Glæpasagan Lokar augum blám eftir Margréti S. Höskuldsdóttur gerist í sveitarfélaginu Ísafjarðarbæ, einkum í Dýrafirði og Önundarfirði. Fiskeldi í fyrrnefnda firðinum dregur dilk á eftir sér og gamlar syndir á svæðinu koma upp á yfirborðið.
Mörgum reynist erfitt að fóta sig í tilverunni. Pálma er lýst sem óhefluðum mótmælanda á skilorði og Brynjar er rúðustrikaður. Þegar þeir hverfa verður fjandinn laus. Þá þurfa Vestfirðingar að fá aðstoð að sunnan. Eru reyndar með lögreglumanninn Berg þaðan um stundarsakir og honum þykir ekki verra að fá að starfa með Rögnu á ný.
Ber er hver að baki nema sé bróður eigi er eins konar stef í sögunni. Hún fjallar í grunninn um samskipti para, bræðra, vina og vinnufélaga, um brotnar fjölskyldur, foreldra, börn, ást, missi, söknuð, hatur og hefnd. Að reimleikum ónefndum. Slæm atvik í æsku fylgja sumum alla tíð og gera það að verkum að viðkomandi ná illa fótfestu, en aðrir horfast í augu við orðinn hlut og gera allt sem þeir geta til að finna aftur fast land undir fótum.
Gjarnan er sagt að allir þekki alla á Íslandi. Það er auðvitað ofmælt en vissulega eru meiri líkur á því í fámenni, eins og í þorpum á Vestfjörðum, en á höfuðborgarsvæðinu. Það auðveldar rannsókn málsins og fljótlega þrengist hringurinn, ekki síst vegna þess hve Elena er lausmál, en engu að síður er ekki allt sem sýnist.
Uppbygging sögunnar, yfirborðsleg á stundum með óþarflega mörgum persónum, er römmuð inn með hamraveggjum fjarðanna. Helstu persónur eru eðlilegar og trúverðugar, þar sem Jórunn er einna skemmtilegust, og vandamálin þekkt í daglegu lífi margra. Umhverfið er kunnugt íbúum á svæðinu og gestum, og borgarfólk eins og Ragna fær aldrei nóg af fegurðinni. Hætturnar eru samt víðar en margan grunar og syndir fortíðar eru geymdar en ekki gleymdar.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
