François-Xavier Dillmann, prófessor emeritus frá Sorbonne-háskóla í París, leggur reglulega leið sína hingað til lands og dvelur þá gjarnan í fræðimannsíbúð í Snorrastofu í Reykholti. Hann hefur lagt stund á rannsóknir á sviði fornnorrænna fræða og þýtt höfuðverk Snorra Sturlusonar yfir á frönsku.
Spurður hvers vegna það sé honum mikilvægt að sækja Ísland heim reglulega svarar hann á góðri íslensku: „Þannig er mál með vexti að það er gott fyrir mig að reyna að tala íslensku og rifja upp nútímamálið. Þegar ég er í Frakklandi fæ ég ekki mörg tækifæri til að tala íslensku þrátt fyrir að ég sé á hverjum degi að rýna í gamla texta. En fornnorrænan er auðvitað öðruvísi en nútímaíslenska. Það er gott að blanda geði við Íslendinga og hitta kollega mína og vini.“
Hann bætir við að það komi sér einnig vel að geta nálgast nýjustu bækur og tímarit. „Hér er bókakostur sem ekki er til í Frakklandi, sérstaklega hérna í Snorrastofu, á Árnastofnun og á Landsbókasafni. Það skiptir máli að geta notað bækur sem ég hef ekki aðgang að í Frakklandi,“ segir hann.
„Mér líður mjög vel í Reykholti. Þetta er skemmtilegur staður og skógurinn sem séra Geir Waage stóð fyrir að láta gróðursetja er mjög fallegur. Það er líka gott að geta spurt fróða menn á staðnum eins og Óskar Guðmundsson sem vinnur í Snorrastofu og séra Geir þegar ég rekst á orð sem eru – eða mér virðist vera – torskilin og geta fengið skýringar um leið. Það kemur sér vel þegar maður er að þýða.“
Dillmann hefur helgað stóran hluta síns starfsferils þýðingum á íslenskum fornritum og sagnfræðilegri túlkun þeirra. Snorra-Edda kom út hjá franska forlaginu Gallimard árið 1991 og var það upphafið að samstarfi hans við þetta merka forlag.
Þegar blaðamaður tók Dillmann síðast tali árið 2022 var annað bindi Heimskringlu nýkomið út hjá forlaginu en fyrsta bindið kom út árið 2000. Nú hefur hann hafist handa við að þýða þriðja og síðasta bindið. „Ég byrjaði í fyrra og er núna í Magnúss sögu góða sem er fyrsta sagan í síðasta þriðjungnum. Þetta mjakast áfram en tekur náttúrlega sinn tíma þegar það eru margar dróttkvæðavísur, sem eru stundum erfiðar.“
Spurður hvað hann geri ráð fyrir að það taki hann langan tíma að klára þýðinguna segir hann: „Það fer eftir því hvort ég get einbeitt mér að þessu verkefni. Þegar ég er í Frakklandi er ég stundum beðinn að halda erindi og ég skrifa greinar í afmælisrit og slíkt. Ég get ekki einbeitt mér alveg að þessari þýðingu en það væri auðvitað best.“
Það tekur þar að auki tímann sinn að semja skýringar við textana. „Það er drjúgur skýringarþáttur í bókinni sem kom út fyrir þremur árum. Norðmenn voru mjög fegnir því og ætla að reyna að láta þýða þennan hluta af bókinni yfir á norsku. Það er gleðilegt að heyra.“
Hefur vinnan við að þýða Heimskringlu eitthvað breyst á undanförnum árum og áratugum?
„Það er alveg jafn erfitt að þýða þetta verk og þegar ég byrjaði. Það koma alltaf upp ný vandamál. Franskan er mjög frábrugðin íslenskunni og þar að auki er þetta forníslenska og það getur verið erfitt að finna orð í nútímafrönsku sem passa,“ segir Dillmann.
Ein breyting segir hann að hafi orðið til góðs frá því að hann hófst handa við að þýða verk Snorra. „Það hjálpar að textinn sé til á rafrænu formi. Það gerir mér auðveldara að fletta upp í textanum og leita að dæmum um notkun ákveðinna orða. Það var ekki til þegar ég var að byrja.
