Fimmtánda og síðasta bókin í hinum sívinsæla myndasagnaflokki Goðheimum er nú komin út og nefnist hún Sýnir völvunnar. Syrpan er höfundarverk Danans Peders Madsen og að þessu sinni ríkir fimbulvetur í Ásgarði og Fenrisúlfur er aftur kominn á kreik.
„Þegar æsir komast að því að jötnar standa að baki þessum eilífðarvetri rennur upp fyrir þeim að Ragnarök eru í nánd og ræsa þarf út her einherja. Loki er sendur til að kljást við úlfinn en fær óumbeðna aðstoð frá Röskvu, sem sýnir á sér nýja og afar óvænta hlið,“ segir á vef Forlagsins um bókina.
Stefán Pálsson sagnfræðingur er fjölfróður um bækurnar og sagnaheim þeirra og ekki stóð á svörum þegar blaðamaður sló á þráðinn til hans til að forvitnast um Goðheima og þessa síðustu bók syrpunnar.
Stefán er beðinn um að rekja sögu bókasyrpunnar, áður en lengra er haldið.
„Eins og eldri Íslendingar muna þá var mikið blómaskeið myndasögunnar á Norðurlöndunum á áttunda og níunda áratugnum, þá er tímabil þar sem fransk-belgíska myndasagan blómstrar. Við erum með Lukku-Láka, Viggó, Sval og Val og Tinna náttúrlega sem eru prentaðir og gefnir út í risaupplögum og mala gull fyrir einstaka útgefendur hér heima og annars staðar,“ segir Stefán.
Menningarpáfum hafi þótt nóg um og þeir talið að þetta myndi leggja tungumálið í rúst sem varð auðvitað ekki raunin. Menn hafi notið góðs af þessum vinsældum hér á Íslandi og farið í samprentun með öðrum Norðurlandaþjóðum.
„Við fáum þessar fransk-belgísku myndasögur mikið í gegnum Danmörku þar sem mjög mikil hefð er fyrir þessu líka. Bretar vissu t.d. ekkert hverjir Svalur og Valur voru, Ástríkur og fleiri. Einn af stærstu útgefendunum í Danmörku var Interpresse og þeir fá þá hugmynd að búa til einhvern danskan Ástrík og mynda bara teymi.
Peder Madsen var undrabarn í danska myndasöguheiminum og var bara í menntaskóla þá, ekki orðinn tvítugur þegar hann er ráðinn í þetta. Hann er þarna farinn að teikna forsíður á myndasögubækur sem eru að koma út í Danmörku og það myndast svona teymi í kringum hann af aðeins eldri mönnum og uppleggið að það eigi að búa til seríu sem hafi norrænu goðafræðina og víkingaheiminn sem bakgrunn.
Bæði sjá menn fram á að þetta muni verða gríðarlega vinsælt heima fyrir og sjá í hyllingum að hægt verði að selja þetta út um alla veröld. Þannig að hann er bara ráðinn í vinnu við að teikna óútgefna myndasögu og fær þann pening og það sem þarf til. Fyrsta sagan kemur út með talsverðum látum, Úlfurinn bundinn, árið 1979 og hún kemur út á öllum Norðurlandamálunum sama daginn, m.a. á íslensku. Það var reitt hátt til höggs í upphafi og þetta er algjörlega inni í þessari frönsku hefð,“ segir Stefán og nefnir sem dæmi Sval og Val og Ástrík sem hluta þeirrar hefðar.
Stefán segir að reynt hafi verið að fylgja í meginatriðum hinum norrænu goðsögum og Madsen hafi byrjað á auðveldustu sögunum, þeim sem séu í raun tilbúin handrit. Hann nefnir sem dæmi söguna um fjötrun Fenrisúlfs og þegar hamri Þórs er stolið. Til að gera þetta barnvænna hafi mannabörnin Röskva og Þjálfi verið þar í öndvegi, þjónustufólk Þórs, og látin vera augu sögumannsins í fyrstu bókunum.
