„Þegar ég leit í spegilinn um morguninn hafði andlitið á mér gleymt hver ég var,“ segir konan sem er fyrir miðju meginsögu Vaxtarræktarkonunnar einmana, safns sagna eftir japanska höfundinn Yukiko Motoya. Það er eins og andlitsdrættir hennar muni ekki réttar staðsetningar enda segist hún vera orðin „óhugnanlega lík manninum mínum“ (133).
Og konan í titilsögunni hefur líka verulega laskaða sjálfsmynd en áralöng „sambúð við eiginmann með fullkomnunaráráttu hafði valdið því að mér fór smám saman að finnast ég einskis virði“ (23). Hún tekur svo skyndilega að stunda vaxtarrækt af miklum móð, svo líkaminn tekur umtalsverðum breytingum, en eiginmaðurinn tekur ekkert eftir því. Konan hafði reynt að styrkja sjálfsálit eiginmannins með því að gagnrýna sjálfa sig stöðugt og hann er einfaldlega hættur að sjá hana.
Samskipti kynjanna í japönsku nútímasamfélagi eru lykilþáttur í mörgum af sögunum ellefu í bókinni. Höfundurinn Yukiko Motoya (f. 1979) hefur á undanförnum tveimur áratugum sent frá sér skáldsögur, smásögur og nóvellur. Hún hefur hlotið nokkur bókmenntaverðlaun í heimalandinu en þar stofnaði hún líka fyrir aldarfjórðungi leikfélag sem hún starfrækir enn og hefur skrifað fyrir það leikrit. Þá hafa kvikmyndir verið byggðar á sögum eftir Motoya. Sögurnar í þessu safni á íslensku eru annars vegar valdar úr smásagnasafni eftir Motoya og hins vegar er það nóvellan Hjónasvipir sem er hryggjarstykkið í bókinni – löng smásaga eða stutt skáldsaga sem kom fyrst út sjálfstæð, um 80 blaðsíður, og er mun dýpri og fyllri en hinar sögurnar sem hverfast iðulega um eina hugmynd, upplifun eða umbreytingu.
Hjónasvipir hefst á því að San, sem segir frá, áttar sig á því að hún er að verða nauðalík manninum sínum. Þau hafa verið gift í nokkur ár og hún er heimavinnandi; hjónin eru barnlaus og tilbreytingalaust líf San hverfist um að þjóna eiginmanninum sem glápir á sjónvarpið öll kvöld, með viskíglas í hendi og skóflar í sig matnum sem San eldar fyrir hann og er eins og þjónustustúlka sem hann veitir enga eftirtekt. Á daginn sinnir San hundi þeirra og hittir nágrannakonu sem glímir við annars konar vandamál en hún, á kött sem mígur út um allt í íbúðinni. Eiginmaður San tekur skyndilega að fá áhuga á eldamennsku og San verður þá sífellt líkari og enn meira háð honum. Vandamálið með kött grannanna verður um leið erfiðara og San þarf að aðstoða þá við að koma honum á brott upp í fjöllin, finna útleið úr vandanum, og möguleg útleið fyrir hana úr deyfðarlegri tilverunni í skugga tilfinningahefts eiginmannins kann líka að finnast þar.
Þetta er áhugaverð og vel byggð saga, þar sem andlegt ástand konunnar sem á sér ekki annað hlutverk í lífinu en þjóna karlinum sem skaffar peningana tekur að raungerast í útliti hennar, með gróteskum hætti. Höfundurinn kýs að fara sífellt lengra með það ævintýri og leysir söguna að lokum upp í furðufantasíu, sem þessum lesanda þótti fullódýr leið til að hnýta þræðina saman, eftir að hafa byggt söguheiminn vandlega upp með athyglisverðum hætti. En endurtekin aðferð höfundarins er að leita inn í slíka fantasíu, það má sjá í mörgum styttri sagnanna sem er raðað upp kringum Hjónasvipi, og sumar eru hreinræktaðar ævintýrasögur af því tagi, og skemmtilegar, eins og „Hálmmaðurinn“, þar sem eiginmaður konunnar sem segir frá, léttfættur hlaupari, er úr hálmi og gott betur, því hann er stoppaður upp með örsmáum hljóðfærum. Og vitaskuld er hættulegt ef eldur kemst nærri hálminum.
Þessar sögur Motoya hverfast flestar um hefðbundin hlutverk kynjanna, sem enn eru í japönsku samfélagi niðurnjörvaðri og karlmiðaðri en á Vesturlöndum. Konurnar eru kúgaðar og með brotna sjálfsmynd, eins og er hvað best lýst í titilsögunni, „Vaxtarræktarkonan einmana“. Sögurnar eru ójafnar að gæðum, margar skemmtilegar og hnyttnar en sumar ná litlu flugi í fantasíunni. Önnur af bestu sögunum er sögð af konu sem sest að í afskekktum fjallakofa að sinna listrænu verkefni og að henni flykkjast hvítir hundar. Í ljós kemur að fólkið í nálægu þorpi óttast hunda mjög og það er ástæða fyrir því; sögukonan dregur upp fallega mynd af lífinu í sveitinni með þessum björtu dýrum og undir niðri finnur lesandinn fyrir vaxandi óhugnaði og hryllingi.
Bókin er í hinni áhugaverðu og vönduðu útgáfuröð Angústúru með bókmenntaverkum sem mörg koma úr fjarlægum deildum jarðar. Hinn reyndi þýðandi Elísa Björg Þorsteinsdóttir hefur þýtt úr ensku, þýsku og dönsku og flæðir textinn lipurlega. Þá er fengur að eftirmála Maríönnu Clöru Lúthersdóttur, sem greinir meginþætti í sagnaheimi höfundarins og bendir til að mynda skemmtilega á samhljóm með íslenskri bókmenntasögu, í sögum Svövu Jakobsdóttur.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
