Bókabeitan stendur að venju fyrir veigamikilli bókaútgáfu fyrir börn og ungmenni auk þýðinga á vinsælum bókum en fyrst má þó nefna tvær skáldsögur ætlaðar fullorðum sem koma út í haust.
Ægir Þór sendir frá sér sína fyrstu skáldsögu, Grár köttur, vetrarkvöld, en hann hefur áður sent frá sér ljóðbækur. Sagan er sögð samanstanda af mörgum smáum myndum og persónum sem allar tengjast á einhvern hátt.
Ragnheiður Jónsdóttir sendir frá sér sína þriðju glæpasögu, Sleggjudómur. Ragnheiður hlaut Svartfuglinn fyrir fyrstu glæpasögu sína. Sleggjudómur fjallar um stjórnanda vinsæls fréttaskýringaþáttar sem finnst látin.
Af barna- og ungmennabókum má fyrst nefna bókina Njála hin skamma eftir Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur. „Hér dregur hún saman Njálu í stuttu máli og myndum til að fólk geti kynnst nokkrum af litríkum persónum hennar og áttað sig á þræði sögunnar í grófum dráttum.“
Fanney Hrund Hilmarsdóttir heldur áfram með bókaflokk sinn um ævintýraveröldina Dreim og sendir frá sér bók númer tvö, Dýr móðurinnar. Dreim er sögð veröld sem rís á grunni kenningarinnar um fávísisfeldinn (e. Veil of Ignorance). Sesselía Ólafsdóttir sendir einnig frá sér fantasíu sem nefnist Silfurberg. „Þegar Berglind fer í útilegu með vinkonum sínum órar hana ekki fyrir því að duldir kraftar hennar muni vakna úr dvala og leiða hana inn í framandi veröld,“ segir m.a. um bókina.
Paradísareyjan er þriðja bók Emblu Bachmann en fyrstu tvær voru báðar tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Hún fær til liðs við sig Bergrúnu Írisi í myndlýstri bók með „pólitískri ádeilu á litla karla með stórt egó sem vilja móta heiminn eftir eigin hugmyndum“. Hilmar Örn Óskarsson og Blær Guðmundsdóttir senda frá sér bókina Voðagerði: Lilja og límbandið sem er sögð „ríkulega myndlýst hryllingssaga fyrir þau sem þora“.
Þá senda Bergrún Íris Sævarsdóttir og Tindur Lilja frá sér bókina Skólinn í Skrímslabæ. Hún fjallar um mannabarnið Evu Brá sem hittir fjöldann allan af skrítnum skrímslum í skólanum, til dæmis „lítinn svangan varúlf, hrekkjótta norn og vampíru með stæla“. Þá halda Bergrún Íris og Simmi áfram að skrifa um blóðþyrstu unglingana Dag og Ylfu í bókinni SkuldaDagur. Rugluskógur nefnist bók eftir Elísabetu Thoroddsen í samvinnu við Bergrúnu Írisi en hún er sögð vera falleg ævintýrabók.
Hjónin Yrsa Þöll Gylfadóttir og Gunnar Theodór Eggertsson skrifa sína fyrstu bók saman sem nefnist Jólabókaormurinn. „Þið kannist við jólaköttinn ... en hafið þið heyrt um jólabókaorminn?“ Yrsa Þöll og Iðunn Arna halda áfram með bókaflokkinn Bekkurinn minn, að þessu sinni með sögu Wiktoríu, Björgum móanum!
Nokkrar myndabækur fyrir yngstu lesendurna eru væntanlegar. Hjartslátturinn hennar Lóu nefnist samstarfsverkefni mæðgnanna Lilju og Kristínar Cardew og er sögð falleg saga um viðbrögð barns við sorgarfréttum og hvernig það vinnur úr sorginni af næmi og glettni á einlægan hátt.
Ljóðakistan er vönduð kista með þykkum spjöldum, öðrum megin er þekkt barnaljóð og hinum megin falleg vatnslitamynd. Um er að ræða samstarfsverkefni þriggja unga mæðra; Júlíu, Margrétar og Sædísar Hörpu.
Kristín Björg Sigurvinsdóttir rithöfundur og Sigrún Alda Sigfúsdóttir talmeinafræðingur senda frá sér bókina Amelía og Ólíver sem sögð er kennslubók í orðaforða dulbúin sem barnabók. Herborg Árnadóttir hannar bókina og myndlýsir. Þess má jafnframt geta að Kristín Björg og Herborg senda einnig frá sér Silfurflautuna sem er önnur bókin um ráðgátugleraugun.
Þá bæta Þorvaldur Davíð Kristjánsson og Bergrún Íris Sævarsdóttir tveimur bókum við Sokkalabbaseríuna. Loks má nefna að Bókabeitan endurútgefur bókina Rauði fiskurinn eftir listakonuna Rúnu, Sigrúnu Guðjónsdóttur, sem kom fyrst út árið 1972.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
