„Ég var orðinn svolítið þreyttur á þessari einsleitu mynd sem hefur oft verið dregin upp af mömmu. Mér fannst tímabært að sýna hana sem manneskjuna mömmu mína og okkar systkina, þetta er bók um tímann sem ég átti með henni og samband okkar í hvaða mynd sem það svo síðar birtist. Að sjálfsögðu er einnig um að ræða bernsku okkar alsystkinanna, barna hennar og pabba,“ segir Kolbeinn Þorsteinsson sem sendi nýlega frá sér bókina Mamma og ég, en í henni rifjar hann upp árin með og án móður sinnar, Ástu Sigurðardóttur, þar til hún lést fyrir aldur fram þegar hann var rétt að verða 10 ára.
Ásta var þjóðþekkt sem rithöfundur og nánast goðsögn, en hún barðist við þá djöfla sem fylgja fíkn og börn hennar fimm voru tekin af henni og send í fóstur. Barnsfaðir hennar, Þorsteinn frá Hamri, virtist lítil afskipti hafa haft af börnunum.
„Ég minnist, held ég, ekki einu orði á list mömmu eða pabba, því tilgangur þessarar bókar er ekki að skrifa um það sem hefur verið skrifað ótal sinnum um áður, myndirnar hennar mömmu og smásögur hennar, eða bækur pabba. Þetta er ekki bók um Ástu bóhem,“ segir Kolbeinn og bætir við að bókarskrifin hafi tekið á hann.
„Eftir að ég hóf skrifin velti ég því stundum fyrir mér hvort ég vildi ljúka verkinu, en það er ekkert í þessari bók sem ekki má segja. Ég byrjaði að skrifa um þetta fyrir um tíu árum, en lagði það oft frá mér í lengri tíma. Fyrir þremur árum stjakaði Reynir Traustason við mér og spurði hvort ég vildi ekki gera þetta klárt fyrir útgáfu, en það var ekki fyrr en ég hófst handa fyrir alvöru að ég gerði mér grein fyrir út í hvað ég var búinn að koma mér.
Ég fór bratt af stað og hugsaði með mér að þetta yrði ekki mikið mál, en þegar leið á vinnuna og ég fór að glugga í skýrslur frá barnaverndarnefndum og lögreglu, þá sá ég fljótlega að það gæti orðið erfitt fyrir mig að skrifa um þetta. Hugmyndin hjá mér til að byrja með var afskaplega einföld og kannski bernsk, ég fór af stað með þann ásetning að henda reiður á atburðarás þessa tíma ævi minnar; hvað gerðist, hvar og hvenær, því ég átti minningar héðan og þaðan, en ég gerði mér ekki grein fyrir tímaröðinni. Þetta voru nokkur ár og misjöfn, hvað ástand og aðstæður mömmu varðaði og mikil óreiða og óvissa ríkti í lífi okkar systkinanna, aðstæður okkar voru síbreytilegar.
Börn eru leiksoppar aðstæðna sinna og ég held að þau taki almennt því sem að höndum ber. Aðstæður voru þannig að ekkert kom mér lengur á óvart, en börn vilja alltaf fara heim. Mikil seigla býr í börnum og því miður reynir oft á þá seiglu. Ég hef stundum sagt að sumir bogni en aðrir brotni, og ég held að við systkinin höfum öll bognað vegna okkar aðstæðna og reynslu í bernsku, en við brotnuðum ekki þótt stundum hafi það staðið tæpt hvað mig varðar. Í okkur var kannski einhver sterkur efniviður og svo má að sjálfsögðu ekki gera lítið úr hlut fósturforeldra okkar, Ingu og Óla á Ökrum III, sem tóku okkur að sér. Það er ómetanlegt að við systkinin fengum öll fimm að alast upp saman hjá þeim, að við vorum ekki aðskilin.“
Kolbeinn segir að tvö alsystkin hans, Dagný, sem er elst, og Böðvar Bjarki, miðbróðirinn, hafi verið komin í fóstur á Ökrum tveimur árum áður en hann, Þórir Jökull, sem er elstur þeirra bræðra, og Ása, sem er yngst, hafi bæst í hópinn.
„Við systkinin náðum fljótlega vel saman og stóðum alltaf saman. Því miður var það þannig að mér leið svolítið eins og ég væri ómagi á Ökrum. Mér fannst svona eftir að ég stálpaðist að við systkinin hlytum að vera fjárhagsleg byrði.
Okkur var innrætt að vera þakklát, sem ég held að við höfum að sjálfsögðu verið, enda margt þakkarvert. Ég mun ævinlega vera fósturforeldrum mínum mjög þakklátur, vegna þess að í þeim aðstæðum sem við systkinin spruttum úr, þá hefði þetta getað farið á alla vegu. Ég efast ekki um að Óla og Ingu hafi þótt vænt um okkur, en fólk af þeirra kynslóð var ekkert að segja slíkt upphátt. Þau voru ströng, en okkur skorti aldrei neitt á Ökrum. Inga fóstra gerði mjög margt fyrir okkur sem hún þurfti ekki að gera, sem sýndi væntumþykju. Óli og Inga voru ekki fólk sem kjassaði eða faðmaði í tíma og ótíma, sem börn vissulega þarfnast og mér er minnisstætt þétta faðmlagið hennar mömmu sem varði lengi, í það eina skipti sem við hittumst eftir að við komum að Ökrum. Þau birtust allt í einu á Ökrum, hún og nýi maðurinn hennar Baldur og frænka okkar og amma.
