Enn gull frá Arnaldi

Rithöfundurinn Arnaldur Indriðason hefur skrifað enn eina glæpasöguna í hæsta …
Rithöfundurinn Arnaldur Indriðason hefur skrifað enn eina glæpasöguna í hæsta gæðaflokki. mbl.is/Árni Sæberg

Tál nefnist nýjasta glæpasaga Arnaldar Indriðasonar og er nafnið lýsandi um innihaldið; lygar, svik, undirferli, óheiðarleiki, ofbeldi, skömm, hatur, fjárkúgun og fleira í þeim dúr. Þessi nútímasaga gerist að mestu í Reykjavík á einum vetrarsólarhring skömmu áður en kórónuveiran berst til landsins og varpar trúverðugu ljósi á umhverfið í kjölfar mikillar umræðu um kynferðislega áreitni og ofbeldi. Glæpasaga í hæsta gæðaflokki.

Frásögnin vekur lesendur til umhugsunar um ríkjandi ástand í borginni, ekki síst hjá þeim sem minnst mega sín, eru fastir í viðjum eiturlyfja, eru misnotaðir og utangarðs í samfélaginu. En líka um fína, ríka og fræga fólkið, sem er ekki eins saklaust og það lætur í veðri vaka, og vafasama viðskiptamenn. Konráð, aðalpersóna sögunnar og fyrrverandi lögreglumaður en nú á eftirlaunum, er hokinn af reynslu og þekkir á eigin skinni veröld undirmálsfólks og brotamanna. Fyrir bragðið nær hann vel til þess, er mannbætandi og vill öllum vel. Yfirsýnin og víðsýnin, róin, góðmennskan og góðvildin skína af honum í enn einu meistaraverkinu úr smiðju Arnaldar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: