Ungverski rithöfundurinn László Krasznahorkai átti að flytja opnunarræðuna á bókamessunni í Frankfurt í gær, en afboðaði komu sína kvöldið áður. Ef hann hefði mætt hefði þetta orðið fyrsta opinbera framkoma hans eftir að Sænska akademían tilkynnti 9. október að hann hlyti Nóbelsverðlaunin í bókmenntum í ár.
Frá því val akademíunnar lá fyrir hefur Krasznahorkai forðast fjölmiðla og aðeins veitt stutt ummæli gegnum síma. Í samtali við Sænska útvarpið (SVT) sagðist hann mjög glaður með það að hafa hlotið verðlaunin. „Ég er rólegur en á sama tíma mjög stressaður,“ sagði hann símleiðis fljótlega eftir að tilkynnt var um verðlaunin.
Í frétt SVT kemur fram að Krasznahorkai hafi þegar upplýst Sænsku akademíuna um að hann sæki Stokkhólm heim í desember og taki þátt í sjálfri verðlaunaafhendingunni.
