Sögulega glæpasagan Mín er hefndin eftir Nönnu Rögnvaldardóttur er sjálfstætt framhald bókarinnar Þegar sannleikurinn sefur, sem kom út í fyrra. Höfundur blandar saman veruleika til sveita og skáldskap og lætur söguna gerast á tilbúnu svæði á Norðurlandi snemma á 18. öld.
Það er vel til fundið að vekja athygli á lífi landsmanna fyrr á öldum og klæða staðreyndir í skáldsagnarbúning. Þó skáldað sé í eyðurnar og fyrirmyndirnar fengnar héðan og þaðan á mismunandi tíma verður sagan jafnvel áhugaverðari eftir að Nanna hefur fyllt í eyðurnar.
Ekki er aðeins fróðlegt fyrir lesendur að fá innsýn í erfitt líf fátæks fólks, ekki síst umrenninga og betlara, sem eiga hvergi í hús að venda, einstæðra og umkomulausra vinnukvenna og sveitarómaga, heldur er ekki síður áhugavert að vera minnt á stéttaskiptinguna á öldum áður. Ennfremur er öllum hollt í samfélagi nútímans, þar sem flestir hafa það gott, að gera sér grein fyrir stöðu þessa fólks, sem átti sér engan málsvara og stóð ekki jafnfætis betur settu fólki, þegar til laganna kom.
Í gömlum frásögnum eru mörg dæmi um þetta og Nanna hefur ekki aðeins notfært sér þær heldur skreytt texta sinn með orðum og orðatiltækum fyrri tíma. Það tengir frásögnina við tímasetningu sögunnar.
Á skömmum tíma verða framin tvö morð í nágrenni við Bergþóru, húsfreyju í Hvömmum, helstu persónu sögunnar, og nokkrir gerendur koma til greina, en málin skýrast í lokin. Bergþóra er lífsreynd ekkja sem á nokkrar jarðir og má ekkert aumt sjá. Eins og flestir er hún ekki heilagri en páfinn enda mikil kynvera, en hún er gætin og kemst upp með ýmislegt, sem aðrir eru dæmdir fyrir, jafnvel með lífláti.
Bergþóra nær góðu sambandi við alla, fer vel með það sem henni er trúað fyrir og á sín leyndarmál, vonir og þrár. Hún ræður þó ekki við yfirvaldið, sem gengur fram í krafti laganna og fær sínu framgengt með réttu eða röngu. Það gera reyndar fleiri.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
