Sögufélagið gefur út fimm bækur í haust. Fyrst má nefna bókina Dagur þjóðar – Þróun 17. júní hátíðarhalda á 19. og 20. öld eftir Pál Björnsson.
Í þessari nýstárlegu bók er sýnt fram á hvernig 17. júní varð að þjóðhátíðardegi Íslendinga snemma á 20. öld, segir í kynningartexta. Með þátttöku sinni hafi alþýða manna gert 17. júní að degi þjóðar án þess að yfirvöld tækju ákvörðun þar um.
Sjálfsævisaga Klemensar Jónssonar kemur út í ritstjórn Önnu Agnarsdóttur og Áslaugar Agnarsdóttur. „Sjálfsævisaga Klemensar lýsir atburðarás sem hann lifði sjálfur og er rituð frá hans sjónarhorni. Stóran hluta ævinnar stóð hann á miðju leiksviði sögu Íslands. Margt af því sem hann tók þátt í telst til lykilatburða í Íslandssögunni og persónur sem hann átti í samskiptum við eru ýmsar þjóðkunnar.“
Í bókinni Mynd & hand – Skólasaga 1939-1999 eftir Davíð Ólafsson og Arndísi S. Árnadóttur er sögð sextíu ára saga Myndlista- og handíðaskóla Íslands, allt frá því að hann hóf að starfa í fjórum geymsluherbergjum í kjallara við Hverfisgötu árið 1939 undir nafninu Handíðaskólinn og þar til hann var lagður niður samhliða stofnun Listaháskóla Íslands árið 1999.
Sögufélag gefur út endurskoðaða útgáfu sýslu- og sóknalýsinga Húnavatnssýslu, skráðar 1839 og næstu ár þar á eftir, en Jón Torfason og Svavar Sigmundsson sáu um útgáfuna. Eiga þær rætur sínar að rekja til umfangsmikillar könnunar sem Hið íslenska bókmenntafélag stóð fyrir á fjórða áratug 19. aldar. Þá voru sendir spurningalistar til presta og sýslumanna um land allt með beiðni um að lýsa náttúrufari, landslagi, afkomufólki, atvinnuháttum, menntun, siðferði, heilbrigði og fornleifum.
Loks má nefna að Sumarliði R. Ísleifsson sendi nýverið frá sér bókina Iceland and Greenland. A Millennium of Perceptions – A Thousand Years of Myth, Mystery, and Imagination.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