Ég velti stundum fyrir mér hvort hjónaband mömmu og Baldurs hafi verið gjörningur af hennar hálfu til að sýna fram á stöðugleika, borgaraleg gildi, í von um að fá okkur börnin sín aftur til sín, en ég get ekkert fullyrt um það. Ég kynntist Baldri ekkert og veit ekkert um þeirra kynni,“ segir Kolbeinn og bætir við að auðvitað hafi hann viljað fara með mömmu sinni og það hafi verið sárt að horfa á eftir henni.
„Ég man mjög vel eftir að hafa falið mig á bak við gardínu í stofunni svo enginn sæi mig gráta þar sem ég fylgdist með bílnum þeirra fjarlægjast. Þessi gardína var mér líka mikið skjól í þau skipti sem pabbi kom og fór. Að sjálfsögðu vonaði ég að einhvern tímann kæmi að varanlegum endurfundum, en ég held að mamma hafi gert sér grein fyrir því áður en við systkinin fórum að velta því fyrir okkur, að þetta var búið spil, hún gæti aldrei tekið okkur aftur,“ segir Kolbeinn.
„En við fengum ágætis veganesti frá fóstru og fóstra. Tillitssemi, kurteisi, vinnusemi, reglusemi og snyrtimennsku. Fóstra mín sagði stundum: „Það er allt í lagi að vera í rifnum buxum, ef þær eru hreinar.“ Þegar ég var um miðjan aldur fór ég að skynja væntumþykju þeirra og á meðan þau lifðu gerði ég mér oft ferð að Ökrum í heimsókn til þeirra.“
Kolbeinn segir að glögglega megi sjá á þeim plöggum sem hann hefur farið í gegnum, að móðir hans hafi verið mjög veik af fíknisjúkdómi.
„En hún reyndi. Pabbi var aftur á móti ekki veikur, þótt hann hafi drukkið brennivín. Í skýrslu barnaverndar kemur fram að í mars 1965, þegar ég er þriggja ára, hafi pabbi verið mikið fjarverandi og nefndin bað hann lengstra orða að reyna að draga úr drykkjunni og sinna sínum skyldum gagnvart heimilinu. Hann lofaði bót og betrun, en flutti alfarinn út frá mömmu mánuði síðar eða svo.
Ég sá hann ekki aftur fyrr en tveimur og hálfu ári seinna, þegar ég, Þórir og Ása erum á Dalbraut sem þá var heimili fyrir börn sem áttu ekki í önnur hús að venda. Við pabbi ræddum einu sinni um þennan tíma og hann útskýrði hann á sinn hátt. Ég var oft reiður út í hann þegar ég var ungur maður og ég hætti að bera í bætifláka fyrir hann þegar fólk fór um hann hörðum orðum.“
Kolbeinn segist hafa tekið pabba sinn í sátt fyrir mörgum árum.
„Kannski var það ákveðin uppgjöf gagnvart sjálfum mér, því ég hafði hangið á reiði og biturð í mörg ár og það var ekki uppbyggilegt. Við feðgar urðum ágætis vinir eftir þessa sátt og ég hitti hann oft, engin reiði eða biturð lengur til staðar. Ég minnist þess ekki að hafa alið á slíkum tilfinningum hvað mömmu snertir.
Í minningunni var mamma alla jafna hlý og góð, hún var þolinmóð, skilningsrík og hvetjandi ef svo bar undir,“ segir Kolbeinn og bætir við að það hafi verið skrýtið fyrir þau börnin að hafa verið nuddað upp úr því að þau ættu að vera stolt af því að vera börn Ástu og Þorsteins, að það væri eitthvað merkilegt.
„Kennarar í Varmalandsskóla vissu hverra manna við systkin vorum og einhvern veginn, fannst mér, gefið í skyn að það ætti að sjást á námsárangri. En kannski er það bara vitleysa. Ég þurfti hvort sem er ekki neina hvatningu, því mamma brýndi fyrir mér í bréfunum sem hún sendi mér að vera duglegur að læra. Hún sagði mér til dæmis að læra utan að ljóð Jónasar Hallgrímssonar, eða hver það nú var, en ég var bara að lesa Fimm-bækurnar eftir Enid Blyton. Í bréfum mömmu til okkar systkina er áberandi hvatning hennar um að við ættum að læra að lesa sem fyrst, það væri lykillinn að svo mörgu öðru. Þetta var greinilega mjög mikilvægt og skipti máli fyrir framtíð okkar að hennar mati. Það var að sjálfsögðu alveg rétt.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.

