Bókaútgáfan Hólar sendir að vanda frá sér fjölbreytta flóru bóka. Flestar má flokka sem bækur almenns efnis, sagnfræði, ævisögur og ýmsan fróðleik.
Fyrst má nefna að Guðni Einarsson skráir ævisöguna Óli Gränz. Þar er sögð saga um mikinn ævintýramann sem missti allt sitt í Vestmannaeyjagosinu og hefur lent í mörgu öðru, bæði sorglegu og spaugilegu, að því er fram kemur í kynningartexta frá útgefanda.
Í bókinni Með frelsi í faxins hvin – riðið í strauminn með Hemanni Árnasyni er fjallað um „þennan magnaða hestamann frá Vík og Hvolsvelli, hinar landsþekktu hestaferðir hans, hrossahald og hestamennsku“, að því er segir í kynningartexta. Hjalti Jón Sveinsson er höfundur bókarinnar.
Berklar á Íslandi nefnist ný bók eftir Erlu Dóris Halldórsdóttur. Hún fjallar eins og titillinn bendir til um sögu eins lífshættulegasta smitsjúkdóms á Íslandi. „Berklaveiki var mikið þjóðarmein í íslensku samfélagi í byrjun 20. aldar og var dánartala berklasjúklinga á Íslandi ein sú hæsta í Evrópu. Var það einkum ungt fólk í blóma lífsins sem laut í lægra haldi fyrir þessum skelfilega vágesti.“
Í bókinni Langt var róið og þungur sjór má finna líkön Njarðar S. Jóhannssonar af norðlenskum hákarlaveiðiskipum auk frásagna af afdrifum þeirra skipa sem heimildir eru til um. Höfundur bókarinnar er Sigurður Ægisson.
Sigurður Ægisson sendir frá sér bókina Ævintýraheimur íslenskra fugla sem sögð er sannkölluð fjölskyldubók um 16 fuglategundir sem verpa hér, sögur af þeim og hátterni þeirra.
Jóna, atkvæði og ambögur nefnist safn vísna eftir Jón Ingvar Jónsson, sem lést um aldur fram, en var einn af okkar snjöllustu hagyrðingum og fór gjarnan hárfínt yfir strikið, segir útgefandi. Ritstjóri er Símon Jón Jóhannsson.
Kína frá fyrri öld er ljósmyndabók eftir Unni Guðjónsdóttur sem um árabil fór með ferðalanga til þessa víðfeðma og fjölmenna lands undir merkjum Kínaklúbbs Unnar. Í bókinni veitir hún lesendum innsýn í land og þjóð frá fyrri tíð.
Pétur Þorsteinsson, sem lengi var prestur Óháða safnaðarins, sendir frá sér Pétrísk-íslenska orðabók – með alfræðiívafi. Pétur er sagður hafa til margra ára fundið skrýtin og skemmtileg orð til að setja í stað hinna hversdagslegu og litlausu.
Símon Jón Jóhannsson ritstýrir Afmælisriti Flensborgarskólans, en síðastliðið vor voru 50 ár liðin síðan fyrstu stúdentarnir útskrifðust þaðan og rifja nokkrir af stúdentunum, frá 1975 til 2025, upp veru sína í skólanum á skemmtilegan hátt, auk þess sem þarna verður að finna ágrip af sögu skólans. Fjölmargar myndir prýða bókina.
Saga Kvartmíluklúbbsins 1975-2025 segir hálfrar aldar sögu þessa stórmerkilega klúbbs í máli og myndum. „Greint er frá skrautlegum aðdraganda að stofnun hans og fjölmörgum ökumönnum er fylgt eftir á misjöfnum ökutækjum, svo ekki sé meira sagt. […] Margt er hér afar fróðlegt og þótt á móti blási á köflum er oft stutt í húmorinn.“ Höfundur er útgefandinn sjálfur, Guðjón Ingi Eiríksson.
Guðjón Ingi skrifar jafnframt bókina Lamine Yamal sem fjallar um „þennan mikla og efnilega, spænska knattspyrnusnilling, sem slegið hefur hvert metið af öðru, bæði með félagsliði sínu, Barcelona, og spænska landsliðinu“.
Þá sendir Guðjón Ingi einnig frá sér bókina Segir mamma þín það? Gamansögur úr íslenska skólakerfinu. „Já, það eru ekki bara tóm leiðindi í íslenska skólakerfinu þótt fréttir þaðan séu dálítið á þann veg. Þar gerist líka margt spaugilegt og hér er brot af því,“ segir í kynningartexta.
Loks má nefna að Guðjón Ingi gefur út Knattspyrnuþrautir seminnihalda margvíslegar þrautir í tengslum við vinsælustu íþróttagrein í heimi, knattspyrnuna.
Þar fyrir utan gefur Bókaútgáfan Hólar út bækur í bókaflokkum sínum Spurningabókinni og Fótboltaspurningar, auk Fimm aura brandara.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
