Út frá titlinum K-Pop djöflabanar mætti draga þá ályktun að um væri að ræða væmna kóreska þáttaseríu en K-Pop djöflabanar er teiknimyndasöngleikur sem gerist í ímyndaðri borg.
Ekki nóg með það heldur er myndin vinsælasta Netflix-myndin frá upphafi með 236 milljón áhorf. Myndin er teiknuð af Sony Pictures Imageworks en þeir sóttu meðal annars innblástur í japanskar teiknimyndir og kóresk leikrit. Sony, sem framleiddi myndina, seldi hins vegar Netflix réttindin á tímum heimsfaraldursins.
Auk þess sem myndin er vinsælasta mynd Netflix frá upphafi eru fjögur lög úr myndinni nú á topp 10-lista Billboard Hot 100 sem er vinsældalisti yfir 100 vinsælustu lögin í Bandaríkjunum. Er K-Pop djöflabanar stærsti missir Sony? Það situr allavega einhver á skrifstofunni ósáttur út í sjálfan sig fyrir að hafa ekki haft trú á þessu verkefni, svo mikið er víst.
K-Pop djöflabanar gerist í heimi þar sem djöflar lifa undir yfirborði jarðar. Öðru hvoru læðast þeir upp á yfirborðið, yfirleitt íklæddir mannsholdi og veiða sálir handa hinum almáttuga Gwi-Ma (Lee Byung-hun). Í aldaraðir hafa þrjár konur verið valdar í hlutverk djöflabana sem er ætlað að viðhalda Honmoon, þ.e. laginu sem skilur menn og djöfla að. Ef einhverjir djöflar komast á yfirborðið, framhjá Honmoon, þá er það hlutverk þríeykisins að drepa þá djöfla áður en þeim tekst að ræna mannssálum. Galdurinn við að viðhalda Honmoon er söngur, það nægir þeim hins vegar ekki að syngja fyrir sig sjálfar heldur þarf aðdáendahópurinn að vera stór þar sem markmiðið er ekki aðeins að lækna hver aðra heldur allan heiminn.
Í nútímanum eru djöflabanarnir stelpubandið Huntr/x sem samanstendur af uppreisnarseggnum Miru (May Hong), ljúfmenninu Zoey (Ji-young Yoo) og síðast en ekki síst Rumi (Arden Cho) en hún býr yfir stóru leyndarmáli sem gæti breytt öllu. Markmið þeirra er að fullklára Honmoon og breyta því í Gullna Honmoon og þannig aðskilja menn og djöfla endanlega en þar skiptir lykilmáli að tónlist þeirra nái til sem flestra. Að því sögðu dettur einum sniðugum djöfli í hug að stofna strákaband sem heitir Saja strákarnir (e. The Saja Boys) og stela þannig aðdáendum frá Huntr/x og gera það erfiðara fyrir stelpubandið að ná markmiði sínu.
Hugmyndin á bak við myndina hljómar kannski kjánalega og það tók vinkonu undirritaðrar til dæmis nokkrar tilraunir að fá undirritaða til að horfa á myndina en um leið og maður kveikir á henni er ekki hægt að stoppa.
Fyrsta skipti sem áhorfendur sjá þríeykið er í flugvél þar sem þær eru að háma í sig mat áður en þær fara upp á svið fyrir síðustu tónleikana þeirra áður en þær fara í frí. Starfsmenn flugvélarinnar hegða sér undarlega og þær eru fljótar að spotta það að þeir eru ekki menn heldur djöflar og við tekur atriði þar sem þær drepa alla djöflana á meðan þær syngja og rappa við lagið „Svona er þetta gert“ (e. „How It's Done“). Atriðið er mjög nett, Miru tekur sér til dæmis pásu í loftinu til að setja á sig maskara en það er virkilega gaman að sjá þrjár ólíkar kvenhetjur í eins vinsælli mynd og þessari. Lagið er ótrúlega grípandi, eins og öll lögin í myndinni, en „Gos“ (e. „Soda Pop“) með strákabandinu er líklega það lag sem flestir fá á heilann, það lætur mann einfaldlega ekki vera, svo ávanabindandi er það.
Vel útfærðu dans- og söngatriðin eru hins vegar ekki það eina sem heillar áhorfendur heldur er það ekki síður persónusköpunin. Þetta er dæmi um barnamynd sem foreldrar hafa ekki síður gaman af en það eru bestu barnamyndirnar. Allar lykilpersónurnar eru marglaga og glíma við persónuleg vandamál og sterkustu lögin í myndinni eru þegar þær tjá sig um þau.
Hins vegar hefði verið gaman að fá að kynnast strákabandinu betur, því í raun fá áhorfendur aðeins að kynnast einum þeirra, Jinu (Ahn Hyo-seop), og í gegnum hann læra áhorfendur að ekki allir djöflar eru illir. En hvað með hina strákana og alla þá sem þríeykið hefur drepið í gegnum tíðina? Það virðist nánast gleymast, og á köflum, sérstaklega hvað þetta varðar, fær maður á tilfinninguna að söguþræðinum hafi verið flýtt eða honum þjappað saman. Vonandi verður þessum spurningum svarað síðar með framhaldsmynd en miðað við vinsældir myndarinnar er það ekki ólíklegt.
K-Pop djöflabanar er sönnun þess að hugmynd sem virðist kjánaleg á blaði getur orðið að stórskemmtilegri teiknimynd ef hún er unnin af ástríðu. Hún er sprenghlægileg, hjartnæm, full af lögum sem sitja föst í höfðinu á áhorfendum löngu seinna og á jafn mikið erindi við fullorðna og börn. Síðan sakar það aldrei að í myndinni er vinsælt þema úr rómantískum myndum en það er þegar óvinir verða að elskendum. Það er því ekki að undra að þetta sé vinsælasta Netflix-myndin hingað til.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
