Láhppon eða Lost er glænýtt dansverk sem frumsýnt var hjá Norska þjóðarballettinum í Osló á föstudaginn. Um er að ræða norrænt samstarf danshöfundanna Elle Sofe Sara frá Samalandi og Hlínar Diego Hjálmarsdóttur.
Sækja þær innblástur í Kautokeino-uppreisnina sem varð í samnefndum smábæ í Norður-Noregi 21. nóvember árið 1852. Þá réðst hópur Sama gegn norskum embættis- og kaupmönnum sem þeir töldu hafa kúgað samfélag þeirra og drápu tvo þeirra. Eftir uppreisnina voru tveir leiðtogar Sama höggnir með öxi í refsiskyni en atburðurinn hefur markað djúp spor í sögu þeirra.
„Við ákváðum alveg frá byrjun að verkið yrði marglaga og við myndum láta dansinn og hreyfingarnar tala. Þessi saga er rosalega flókin og þær heimildir sem eru til um þessa atburði koma frá Norðmönnum. Allt frá Sömum er eiginlega horfið því það var enginn sem skrifaði þeirra hlið niður. Þess vegna heitir verkið Lost. Hluti sýningarinnar fer fram á skjá en við unnum með frábærri kvikmyndagerðarkonu sem filmaði alls konar hluti sem við vörpum svo upp,“ segir Hlín, sem búsett er í Stokkhólmi en var stödd í Osló þegar blaðamaður náði tali af henni.
„Samar hafa alla tíð verið mjög friðsælt og vandræðalaust fólk en þessir atburðir eru með því versta í þeirra sögu. Í teyminu okkar var maður sem vann mikla rannsóknarvinnu og ræddi m.a. við aðstandendur fólks sem lifði þessa atburði. Það er samt eiginlega enginn sem vill tala um þetta.
Þetta er ekki einu sinni rætt í skólum. Þannig séð er því gott að búa til danssýningu um þetta svo opna megi á umræðuna. Þetta er nefnilega rosalega viðkvæmt mál fyrir Sama. Elle Sofe býr í Kautokeino og átti ættingja sem lentu í uppreisninni svo ég held að hún og hennar kynslóð pæli mikið í þögguninni í kringum þetta.“
Þá er þetta í fyrsta sinn sem þær stöllur vinna saman en Elle Sofe Sara hafði samband við Hlín að fyrra bragði.
„Fyrst hugsaði ég með mér að ég hefði ekkert að gera með eitthvert verkefni sem tengdist Sömum en eftir að hún útskýrði fyrir mér að hún væri alin upp í Kautokeino og hefði þessa beinu tengingu við atburðina fannst mér þetta áhugaverð hugmynd. Svo fannst mér líka spennandi að fást við eitthvað sem enginn vildi tala um. Við Elle Sofe fílum hvor aðra mjög vel þótt svona samvinna sé aldrei 100% auðveld. Við erum svakalega ólíkar, sem ég held reyndar að sé bara jákvætt,“ segir Hlín.
En var þá ekkert erfitt að taka jafn viðkvæma atburði og þjappa þeim saman í dansverk?
„Jú, þetta er sko búið að vera flókið í framkvæmd. Við vorum fram á síðustu stundu að laga og breyta. Yirleitt er allt tilbúið hjá ballettflokkum tveimur vikum fyrir sýningu en í samtímadansi er sífellt verið að breyta einhverju.
Verkið skiptist í þrjá hluta: Samfélag Sama fyrir atburðina með áherslu á norsku kirkjuna og hvernig Samar áttu að trúa á guð á ákveðinn hátt, síðan er það uppreisnin sjálf sem er mikilvægur þáttur í verkinu og að lokum þöggunin eftir atburðina en enn í dag eru sumir ekki búnir að jafna sig á þessu,“ útskýrir hún.
Í uppfærslunni hljómar nýtt verk eftir íslenska tónskáldið Valgeir Sigurðsson sem sameinar hefðbundin og nýsamin joik, sönglög Sama, eftir Lávre Johan Eira og Söru Marielle Gaup Beaska.
„Mínir lagalistar innihalda margir hverjir lög eftir Valgeir svo þegar við fórum að pæla í tónlistinni fyrir verkið spurði ég Elle Sofe hvort hún þekkti til hans. Þá hafði hún séð hann á tónleikum hér í Noregi og sagðist elska hann. Ég hafði því samband við hann og fékk svar um hæl en Valgeir er búinn að vera alveg frábær,“ segir Hlín.
Spurð að lokum hvort fleiri Íslendingar komi að sýningunni svarar hún hlæjandi. „Nei, því miður.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.