Þessi nálgun Madsens og samstarfsmanna hans hafi slegið rækilega í gegn og greinilegt verið að önnur hver bók átti að vera upp úr þekktum goðsögum en hinar meira sjálfstæðar sögur, en byggðar á sama persónugalleríi. Í Veðmáli Óðins sé til að mynda sótt í ýmsar sögur goðafræðinnar.
„Margt af þessu er í innri mótsögn, í einni sögu er Freyja bara ástkona Óðins, svo dæmi sé tekið,“ segir Stefán og að snemma í bókasyrpunni komi til sögunnar jötnastrákurinn og hrekkjalómurinn Karkur.
„Hann er í stóru hlutverki snemma í bókaflokknum sem tengist því að það er gerð teiknimynd sem byggist í rauninni á ferðinni til Útgarða-Loka,“ útskýrir Stefán.
Fjórða og fimmta bók syrpunnar fylgi í raun þeirri teiknimynd sem hafi verið risavaxið verkefni, það stærsta sem ráðist hafði verið í á þeim tíma á Norðurlöndunum. Eftir það hafi teiknistíllinn fínpússast og í raun verið búið að fullkomna yfirbragðið á seríunum.
„Þá eru þessir menn búnir að vinna í þessu í áratug, orðnir eldri og þroskaðri og orðnir virkilega góðir í norrænni goðafræði,“ segir Stefán.
Trölladrengurinn Karkur sé þá skrifaður út úr sögunni og ráðist í sífellt flóknari goðsagnir sem kalli á töluvert mikla túlkunarvinnu.
„Og þeir voru búnir að ákveða, mörgum árum áður en seríunni lauk, hvaða goðsagnir ætti eftir að taka og enda á sjálfum ragnarökum sem er verulega metnaðarfullt að takast á við og halda, samt sem áður, þessum andblæ. Ég held – og ég hef gantast með þetta – að þessar bækur hafi ráðið miklu meiru en nokkrar kennslubækur um túlkun heilu kynslóða Íslendinga á þessari goðafræði,“ bætir Stefán við.
Stefán er fæddur árið 1975 og segist hafa alist upp með þessum bókum.
„Svo gerist það, því miður, að útgáfan dettur niður hjá okkur á sama tíma og útgáfu allra annarra myndasagna lýkur, svona um 1990, og þess vegna var það mjög gleðilegt þegar menn tóku upp þráðinn aftur. En sala á myndasögum í dag er bara brot af því sem hún var á gullöldinni,“ segir Stefán.
Blaðamaður segir það miður því þetta form, teiknimyndasagan, sé frábært og í raun fullkomið til sagnamiðlunar. Stefán tekur undir það og segist þráhyggjukenndur áhugamaður um Goðheima og fleiri teiknimyndasögur.
„Ég á fleiri myndasögur heima en konan mín kærir sig um,“ segir Stefán kíminn og að teiknimyndasagan sé sannarlega öflugt sagnaform.
Stefán segir Madsen hafa verið algjört undrabarn í þessum geira.
„Ég veit ekki hvaða bókaútgefandi tæki 19 ára strák í dag, setti hann á launaskrá og myndaði svo bara teymi,“ segir Stefán.
Goðheimar hafi átt að vera hinn norræni Ástríkur. „Staða myndasögunnar í Frakklandi og Belgíu er rosalega sterk og hún er oft kölluð áttunda listformið,“ bætir Stefán við.
Bókin er sú fimmtánda og síðasta í Goðheima-syrpunni sem gefin er út á íslensku en sú danska kom út árið 2009. Löng bið eftir íslenskri þýðingu á lokabókinni er því loksins á enda. Stefán er að endingu spurður að því hvort þekking fólks á norrænni goðafræði væri ekki töluvert minni hefðu bækurnar aldrei komið út og segist hann sannfærður um það.
„Við hefðum kannski lauslega hugmynd um þetta en þessar bækur setja andlit á þessi nöfn.“
Á vef Forlagsins má finna yfirlit yfir þær 15 Goðheima-bækur sem gefnar hafa verið út hér á landi.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
