Á útgáfulista forlagsins Angústúru þetta haustið leynast vandaðar bækur af ýmsu tagi.
Fyrst má nefna myndabókina Blaka eftir Rán Flygenring. Sú fjallar um það þegar leðurblaka sést flögrandi í borginni og skelfing grípur um sig. Áform Vöku og fjölskyldu hennar um að fara í sólarlandaferð í svartasta skammdeginu fljúga út í veður og vind. „Óhrædd við myrkrið tekur Vaka afdrifaríka ákvörðun sem snýr veröldinni á hvolf.“
Rán sendir einnig frá sér bók um baðmenningu á ensku, Sketching Bathing in Iceland. Hún er sögð „stórkostleg handbók fyrir alla sem áhuga hafa á náttúru landsins, teikningu og mannlegu eðli, auk þess að vera leiðarvísir fyrir erlenda ferðamenn og sundlaugargesti“.
Þórunn Rakel Gylfadóttir og meðhöfundur hennar Simon Okoth Aora „draga af næmni og skarpskyggni upp æsilega atburðarás byggða á sönnum atburðum um líf og örlög fólks í Kenía“ í skáldsögunni Mzunga, eins og segir í kynningartexta. „Eftirvænting ríkir í loftinu þegar Hulda kemur til Kenía þar sem hún ætlar að starfa á heimili fyrir munaðarlaus börn. […] Þegar líða tekur á dvölina fer Huldu þó að gruna að ekki sé allt með felldu,“ segir í kynningartexta.
Af íslenskum bókum má loks nefna myndlistarbókina Jörð. „Bryndís Jónsdóttir hefur alltaf farið eigin leiðir í listsköpun sinni. Hún sækir innblástur í náttúruna og leitast við að ná fram hinu lífræna úr ólíkum efnivið. Hér horfir hún til skýrs skilgreinds táknkerfis íslensku fjármarkanna, sem fylgt hafa þjóðinni frá fornu fari.“
Í áskriftarröð Angústúru eru væntanlegar tvær þýðingar, Maðurinn í skiltinu eftir Maríu José Ferrada (þýðandi Jón Hallur Stefánsson) og Persepólis II eftir Marjane Satrapi (þýðandi Snæfríð Þorsteins). Loks má nefna ljúflesturinn Skrifað í skýin eftir hina vinsælu Jenny Colgan (þýðandi Helga Soffía Einarsdóttir).
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
