One Battle After Another er ein besta kvikmynd ársins, jafnvel sú besta, að mati rýnis. Kemur þar margt til, m.a. frábær frumsamin tónlist, lýtalaus leikur, hugvitssamleg og taugatrekkjandi myndataka, ilmandi og bleksvart spaug og ófyrirsjáanlegur og hugmyndaríkur söguþráður.
Leikstjórinn er enda einn sá vandaðasti í Hollywood, Paul Thomas Anderson, sem hefur varla stigið feilspor á sínum ferli. Sá hinn sami og leikstýrði Magnolia, There Will Be Blood, Boogie Nights, The Master og Phantom Thread, svo nokkrar séu nefndar. Ferilskráin talar sínu máli.
Það fyrsta sem maður tekur eftir, strax í byrjun myndar, er sniðmátið á henni. Það er vítt og hátt og – eftir því sem rýnir kemst næst – svokallað VistaVision sem var upphaflega þróað til að nota stærri hluta af 35 mm negatívu kvikmyndavélarinnar og skilar því meiri myndgæðum en ella. Myndgæðin eru því mikil í One Battle After Another sem er kvikmynd sem ber að njóta í kvikmyndahúsi með stóru sýningartjaldi, líkt og rýnir gerði fyrir nokkrum dögum í Laugarásbíói.
Tónlistin sem Jonny Greenwood samdi við hana er líka í fullkomnum takti við myndina, oftar en ekki óreiðukennd sem eykur á spennuna en líka róleg og falleg þegar þess er þörf. Þess má geta að Greenwood er í grunninn gítarleikari og þekktur sem einn liðsmanna hljómsveitarinnar Radiohead.
Handrit myndarinnar skrifaði leikstjórinn Anderson og hefur hann í viðtölum sagst hafa byrjað á því fyrir um 20 árum. Hann hafi unnið í handritinu reglulega meðfram öðrum verkefnum, bætt við það og breytt því í áranna rás. Hin mikla yfirlega virðist hafa borgað sig og skilað sér í mikilli og fjölbreyttri sögu með óvæntum snúningum, áherslum, ádeilu og vísunum í bandaríska menningu, stjórnmál og kynþáttahatur.
Sögusvið myndarinnar eru Bandaríkin á heldur óræðum tíma sem gæti allt eins verið samtíminn, í ljósi atburða í byrjun hennar. Sagan hefst í fangabúðum sem slegið hefur verið upp við landamærin að Mexíkó og þar bíður fjöldi fólks örlaga sinna. Aðalpersóna myndarinnar, Pat, sem gengur síðar undir dulnefninu Bob (Leonardo DiCaprio), er þar staddur, ungur uppreisnarmaður og róttækur og herskár andstæðingur stjórnvalda.
Pat fremur ítrekað skemmdarverk með félögum sínum og unnustu, Perfidiu Beverly Hills (Teyana Taylor), en Perfidia virðist til alls líkleg og óútreiknanleg. Þessi hópur, sem kallar sig French 75, er eftirlýstur af yfirvöldum enda glæpa- og hryðjuverkamenn að þeirra mati. Skæðasti óvinur French 75 er ofurstinn Steven J. Lockjaw (Sean Penn).
Lockjaw er, eins og spaugilegt nafnið gefur til kynna, sérstaklega stífur, ósveigjanlegur og miskunnarlaus kynþáttahatari. Þrátt fyrir það girnist hann hina ungu og óhræddu Perfidiu sem er þeldökk og virðist hún njóta þess að hafa vald yfir honum en vopnin snúast seinna í höndunum á henni.
Er nú farið hratt yfir sögu, ein 16 ár, og þá kemur dóttir Pats, sem nú kallar sig Bob, og Perfidiu til sögunnar. Willa (Chase Infinity) heitir hún og einnig kemur til sögunnar stóískur karatekennari hennar, Sergio St. Carlos (Benicio Del Toro).
Feðginin Bob og Willa búa ein í heldur hrörlegu húsi á afskekktum stað utan borgarinnar og Bob er nú orðinn forfallinn hassreykinga- og drykkjumaður. Hann er þó enn meðvitaður um þá stöðugu hættu sem þau feðgin eru í, að Lockjaw sé enn að leita þeirra. Og eins og við má búast líður ekki á löngu þar til martröðin verður að veruleika og feðginin leggja á flótta, hvort í sínu lagi. Hefst þá örvæntingin fyrir alvöru hjá Bob sem glímir við minnisleysi í ofanálag. Minnisleysið býður upp á mjög spaugileg atriði í myndinni og við tekur barátta, hver átökin af öðrum, svo vísað sé til titils myndarinnar.
Þessi glundroðakenndi og furðulegi söguþráður minnir nokkuð á verk Coen-bræðra og þá sérstaklega meistaraverk þeirra, The Big Lebowski. Í henni fer Jeff Bridges á kostum í hlutverki „the Dude“, þ.e. Gaursins, iðjuleysingja sem lifir af atvinnuleysisbótum og gerir lítið annað en að leika keilu með félögum sínum og reykja gras. Hann kemst í kast við óprúttna og undarlega glæpamenn og hér er það ofurstinn Lockjaw, frábærlega leikinn af Sean Penn, sem er allra skrítnastur og langskemmtilegastur í skrautlegu persónugalleríi myndarinnar. Penn er algjör senuþjófur, dásamlega stífur og herpitúttulegur en um leið ógnandi og brjóstumkennanlegur. Hann mun eflaust fá mörg verðlaun fyrir leik sinn á næstu mánuðum.
DiCaprio er líka stórgóður í hlutverki hins ofsóknaróða og örvæntingarfulla föður, Bob, og sýnir mikla breidd sem leikari í gamansömum atriðum jafnt sem dramatískum. Teyana Taylor er svo eftirminnilegt skaðræðiskvendi og hin unga Chase Infiniti, aðeins 16 ára, gefur hinum fullorðnu ekkert eftir. Benicio Del Toro er, eins og alltaf, óhemjusvalur og lætur ekkert raska stóískri ró sinni í hlutverki karatekennarans drykkfellda.
Kvikmyndatakan í myndinni er áhrifamikil og þá sérstaklega í atriði þar sem ekið er yfir hverja hæðina af annarri í æsilegri eftirför um eyðimerkurlandslag Texas. Virðist sem myndavélin hafi verið sett undir bílana eða neðarlega á þá sem eykur verulega spennuna í þessu atriði. Áhorfandinn veit aldrei hvað bíður handan næstu hæðar og á stöðugt von á hörðum árekstri. Þetta atriði mun leggjast illa í þá sem þjást af ótta við blindhæðir, svo mikið er víst. Í öðru atriði er sýnd eftirför um stræti stórborgar og spennan í því er ekki minni, líkt og áhorfandinn sé staddur í bílnum með sögupersónum.
One Battle After Another er allt í senn hugvekjandi, fyndin, súrrealísk, dramatísk og pólitísk og tekur á meinsemdum í bandarísku samfélagi, kynþáttahatri og ofbeldi. Hún er hröð og kraftmikil og maður finnur aldrei fyrir lengdinni þó mikil sé.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
