiðingum.
Hyldýpi er óvenjuleg glæpasaga. Að stærstum hluta fjallar hún um glæpi gegn mannkyni, þar sem gerendur þurfa almennt ekki að svara til saka og eru í besta falli drepnir án dóms og laga. Síðan eru það glæpir á Íslandi, sem eiga að fara sína leið í dómskerfinu. Fast er skotið á starf hjálparstofnana og bent á ýmsa vankanta í íslenska kerfinu. Með réttu og ekki síður röngu.
Menn fá ekki háa einkunn. Talað er um vitskerta veröld, geðsjúkan heim og harmsögu í ljósi atburðanna í Darfúr. Sumir, sem vilja snúa við blaðinu, eygja von á Íslandi, en það er skammgóður vermir. Illskan virðir engin landamæri.
Bókin er vel skrifuð og sérstaklega er frásögnin um ógnina í Darfúr sláandi, minnir einna helst á vandaða fréttaskýringu. Engu að síður eru þar, eins og víðar í sögunni, lausir endar, sem slaka á trúverðugleikanum og ýmislegt virðist beinlínis vera ógerlegt. Dögg er límið, ótrúlega sterk kona, en kraftur hennar er sennilega ofar mannlegum mætti.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
/frimg/1/59/66/1596635.jpg)