Laufey gefur út barnabók

Laufey - söngkona og nú líka rithöfundur.
Laufey - söngkona og nú líka rithöfundur. Morgunblaðið/Eggert

Tónlistarkonan og Grammy-verðlaunahafinn Laufey mun í vor senda frá sér sína fyrstu bók, barnabók sem ber heitið Mei Mei The Bunny. Þetta tilkynnti hún á samfélagsmiðlinum Instagram fyrir skömmu.

Penguin Random House mun gefa út bókina en útgáfudagur er sagður 21. apríl 2026. Hægt er að panta bókina í forsölu hjá útgefanda.

Sagan er um litla kanínu sem dreymir um að gleðja heiminn með tónlistinni sinni. Laufey segir í færslu sinni að Mei Mei kanína hafi fylgt henni síðustu árin og það að opna fyrir henni heiminn hafi verið falleg upplifun.

Þá kemur einnig fram að einn dollari af hverri seldri bók, eða um rúmar 100 krónur, renni til góðgerðasamtaka söngkonunnar, Laufey Foundation, sem beita sér fyrir að auka aðgengi barna og ungmenna að tónlistarnámi.

mbl.is