Ívar Örn Sverrisson leikari hefur verið búsettur í Noregi síðustu fimmtán árin. Nýlega landaði hann stóru hlutverki í norskri sjónvarpsþáttaröð sem sýnd verður í september á Amazon Prime Video og Viaplay og heitir á norsku I kjærlighetens navn og á ensku In The Name of Love. Aðalleikkona þáttaraðarinnar er Maria Bonnevie sem er með kunnari leikkonum á Norðurlöndum og hefur leikið t.d. í Exit-þáttunum og til gamans má geta að frumraun hennar í kvikmyndum var í íslensku myndinni Hvíta víkingnum eftir Hrafn Gunnlaugsson. Þá leikur einnig Trond Espen Seim í þáttunum en hann er kunnastur fyrir hlutverk sitt sem Varg Veum.
Blaðamaður settist niður með Ívari Erni og fékk að vita meira um þáttaröðina og hlutverkið, sem er stærsta sjónvarpshlutverkið sem hann hefur tekið að sér til þessa, sem og líf leikarans í Noregi.
„Það var haft samband við mig í gegnum umboðsskrifstofu og spurt hvort ég vildi koma í leikprufu. Á þeim tíma var covid að líða undir lok og ég var að byggja upp fyrirtæki í hjólaviðgerðum. Ég var orðinn nokkuð leiður á að fara í prufur. Það er mikil vinna að æfa sig fyrir hverja prufu og öll sú vinna er óborguð. Þá þarf maður líka að taka frí frá vinnu til þess að komast í prufur. Ég var því ekki að gera mér miklar vonir. Ég æfði textann meðan ég gerði við hjól og fékk einn viðskiptavininn sem var að sækja hjól til þess að hlýða mér yfir. Svo hjólaði ég í gegnum Osló og mætti í prufuna beint úr hjólaviðgerðum með smurolíu í andlitinu en fullur af orku og bara kýldi á þetta. Ég átti ekki til orð þegar mér var tilkynnt nokkru síðar að ég hefði fengið hlutverkið,“ segir Ívar Örn um aðdragandann.
„Þetta kveikti í mér aftur enda mjög spennandi hlutverk og ég er þakklátur fyrir tækifærið. Persónan mín heitir Þorvaldur og er hálfíslenskur. Hann er mjög áhugaverð persóna og kannski ekki allur þar sem hann er séður. Ég leik á móti Maríu Bonnevie, sem er frábær leikkona og mjög þekkt á Norðurlöndum.
Söguþráður þáttaraðarinnar er á þá leið að María leikur konu sem er að byggja upp femíníska hreyfingu en vandamálið er að hún er gift einum fremsta klámkóngi í Noregi. Það má helst ekki fréttast en eiginmaðurinn vill ekki hætta enda gengur mjög vel hjá honum og þau eru að efnast mikið. Þetta skapar því mikla spennu. Ég hins vegar verð ástfanginn af henni, sannfærður um að maðurinn hennar eigi hana ekki skilið og geng í femínísku hreyfinguna og er eini karlmaðurinn í hópnum. Ýmislegt gerist í kjölfarið, svo ekki sé meira sagt. Sagan spannar þrjá áratugi eða frá sjöunda áratugnum og fram til þess níunda og miklu kostað til hvað varðar umgjörð þáttanna.
Það var mjög gaman að leika á móti Seim, sem við könnumst einna helst við úr fjölmörgum kvikmyndum í hlutverki leynilögreglumannsins Vargs Veum. Ég þurfti t.d. að leika í slagsmálasenum og við erum hvor af sínum skólanum hvað það varðar. Ég vil til dæmis skipuleggja slagsmálin fyrir fram en hann vildi bara vaða í þetta. Áður en ég vissi af var ég bara með Varg Veum fyrir framan mig að fara að negla mig í gólfið,“ segir Ívar Örn og hlær.
Ívar Örn flutti til Noregs ásamt fjölskyldu sinni þegar þáverandi eiginkona hans fékk inni í námi í arkitektúr. Ívar Örn segir að það hafi verið töluverð áskorun að byggja upp leikaraferil frá grunni í nýju landi.
„Þetta var árið 2010, fjármálakreppan nýafstaðin, þetta hentaði fjölskyldunni vel og við fluttum út með tvö börn á leikskólaaldri. Svo hefst ævintýrið að aðlagast nýju samfélagi, læra nýtt tungumál og reyna að skapa sér eitthvert traust í bransanum þarna úti. Það er alltaf áskorun en ég hef gaman af áskorunum. Ég hélt að það yrði auðveldara fyrir mig sem Íslending og að við og Norðmenn værum sem bræður og systur með sameiginlega sögu. En ég komst fljótlega að því að kúltúrinn er annar, það er munur. Fólk var miklu lokaðra en ég átti von á og það tekur langan tíma að kynnast Norðmönnum finnst mér. Þeir eru ekki alveg jafn afslappaðir og Íslendingar en það hefur samt breyst og þróast á þessum fimmtán árum og Osló orðin alþjóðlegri.
