Bjartur & Veröld og Fagurskinna gefa út á sjötta tug titla árið 2025. Að venju skipa skáldverk veglegan sess á útgáfulistanum.
Ólafur Jóhann Ólafsson sendir frá sér nýja skáldsögu sem nefnist Kvöldsónatan. „Eftir glæsilegan tónlistarferil ytra snýr Stefán loks aftur heim til Íslands í ferð sem neyðir hann til að horfast í augu við sjálfan sig og líf sitt, mistök sín og það sem hann hefur gert sjálfum sér og öðrum,“ segir um hana.
Ný glæpasaga Yrsu Sigurðardóttur er væntanleg um miðjan nóvember en efni hennar og titill eru ekki gefin upp að svo stöddu, nema hvað bókin er sjálfstæð.
Ragnar Jónasson kemur að lesendum úr óvæntri átt, eins og útgefandi orðar það, með snarpri draugasögu sem nefnist Emilía. „Ung kona flytur með foreldrum sínum og ömmu inn í timburhús í miðbæ Reykjavíkur. Ekki líður á löngu þar til hún uppgötvar að þau eru ekki ein á nýja heimilinu,“ segir um bókina.
Eva Björg Ægisdóttir sendir frá sér nýja glæpasögu sem nefnist Allar litlu lygarnar. „Ung velgengnishjón láta lífið af skotsárum á heimili sínu frá tveimur dætrum, kornabarni og unglingsstúlku. Tuttugu árum síðar leitar sú eldri til sálfræðings sem sérhæfir sig í áföllum – og þekkir þau reyndar líka á eigin skinni.“
Katrín Júlíusdóttir fylgir eftir verðlaunakrimmanum Sykri með nýrri glæpasögu sem nefnist Þegar hún hló. Sú hefst þegar umdeild fjölmiðlakona finnst myrt eftir að hafa hlaupið Reykjavíkurmaraþon.
Þá er ótalin glæpasaga sem koma mun út í lok október en útgefendur vilja ekki gefa upp nafn höfundar né titil að svo stöddu.
Undanfarin ár hefur Snæbjörn Arngrímsson sent frá sér glæpasögur en nú kemur út eftir hann skáldsagan Bók vikunnar. Sagan fjallar um ungan sveitapilt sem gengur illa að fóta sig í borginni. „Í bókinni spretta fram sérstæðar persónur í kunnuglegu umhverfi – og seiðmögnuð stemning ljær sögunni leyndardómsfullan blæ.“
Þá eru væntanlegar tvær bækur eftir nýja höfunda. Árni Helgason lögfræðingur sendir frá sér sína fyrstu skáldsögu sem nefnist Aftenging. „Fimm gamlir vinir ákveða að kúpla sig út úr amstri hversdagsins og bregða sér um helgi út í eyjuna Grið. Þetta er hvöss en glettin saga úr samtímanum um fólk sem baslar í sínu – og hvernig vináttu reiðir af á tímum þar sem tækin þekkja okkur betur en við sjálf og gleyma engu.“
Einnig kemur út bókin Andrými eftir Eirík Jónsson, sem þekktari er sem þvagfæraskurðlæknir, en sögur bókarinnar kallar hann kviksögur. „Þær eru gjarnan óvæntar og skrítnar, sumar sannar og aðrar augljóslega lognar. Þar stíga fram sérstæðar persónur af ýmsu tagi og fá rödd og rými,“ segir útgefandi.
Þá sendir Bergsveinn Birgisson frá sér bókina Hlaðan – Þankar til framtíðar. „Bergsveinn ákveður að endurbyggja hlöðu forfeðra sinna norður á Ströndum sem er komin að hruni. Það fær hann til þess að hugsa um heiminn og stöðu mannsins í honum.“
Fyrr á árinu kom út á íslensku og ensku bókin Kristján H. Magnússon – Listamaðurinn sem gleymdist. Aðalhöfundur og ritstjóri bókarinnar er Einar Falur Ingólfsson en meðhöfundar eru Goddur og Dagný Heiðdal.
Íslensk handrit frá fyrri öldum hafa að geyma hundruð sönglaga en fæst þeirra hafa verið aðgengileg flytjendum og áhugafólki um tónlist. Í bókinni Syng, mín sál safnar Árni Heimir Ingólfsson saman 40 lögum úr þessum handritum.
Karl Sigurbjörnsson biskup lauk við sjálfsævisögu sína rétt fyrir andlátið í febrúar árið 2024 og hefur hún nú verið búin til prentunar, ríkulega skreytt ljósmyndum.
Þrjár ljóðabækur koma út undir merkjum Bjarts & Veraldar í haust: Lífið er undantekning eftir Sigurlín Bjarneyju, Nokkur orð um notagildi lífsins eftir Sigmund Erni Rúnarsson og Hreinsunareldur eftir Steindór Jóhann Erlingsson.
Ein ný barnabók er væntanleg. Kristín Helga Gunnarsdóttir og Halldór Baldursson senda frá sér bók úr flokknum um Obbuló sem nefnist Obbuló í Kósímó – Gjafirnar. Þá kemur út á ný bókin Fíasól og litla ljónaránið eftir þau tvö en hún hefur lengi hefur verið ófáanleg.
Söguþættir landpóstanna í ritstjórn Helga Valtýssonar nutu skv. útgefanda mikilla vinsælda en bækurnar hafa lengi verið ófáanlegar. Nú kemur út úrval úr þessu mikla safni um svaðilfarir landpóstanna fyrr á tíð. Guðjón Ragnar Jónasson valdi þættina í nýju útgáfuna. Hrossafræði eftir Ingimar Sveinsson er einnig endurútgefin en hún kom fyrst út árið 2010 og hefur verið uppseld um langa hríð.
Þá kemur út í nýrri og endurskoðaðri útgáfu Andlit eftir Bjarna M. Bjarnason sem upphaflega var gefin út árið 2003. Andlit „telst með okkar bestu skáldævisögum“, segir Halldór Guðmundsson bókmenntaræðingur í eftirmála bókarinnar. Bjartur endurútgefur einnig Indjánann eftir Jón Gnarr og Karitas án titils eftir Kristínu Marju Baldursdóttur.
Þá eru að sjálfsögðu ótalin ýmis þýdd verk bæði fyrir börn og fullorðna, meðal annars eftir Olgu Tokarzcuk, Claire Keegan, Han Kang og J.K. Rowling.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
