Það er þverstæðukenndur munaður. Að kynna sér gang heimsmála í friði og ró með ilminum af nýlöguðu kaffi í nösunum. Í blaðinu er mestmegnis fjallað um alls konar hörmungar, stríð og slys. Að hlusta á sömu fréttir í útvarpi er mjög stressandi. Þá er búið að þjappa þeim saman í hnefahögg“ (91).
Þannig hefur franski höfundurinn Philippe Delerm eina hugleiðingu sínu um hversdagslegt athæfi – lífsnautn, „Að lesa dagblaðið yfir morgunmatnum“, – og vitaskuld er það ein hinna litlu en mikilvægu lífsnautna að lesa gott dagblað yfir morgunkaffinu.
Höfundurinn nær líka að orða upplifunina með þeim hætti að lesandinn skilur og tengir. Enda sló þessi bók hans, Fyrsti bjórsopinn – og fleiri smálegar lífsnautnir, hressilega í gegn þegar hún kom út í Frakklandi fyrir um þremur áratugum og seldust meira en milljón eintök.
Í 35 stuttum köflum er sjónum beint að eða hugleiddar jafn margar hversdagslegar upplifanir sem ýmist gleðja, með margvíslegum hætti, eða kveikja góðar minningar sem oft eru jafnframt ljúfsárar. Upplifun kveikir oft hugsun sem spunnin er áfram með óvæntum og oft fallegum vísunum.
Menningarlegur bakgrunnur Delerm litar vissulega margar þessara örsagna en þær eru flestar aðeins á aðra blaðsíðu á lengd, nokkrar örlítið lengri. Í titilsögunni útskýrir sögumaður að fyrsti bjórsopinn úr könnu sé „sá eini sem skiptir máli. Hinir verða sífellt lengri, sífellt tíðindaminni, skilja aðeins eftir dauft bragð, það er eiginlega synd að kyngja,“ (38) segir hann og leiðir hugsunina fallega áfram, um ölið, stemninguna við borð þess sem drekkur en hvernig sá drekkur líka „sífellt meiri bjór og nýtur hans minna sem hann drekkur meira. Þetta er beisk hamingja – maður drekkur til að gleyma fyrsta sopanum.“
Hugleiðingar Delerm má alveg kalla örsögur og í öðrum fjallar hann til að mynda um eplalykt, brómberjatínslu, það að bruna eftir hraðbraut að næturlagi, lestur skáldsögu eftir Agötu Christie, keppni nýliða í suðurfranska kúluleiknum pétangue (sem getur verið æsispennandi), upplifunina við að horfa í kviksjá, heimsókn í bókabíl og ein sú besta heitir „Að fá fréttir í bílnum“.
Sögumaður er þar akandi á hraðbraut í heldur sviplausum dal þegar fimmfréttir hefjast í útvapinu og þulur les: „Þær fréttir voru að berast að Jacques Brel sé látinn.“
Tónlistarmaðurinn Brel var risi í frönsku menningarlífi og í stuttri sögunni lýsir höfundurinn listavel áhrifunum sem fréttin hefur á þann sem heyrir; skyndilega er skorið á landslagið, myndin stöðvast og hann sér Brel fyrir sér, minningar frá unglingsárunum þyrlast fram og Brel að syngja lagið Amsterdam í Olympia-tónleikahöllinni árið 1964.
Upptaka frá þeim tónleikum er aðgengileg á streymisveitum og þessi lesandi naut þess að hlusta á hana strax eftir lesturinn.
Bókin er fallega brotin um, textinn situr vel á síðunum og við flestar sagnanna eru einstaklega vel heppnaðar myndskreytingar eftir Jean-Philippe Delhomme, heilsíðu vatnslitamyndir þar sem brugðið er upp brotum af umfjöllunarefnum höfundarins hverju sinni, hvort sem það er dýnamór við reiðahjóladekk, pétangue-kúlur eða bjórglasið.
Eftir Philippe Delerm hafa komið út yfir 30 bækur, skáldsögur, ritgerðasöfn og smásögur, en Fyrsti bjórsopinn er þeirra söluhæst. Allnokkur örsagnasöfn hafa komið út hér á landi á undanförnum árum og við lesturinn á þessum skrifum Delerm hvarflaði hugurinn stundum að sögum Óskars Árna Óskarssonar en báðum auðnast að finna galdur í hversdagslegum upplifunum – og þeir eru líka jafnaldrar, fæddir 1950.
Hinn þaulreyndi þýðandi Friðrik Rafnsson þýðir hugleiðingar Delerm lipurlega og á fallegt mál, eins búast mátti við.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
