Hasarmyndin Nobody, frá árinu 2021, var óvæntur glaðingur á sínum tíma og þá ekki síst vegna mjög svo óvænts vals á leikara í aðalhlutverkið, Bob Odenkirk, en sá var þá þekktastur fyrir gamanleik og þá sérstaklega í þáttunum Better Call Saul og Breaking Bad þar sem hann lék sama tungulipra lögmanninn Saul Goodman og fór á miklum kostum.
Að fá Odenkirk í hlutverk hins miskunnarlausa leigumorðingja Hutch Mansell í Nobody vakti eðlilega mikla athygli því leikarinn var fyrst og fremst þekktur fyrir gamanleik og alls ekkert hörkutól að sjá. „Hver er ég? Ég er enginn,“ sagði Odenkirk eftirminnilega í einu atriða Nobody og þaðan dregur myndin nafn sitt.
Nú er komin í bíó Nobody 2, eða Enginn í annað sinn og að þessu sinni ákveður Hutch að bjóða fjölskyldunni í huggulegt og skemmtilegt frí og þá m.a. til að bæta fyrir slaka frammistöðu sína sem eiginmaður og fjölskyldufaðir. Hutch er nefnilega aldrei heima, öll kvöld að limlesta vonda karla eða drepa, enda leigumorðingi. Hann sér að eiginkona hans, Becca, er búin að fá nóg af þessu starfi hans, ef svo mætti kalla, og fjölskyldufríið á að bjarga málunum.
Fjölskyldan heldur, ásamt afa gamla, David (Christopher Lloyd), til staðar sem Hutch telur vera mikla fjölskylduparadís, með skemmtigarði og öllu tilheyrandi, en reynist í niðurníðslu og auk þess búið að loka staðnum tímabundið. Hutch reynir eftir fremsta megni að kæta fjölskylduna og gera gott úr stöðunni en ekki líður á löngu þar til hann kemst í kast við óprúttna náunga og illmenni. Af gömlum vana getur hann ekki annað en gengið í skrokk á þeim og það oftar en ekki með skrautlegum og mjög svo blóðugum afleiðingum.
Í fyrri mynd fóru með önnur helstu hlutverk þau Connie Nielsen, rapparinn RZA og Christopher gamli Lloyd og snúa þau aftur í þessari framhaldsmynd. Loyd er orðinn fjörgamall, 86 ára og í raun með ólíkindum að hann sé enn að leika í kvikmyndum. Heyra má að hann á orðið erfitt með tal, er orðinn þvoglumæltur og skal engan undra. Það gerir hins vegar töluvert fyrir myndina að hafa Lloyd með því hann er alltaf skemmtilegur.
Connie Nielsen leikur eiginkonu Hutch og skilar sínu sæmilega, dauðþreytt á því að vera gift svona manni, eðlilega. Rapparinn RZA leikur uppeldisbróður Hutch, Harry Mansell, af mjög lítilli innlifun en Sharon Stone á aftur á móti fína spretti í hlutverki „illkvendis“ myndarinnar, Lendinu. Lendina þessi er ægilega grimm og miskunnarlaus, líkt og Cruella deVille í 101 Dalmatíuhundi. Húnfer fyrir hópi glæpamanna sem græða á tá og fingri á ýmiss konar smygli og glæpastarfsemi. Leikur Stone er ýkjukenndur sem hæfir myndinni vel og oftar en ekki hlægilegur. Stone fær, því miður, mjög stuttan tíma til að láta ljós sitt skína.
Annar litlaus leikari, John Ortiz, fer með hlutverk gerspillts eiganda skemmtigarðsins, sem kallaður er The Barber eða Rakarinn, og þó sá eigi að vekja ótta gerir hann það engan veginn. Colin Hanks, sonur leikarans Tom Hanks, leikur svo enn eitt illmennið, lögreglustjórann Abel, sem kynntur er til sögunnar með nokkurri ógn sem fjarar hratt út og verður að engu. Hanks er einum of vinalegur í þetta hlutverk og Stone er, á endanum, eina almennilega illmennið í myndinni og einn af fáum ljósum punktum hennar. Bob Odenkirk, í hlutverki Hutch Mansell, stendur sig vel að vanda en er einfaldlega of góður og skemmtilegur leikari fyrir svona slaka kvikmynd. Það sem bjargar á endanum myndinni eru hasaratriðin sem eru sum hver mjög spaugileg og þá sérstaklega eitt sem á sér stað í fljótabáti. Þó er hér að mestu endurtekið efni frá fyrri mynd.
Klipping myndarinnar virðist í fljótu bragði vönduð en um hana sá hin margreynda Elíasbet Ronaldsdóttir. Hún býr að mikilli reynslu í klippingu hasarmynda, klippti m.a. John Wick, Deadpool 2, Atomic Blonde og Bullet Train og skilar sínu vel að vanda. Takturinn í myndinni er fyrir vikið góður en val á tónlist er stundum skrítið. Arfaslök útgáfa af einu besta lagi Johnny Cash, „Ring of Fire“, hljómar undir einu slagsmálaatriðinu en „heiðurinn“ af þeirri slátrun á Des Rocs sem ég kann ekki frekari deili á. Önnur lög passa mun betur við myndina og frumsamda tónlistin, eftir Dominic Lewis, er oft skemmtileg og þá sérstaklega djasstónlistin sem ómar undir einu af nokkrum blóðugum slagsmálaatriðum og á sér m.a. stað í lyftu. Á heildina litið er tónlistin þó upp og ofan.
Best er Nobody 2 þegar húmorinn hittir í mark sem er oftast í slagsmálaatriðum. Sá galli er þó oft á þeim atriðum að myndavélin er ekki kyrr, oftar en ekki á hreyfingu sem getur verið óþægilegt á að horfa. Þessi tökustíll hefur verið áberandi í nútímahasarmyndum og virkar stundum vel en stundum alls ekki.
Samtölin í myndinni eru, eins og við mátti búast, býsna þunn og innihaldslaus enda til þess gerð að fylla upp í eyður milli ofbeldisatriða. Einstaka hnyttnar athugasemdir hitta í mark og flestar auðvitað kjánalegar. „Það getur ekki verið að þú sért bara fjölskyldufaðir,“ er t.d. ein eftirminnileg sem lögreglustjórinn á og önnur, sem Rakarinn svonefndi lætur falla, er ekki síðri: „Wherever you go, there you are!“ eða „Hvert sem þú ferð, þar ertu!“ En ekki hvar? gæti einhver spurt en þá er hinn sami væntanlega að hugsa of mikið. Nobody 2 er ekki kvikmynd fyrir hugsuði, hún er ofbeldisfull afþreying sem krefst lítillar sem engrar hugsunar. Og sem slík er hún ekki alslæm, sem betur fer.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
