Tál nefnist nýjasta glæpasaga Arnaldar Indriðasonar og er nafnið lýsandi um innihaldið; lygar, svik, undirferli, óheiðarleiki, ofbeldi, skömm, hatur, fjárkúgun og fleira í þeim dúr. Þessi nútímasaga gerist að mestu í Reykjavík á einum vetrarsólarhring skömmu áður en kórónuveiran berst til landsins og varpar trúverðugu ljósi á umhverfið í kjölfar mikillar umræðu um kynferðislega áreitni og ofbeldi. Glæpasaga í hæsta gæðaflokki.
Frásögnin vekur lesendur til umhugsunar um ríkjandi ástand í borginni, ekki síst hjá þeim sem minnst mega sín, eru fastir í viðjum eiturlyfja, eru misnotaðir og utangarðs í samfélaginu. En líka um fína, ríka og fræga fólkið, sem er ekki eins saklaust og það lætur í veðri vaka, og vafasama viðskiptamenn. Konráð, aðalpersóna sögunnar og fyrrverandi lögreglumaður en nú á eftirlaunum, er hokinn af reynslu og þekkir á eigin skinni veröld undirmálsfólks og brotamanna. Fyrir bragðið nær hann vel til þess, er mannbætandi og vill öllum vel. Yfirsýnin og víðsýnin, róin, góðmennskan og góðvildin skína af honum í enn einu meistaraverkinu úr smiðju Arnaldar.
Morð á ungri konu í fylgdarþjónustu er útgangspunkturinn. Konráð dregst inn í atburðarásina og þræðir öngstræti borgarinnar og dvalarstaði fólks, sem enginn vill vita af og nánast öllum er sama um, til að fá botn í málið. Í þessari eftirgrennslan kemur ýmislegt upp á yfirborðið og er það allt annað en slétt og fellt.
Þegar Konráð fer yfir fréttir fjölmiðla og er á ferð um bæinn veltir hann fyrir sér ruglinu, sem viðgengst á mörgum sviðum. Spyr sjálfan sig hvað hafi orðið um alvörufréttamennsku, þegar mest áberandi fréttin er um einhvern „nóboddí“, sem hafði keypt raðhús í Fossvogi. Brosir yfir rétttrúnaðarfólkinu eftir að hafa lesið að nú væri valdeflandi fyrir konur að selja líkama sinn. Er kurteis, því hann vill helst „ekki móðga neinn á þessum sármóðguðu tímum“. Andúð hans á forljótri blokkavæðingu á gömlu heimaslóðunum í Skuggahverfi Reykjavíkur og á gömlum húsum, sem eru að grotna niður vegna skorts á viðhaldi, leynir sér ekki.
Bækurnar um Konráð eru sérlega vel skrifaðar og ekki er annað hægt en að standa með aðalsöguhetjunni, þótt hún hafi farið út af sporinu oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Konráð reynir að lifa með því illa í sér og öðrum og er einfaldlega heillandi persóna með öllum sínum kostum og göllum, maður sem passar engan veginn inn í veröld samskiptamiðla en dettur engu að síður fyrst í hug að segjast vera með hlaðvarp, þegar hann gerist of nærgöngull í rannsókn sinni. Lunkinn rannsakandi, sem les viðmælendur sína eins og opna bók. Gefst aldrei upp.
Allar lýsingar eru listilega vel gerðar, hvort sem um er að ræða persónur, nánasta umhverfi eða annað sem skiptir máli. Allt virkar svo eðlilegt og þótt sagan gerist á skömmum tíma er þægileg ró yfir atburðarásinni. Þar skiptir nærveran við Konráð miklu máli. Textinn er hnitmiðaður og skýr. „„Allt eins og blómstrið eina“ glumdi í tómlegu guðshúsinu. Þar inni boðaði dauðinn fyrirgefningu syndanna og eilíft líf. Fyrir utan beið þeirra veruleikinn,“ segir svo margt og er ágætt dæmi um stílbragðið (51). „Lífstíðardómurinn byrjar ekki fyrr en maður losnar úr fangelsi,“ segir meira en mörg orð (75).
Konráð hefur fengið nóg af ruglinu í kingum sig, eins og fleiri, og hverfur af sögusviðinu eftir að hafa verið aðalpersónan í sjö glæpasögum, þar sem erfið ævi hans frá barnsaldri hefur verið tíunduð, einkum í ört stækkandi Reykjavík frá því hann fæddist, og vandamál líðandi stundar verið brotin til mergjar. Hann nennir ekki lengur að eiga við lýð vitleysinga sem hafa kostað samfélagið tugi milljóna án árangurs, hefur öðlast frið í sálinni og er kominn heim. „Já, þetta er síðasta bókin að minnsta kosti í bili um Konráð,“ sagði Arnaldur um Tál í nýlegu viðtali í Mogganum. Konráðs er þegar sárt saknað, því hann er í hópi eftirminnilegustu skáldsagnapersóna í heimi glæpasagna. Maður kemur í manns stað, en Konráð gleymist ekki.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
