Bandaríski leikstjórinn Darren Aronofsky á að baki margar vandaðar kvikmyndir en einnig nokkrar slakar. Fyrsta kvikmynd hans, Pi, þótti býsna góð en hún fjallar um hugsjúkan stærðfræðisnilling í leit að tölu sem veita á svör við stærstu gátu lífsins og Requiem for a Dream sagði af fjórum fíklum á hraðri niðurleið af ólíkum ástæðum. The Whale fjallar um mann sem glímir við óskaplega offitu og The Swan segir einnig af þjáningum, ballerínu sem missir fótanna. Í Mother! fór Aronofsky á mikið flug en sú mynd er einhvers konar dæmisaga um guð almáttugan og jörðina. Javier Bardem leikur guð og Jennifer Lawrence móður Jörð. Vægast sagt skrítin mynd það.
En kvikmyndin sem hér skal tekin til kostanna, Caught Stealing, er öllu skiljanlegri en þær fyrrnefndu og aðgengilegasta og auðskiljanlegasta kvikmynd Aronofskys til þessa.
Í fyrsta hluta Caught Stealing er fjallað um ástarsamband tveggja ungra aðalpersóna, Yvonne (Zoë Kravitz) og Hank (Austin Butler). Þau eru ung, sæt og óð hvort í annað, eins og sjá má í lostafullum ástaratriðum. Hank er barþjónn með hafnabolta á heilanum og býr í sóðalegri blokk í New York en Yvonne virðist í öllu betri málum og starfar sem sjúkraliði. Nágranni Hanks er Breti að nafni Russ og er hann leikinn með kómískum tilþrifum af Matt Smith. Russ er pönkari með hanakamb, gaddaólar og tilheyrandi en sagan á að eiga sér stað árið 1998. Russ er því ekki í takt við tímann en sáttur í eigin skinni.
Dag einn biður Russ Hank um að gæta kattar síns, Bud, á meðan hann skreppur til Lundúna. Hank er tregur til að gera honum þann greiða, hann er meira fyrir hunda en ketti en lætur þó tilleiðast. Skömmu síðar syrtir í álinn þegar tveir þrjótar knýja dyra hjá nágrannanum og taka illa í afskipti Hanks af þeim hamagangi. Hank endar á spítala eftir hrottalegar barsmíðar og fær þar þær fréttir að hann megi aldrei aftur drekka áfengi. Það reynist honum erfitt að kyngja því þar sem hann er drykkjusvoli.
Hank snýr aftur heim af spítalanum og ekki líður á löngu þar til vandræðin hefjast á ný og fleiri glæpamenn koma til sögunnar og það úr ólíkum áttum. Tveir þeirra virðast öðrum hættulegri, þeir Lipa (Liev Schreiber) og Shmully (Vincent D’Onofrio), hoknir af reynslu þegar kemur að hvers konar limlestingum og aftökum. Hank þarf að berjast fyrir lífi sínu hvað eftir annað og takast á við skrautleg illmenni sem virðast öll vera í leit að földum fjársjóði og lykli nokkrum sem veitir aðgang að honum.
Inn í söguna fléttast reglulega svipmyndir úr fortíð af hörmulegu slysi sem batt enda á hafnaboltaferil Hanks. Því má við bæta, til fróðleiks, að titill myndarinnar hefur tvöfalda merkingu, vísar annars vegar til þjófnaðar og hins vegar til þess sem kallað er að „stela“ annarri höfn í hafnabolta en um þá íþrótt veit ofanritaður lítið sem ekkert.
Sögusvið myndarinnar er stórborgin New York undir lok síðustu aldar og eitt og annað minnir bæði á hana og tímasetninguna. Má til dæmis nefna fatatísku, bíla og símaklefa. Myndin skiptir líka um áferð og litapallettu þegar farið er enn lengra til fortíðar, sem kemur vel og greinilega út og gerir frekari skýringar óþarfar.
Af leikurum eru þeir mennsku býsna góðir í sínum hlutverkum, þó enginn komist með hælana þar sem kötturinn Tónik er með framloppurnar. Tónik fer með hlutverk Bud og skilar því af miklu öryggi og yfirvegun. Mannleikarar eru líka vandaðir, Butler bæði svalur og brjóstumkennanlegur í senn, oft með tár á hvarmi og sveiflar hafnaboltakylfu af miklum þokka og sannfæringu. Kravitz fær heldur lítið að gera, því miður, leikur aðeins í nokkrum atirðum í fyrri hluta myndarinnar og þá m.a. í kynlífsatriði sem virðist gert til þess eins sýna kynþokka aðalleikaranna, sem er að vísu töluverður. Það litla sem Kravitz fær að leika gerir hún prýðilega og sem fyrr segir er Matt Smith kostulegur í hlutverki pönkarans Russ. Þeir Liev Schreiber og Vincent D’Onofrio eru líka ógnandi og spaugilegir í hlutverkum hinna kaldrifjuðu Lipa og Shmully. Leikararnir tala jiddísku sín á milli í myndinni og er skondið að lesa þýðinguna á samtölum þeirra.
Rapparinn Bad Bunny, réttu nafni Benito Martinez Ocasio, leikur foringja hinna rússensku glæpamanna. Sá er þó af latínókyni, þ.e. foringinn, sem er skemmtilega skrítið og engin frekari skýring gefin á því, en Bad Bunny á ættir að rekja til Púertó Ríkó, lesendum til fróðleiks. Ocasio er býsna góður en kemst þó ekki með tærnar þar sem Regina King hefur hælana. Hún leikur lögreglukonu og er sem fyrr senuþjófur, leikkona sem bregst aldrei bogalistin.
Ákveðin hádramatísk kaflaskil verða um myndina miðja og það nokkuð óvænt og úr takti við það sem á undan hefur gengið. Í það minnsta varð sá sem hér skrifar nokkuð hissa, á þessu átti hann ekki von! Skilin hafa bæði kosti og galla, draga úr fyrirsjáanleika vissulega en eru óþarflega dramatísk. Nokkur slík atriði má sjá í myndinni, atriði sem koma manni í opna skjöldu og flest þeirra styrkja söguna og vekja forvitni.
Caught Stealing minnir að vissu leyti á fyrstu kvikmyndir Guy Ritchie og jafnvel Quentins Tarantinos, töffaralegar glæpamyndir með skrautlegum persónum, spaugilegum atburðum, grófu ofbeldi og hraðri framvindu. Þetta er hressandi blanda gamanmyndar, ástarmyndar, spennumyndar og hin besta skemmtun.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
