Ýmis skáldverk og bækur almenns efnis eru gefin út undir merkjum bókaútgáfunnar Skruddu í ár.
Af skáldverkum má fyrst nefna Glæður galdrabáls eftir Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur sem sögð er fjalla um tíma galdraótta og ofstækis. Þar er rakin saga móður og sonar sem lögðu fótgangandi í langa ferð norðan úr landi vestur á firði í leit að betri kjörum, á síðari hluta 17. aldar.
Farðí rassgat Aristoteles eftir Benóný Ægisson er sagður brennheitur hrakfallabálkur um ástir og örlög. Aðalpersónan Guðgeir Guðgeirsson er „andhetja og ólíkindatól sem allt veit, einmitt sú týpa sem fer óstjórnlega í taugarnar á fólki“.
Gleymd nefnist skálsaga eftir Unni Sólrúnu Bragadóttur en þar segir af hinni 27 ára Ernu sem vinnur hjá bókaforlagi og fær það verkefni að rita ævisögu rithöfundarins Evu. Eva á litríkt líf að baki en er orðin veik, einmana og full haturs og hefnigirni og ætlar að koma höggi á fyrrverandi félaga sína, segir í kynningartexta.
Sigurjón Björnsson hefur þýtt Fjórar konureftir Honoré de Balzac. „Balzac hefur stundum verið kallaður skáld ástarinnar. Og satt er það að konur gegna miklu hlutverki í hinu mikla ritverki hansLa Comédie humaine. Oft gegna þær aðalhlutverki – svo er til að mynda í þeim fjórum sögum sem hér birtast á einni bók.“
Fáeinar sögur smáar er annað smásagnasafn Pjeturs Hafsteins Lárussonar, en hann hefur að mestu lagt stund á ljóðagerð. Í þessu nýja safni eru sextán smásögur. „Sumar sagnanna eiga sér nokkra stoð í því tvíræða fyrirbæri sem kallast veruleiki, aðrar eru eingöngu kynjaðar úr hugarheimi höfundar.“
Þegar múrar falla er sögð einlæg og áhrifamikil frásögn Harðar Torfasonar, en hann hefur markað djúp spor í íslenskt samfélag. „Hörður var fyrstur Íslendinga til að stíga fram opinberlega sem samkynhneigður og mætti fordómum og útskúfun en brást við með hugrekki, sýnileika, listrænu samtali og skipulögðum aðgerðum.“
Lífsins ferðalag ritar Wilhelm Wessman en hann er sagður eiga að baki litríkan atvinnuferil hér á landi og erlendis. Þar koma meðal annars við sögu Klúbburinn, millilandaskipið Gullfoss og Hótel Saga. Síðar var hann hótelstjóri á Holiday Inn í Reykjavík og ráðgjafi fyrir hótelkeðjuna Holiday Inn.
Ofsögur eftir Ingimund Gíslason hefur að geyma tuttugu og níu smásögur og þætti sem snerta ýmsar hliðar mannlífsins. „Í frásögnunum glittir í lúmska fyndni þar sem breyskleika hins daglega lífs er lýst á nærgætinn hátt.“
Í bókinni Washington DC eftir Jón Óskar Sólnes er borgin sögð vakna til lífsins í fjörugri og tæpitungulausri frásögn þar sem víða er drepið niður fæti. Höfundur fer með lesendur í ferðalag um höfuðborg Bandaríkjanna og oft um ótroðnar slóðir.
List & hönnun eftir Trausta Valsson fylgir ævisögulegum þræði höfundarins. Hér segir höfundurinn einkum frá verkum sínum á sviðum listar og hönnunar og greinir um leið frá hönnunarteoríum sem hann hefur mótað á ferli sínum um þessi svið.
Í bókinni Kormákseðli þjóðskáldsins fjallar Friðrik G. Olgeirsson um bollaleggingar um takmarkaðan áhuga Davíðs Stefánssonar á konum og er sagður sýna að þær séu ekki í takt við veruleikann.
Helgi Hallgrímsson fjallar um íslenskar blómplöntur í máli og myndum í bókinni Foldarskart. Lýst er um 300 tegundum sem hér hafa vaxið frá alda öðli, auk þess er getið um 240 tegunda, sem hafa numið hér land á síðustu einni og hálfri öld, eða hafa verið hér lengi í ræktun.
Una Margrét Jónsdóttir sendir frá sér Silfuröld revíunnar sem er síðari hluti íslenskrar revíusögu. Gullöld revíunnar var gefin út 2019. Í þessari bók er fjallað um revíur frá tímabilinu 1957-2015, og einnig koma kabarettar, áramótaskaup og stakir gamansöngvar við sögu.
Gerum samning nefnist bók eftir Jill C. Dardig og William L. Heward sem Gyða Haraldsdóttir þýðir. Þar má finna leiðbeiningar sem gagnast börnum sem glíma við hegðunaráskoranir eða vilja læra nýja færni en bókin hverfist um samninga sem sagðir eru geta verið ótrúlega áhrifarík lausn. ragnheidurb@mbl.is
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