Ég þurfti bara að byggja mig upp frá grunni og prófa allt. Ég skráði mig hjá skrifstofum sem sjá um leikaraskipan og fékk strax eitthvað að gera en þetta var ekki full vinna og ég þurfti að vinna á kaffihúsi til að eiga fyrir leigu. Fljótlega fékk ég tækifæri hjá dansleikhúsi og hafði þá svigrúm til að læra tungumálið almennilega. Ég var óhræddur við að reyna að tala en viðurkenni að þetta gat stundum verið mjög átakanlegt. Fyrstu fimm árin gekk til dæmis aldrei að reyna að segja eitthvað fyndið. Tímasetningin var alltaf röng og það urðu til mörg vandræðaleg augnablik þegar maður ætlaði að vera fyndinn en enginn skildi hvað maður var að segja. Mér finnst ég geta verið pínu fyndinn í dag og orðinn miklu öruggari í samskiptum enda komin fimmtán ár.
Ég var til dæmis mikið í auglýsingum og það fyndna er að ég lék í auglýsingum fyrir sömu aðila og ég hafði gert á Íslandi eins og t.d. Umferðarstofu. Á Íslandi hafði ég leikið í auglýsingu fyrir Umferðarstofu þar sem ég átti að detta fram fyrir mig til að setja í samhengi hraða bíls og hæð falls. Leikprufan var þannig að ég átti að láta mig detta á malbik. Ég mátti bera hendur fyrir mig en passa mig þó á því að gera það ekki of snemma!“ segir Ívar Örn kíminn og undirstrikar hvað starf leikarans getur verið bæði fyndið en líka hættulegt. „Í Noregi var ég hins vegar að leika föður sem fylgdi syni sínum í gegnum árin sem góð fyrirmynd en í lokin kemur svo upp mynd af mér að keyra mjög hratt. Sem sagt góð fyrirmynd að öllu leyti nema þessu.“
Í dag beinir Ívar Örn einna helst sjónum að leik í sjónvarpi og kvikmyndum.
„Slík verkefni henta mér vel og mér finnst þau mjög spennandi. Mér finnst ég vera búinn að gera allt á sviði, hef t.d. leikið Hamlet, ferðast um heiminn og margt í þeim dúr. Vinnan við kvikmyndir og sjónvarp er öðruvísi að mörgu leyti og krefst annarrar sýnar á hlutverkið sem getur verið mjög krefjandi en að sama skapi spennandi. Ferlinu má líkja við bútasaumsteppi þar sem hver sena er tekin upp í bútum og það er ákveðin óvissa falin í því hvað klippari og leikstjóri gera með verkið.“
Þú hefur verið í leiklistinni frá unga aldri. Hefur þú aldrei efast um köllunina?
„Það má segja að ég hafi eiginlega bara lent í leiklistinni. Ég var ekki nema níu ára þegar ég byrjaði í söngleikjum og vann með mörgum af okkar bestu leikurum. Ég lék t.d. í Land míns föður sem var mjög vinsæl sýning og mikið álag sem fylgdi því að sýna alla daga vikunnar og leika fyrir mörg hundruð manns. Ég man líka þegar ég lék Gavroche í Vesalingunum að ég fékk svo mikið kikk út úr því að deyja á sviðinu og heyra að fólk var byrjað að gráta – mér fannst ótrúlega gaman að hafa náð að plata þau,“ segir Ívar Örn og hlær. „Svo hélt ég áfram að leika í ýmsum sýningum eins og Oliver Twist en á unglingsárum tók ég mér pásu og fór að æfa körfubolta. Í Verslunarskólanum fór svo bakterían aftur að láta á sér kræla. Ég fékk aðalhlutverkin bæði í leikritinu og söngleiknum sem þá var og eftir útskrift sótti ég um í Leiklistarskólann og flaug beint inn. Það var því aldrei tími til þess að efast um neitt.
Auðvitað koma tímabil sem maður spyr sig hvort þetta hafi verið rétt hjá manni, til dæmis þegar erfitt er að fá hlutverk og atvinnuöryggið er ekkert. Maður lifir frá verkefni til verkefnis og það er í raun afrek að maður sé enn uppistandandi. En ég sé ekki eftir neinu og hef lært mikið af því. Svo er líka fínt að taka pásur eins og þegar ég fór að byggja upp fyrirtæki sem gengur mjög vel í dag. Þá lætur löngunin aftur á sér kræla,“ segir Ívar Örn að lokum.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