Útgefendur á Íslandi sem gáfu út Heimskringlu á nútímamáli árið 1991 voru svo elskulegir að láta mér í té rafræn skjöl með textanum þar sem ég get leitað að dæmum um ákveðið orð. Að hafa textann á rafrænu formi gagnast mér líka við að samræma þýðingu mína. Það er best að reyna að halda ákveðnu samræmi þótt auðvitað sé stundum ákveðinn blæbrigðamunur á orðalagi.“
Er áhugi fyrir þessum verkum í Frakklandi?
„Forlagið Gallimard, sem er eitt af stærstu forlögum í Frakklandi þegar kemur að fagurbókmenntum og fræðiritum, hefur selt um 66 þúsund eintök af þýðingu minni á Snorra-Eddu og 29. endurprentun kom út í mars. Forlagið lét endurprenta hana í 5.000 eintökum sem þýðir að forlagið er bjartsýnt um að selja bókina. Það er gaman að frétta að lesendur vilji eignast bókina.“
Spurður hvort hann hafi nýtt tímann á Íslandi til að vinna að einhverju fleiru segist hann hafa unnið að tveimur fyrirlestrum sem hann mun flytja í París í vetur. Þar muni hann fjalla um valda kafla í Ólafs sögu helga.
„Annar fjallar um fæðingu sonar Ólafs Haraldssonar. Fæðingin var erfið og barnið næstum dáið; þess vegna tók íslenska skáldið Sighvatur Þórðarson þá ákvörðun að láta skíra barnið þegar um nóttina. Það var bannað að vekja Ólaf konung að nóttu til svo Sighvatur fann sjálfur nafnið, sem var Magnús. Drengurinn var skírður í höfuðið á Charlemagne eða Karla-Magnúsi og var það í fyrsta sinn sem nafnið Magnús var notað á Norðurlöndum. Það er orðið mjög vinsælt mannanafn á Íslandi, eins og kunnugt er, en þetta var ákveðin bylting því Magnús, sem í raun er lýsingarorð og merkir hinn mikli, var alls ekki norrænt nafn, og ekki heldur biblíunafn,“ segir Dillmann.
„Við Óskar og séra Geir vorum á leið til Odda um daginn, þar sem Óskar átti að flytja erindi í tilefni af Njáluvöku, og ókum fram hjá Apavatni en þar ólst Sighvatur skáld upp. Það var sérstaklega gaman fyrir mig að hugsa til þess að þetta mikla íslenska skáld og upphafsmaður þessa nafns hafi verið þaðan.“
Sighvatur er ekki eina skáldið sem Dillmann fékk að kynnast betur í ferðinni.
„Ég er líka mjög feginn því að hafa fengið tækifæri til að fara meðfram Hallkelsstöðum í uppsveitum Borgarfjarðar, þegar séra Geir bauð mér með sér í bíltúr einn góðan veðurdag. Á Hallkelsstöðum fæddist annað merkt íslenskt skáld, Tindur Hallkelsson. Hann orti Hákonardrápu, fallegt kvæði og um leið mikilvæga heimild um Hákon jarl Sigurðarson og um hina snörpu orrustu sem þessi frægi höfðingi háði á móti Jómsvíkingum á Hjörungavági um 985. Þar sem ég var nýbúinn að flytja erindi um þetta kvæði var mjög skemmtilegt fyrir mig að sjá umhverfið þar sem Tindur ólst upp. Allt í einu fékk ég miklu sterkari tilfinningu fyrir þessu skáldi.“
Finnst þér þú vera farinn að þekkja Snorra Sturluson eftir öll þessi ár?
„Já, kannski er andi hans viðstaddur í Reykholti. Ég vil leyfa mér að segja að ég sé farinn að skilja hann betur, eða að minnsta kosti vinnubrögð hans, en virðing mín fyrir Snorra eykst með ári hverju.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
