Nýja myndin Vopn hefst með formála þar sem ungur sögumaður (Scarlett Sher) útskýrir fyrir áhorfendum að samtals 17 börn, öll í sama skólabekk, hafi rokið af stað sömu nótt klukkan 2.17 og hlaupið út í myrkrið.
Heimili sumra þeirra voru með myndavélar og náðu myndbandi af því þegar börnin hlupu út en ekkert virtist benda til þess að þau hefðu verið þvinguð út eða þeim rænt, þau hlupu öll sjálfviljug út. Foreldrar barnanna leita örvæntingarfull svara en lögreglunni virðist ekkert miða áfram. Það hverfa hins vegar ekki 17 börn í sama bekk án þess að það sé einhver sökudólgur.
„Hvað gerðist í þessari kennslustofu?“ er spurning sem er flestum bæjarbúum ofarlega í huga. Það eru aðeins tveir einstaklingar sem ættu að geta svarað því, umsjónarkennarinn þeirra, Justine (Julia Garner), og eini nemandinn sem er eftir, Alex (Cary Christopher). Eitt foreldrið, Archer (Josh Brolin), er sannfært um að Justine hafi eitthvað með málið að gera og lætur í sér heyra á foreldrafundi en það er þá sem formálinn klárast og myndin hefst í raun og veru.
Með formálanum tekst Zach Cregger, handritshöfundi og leikstjóra myndarinnar, strax að fanga athygli áhorfandans enda er bara hugmyndin um að 17 krakkar í sama bekk flýi heimili sín sömu nótt nægilega áhugaverð til að grípa áhorfendur.
Vopn byrjar á því að fylgja kennaranum Justine eftir, sem öll augu eru nú á eftir atvikið. Það er auðvelt að mála Justine upp sem sökudólginn, ekki aðeins vegna þess að hún er umsjónarkennari nemendanna sem hurfu, heldur líka vegna þess að hún er gallagripur, en það er einmitt það sem gerir hana að áhugaverðri og vel skrifaðri kvenpersónu og því kemur leikkonan Julia Garner listilega til skila. Justine á það til dæmis til að gleyma því að hún sé kennari barnanna en ekki foreldri þeirra og auk þess er hún drykkfelld og hvatvís og því án efa auðveldast að kenna henni um allt. Fyrir Justine stafar mesta ógnin af foreldrunum en ekki því afli sem ásótti börnin. Archer er einn þeirra sem ógna henni en hann málar t.d. orðið „norn“ á bílinn hennar með rauðri málningu en það læra áhorfendur ekki fyrr en síðar þegar sjónarhornið færist yfir á hann. Myndin skiptir nefnilega um sögupersónur, þ.e.a.s. hún segir sömu sögu út frá sjónarhorni sex persóna: kennarans Justine, foreldrisins Archers, lögregluþjónsins Pauls (Alden Ehrenreich), eiturlyfjafíkilsins James (Austin Abrams), skólastjórans Marcus (Benedict Wong) og nemandans Alex. Með því að skipta um sjónarhorn reglulega í gegnum myndina tekst Zach Cregger að viðhalda spennunni af því áhorfendur vita að hver persóna segir aðeins brot af heildarsögunni en með hverri persónu eru áhorfendur nær því að komast að sannleikanum, þ.e.a.s. hvað kom fyrir börnin. Hér skiptir klippingin eftir Joe Murphy miklu máli en það er vandi að raða atriðunum upp í rétta röð þannig að þegar sama atriðið er sýnt aftur, nema nú frá öðru sjónarhorni, þá sé það ennþá spennandi af því að áhorfendur eru að læra eitthvað nýtt. Þegar áhorfendur uppgötva hins vegar hvað kom fyrir börnin og hver stendur á bak við það er myndin að klárast, og sem betur fer því þegar áhorfendur komast loks að því er ekkert meira til að halda í þar sem lausnin sjálf reynist því miður ofureinföld og dæmigerð.
Zach Cregger er óhræddur við að blanda saman mismunandi kvikmyndagreinum. Það er til dæmis oft óljóst hvort um sé að ræða spennu- eða hryllingsmynd. Það kemur því áhorfendum virkilega á óvart þegar bregðuatriði eða „jumpscare“-skot birtist á bíótjaldinu, þ.e. skot sem er einungis ætlað að bregða áhorfendum með því að láta skelfilega mynd birtast skyndilega í rammanum í fylgd háværrar tónlistar. Þegar atriðið átti sér stað hélt undirrituð að hún myndi sökkva ofan í bíósætið, svo ógnvænlegt var það, en fyrir atriðið hafði ekkert bent til þess að um væri að ræða hefðbundna hryllingsmynd. Húmorinn er líka aldrei langt undan. Í einu draumaatriði er til dæmis annað svokallað „jumpscare“-skot þar sem sögupersónunni, sem er þá Archer, bregður svo rosalega að hún vaknar og öskrar „hvað í andskotanum!“, sem er einmitt það sem áhorfendur eru að hugsa og væru eflaust viðbrögð manns í raunveruleikanum við martröð eins og þessari. Með því að blanda saman ólíkum kvikmyndagreinum tekst Zach Cregger að gera mynd sem er ekki einungis mjög spennandi heldur líka hryllileg og fyndin. Í heildina er því Vopn stórskemmtileg og vel útfærð kvikmynd sem heldur spennunni lifandi allan tímann þrátt fyrir einfaldan endi.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
