Birta fyrstu stillurnar úr Hildi

Við tökur á þáttunum Hildi.
Við tökur á þáttunum Hildi. Ljósmynd/Björgvin Hilmarsson

Cineflix Rights hefur birt fyrstu stillurnar úr sjónvarpsþáttaröðinni Hildi, sem byggir á metsöluþríleik finnska rithöfundarins Satu Rämö, en þættirnir verða sýndir í Sjónvarpi Símans og á finnsku sjónvarpsstöðinni Nelonen snemma á næsta ári. 

Variety greinir frá en þar segir að þættirnir séu bæði léttari og mannlegri en hinir hefðbundnu norrænu glæpaþættir og kvikmyndir.

Segja þeir frá íslensku lögreglukonunni Hildi, sem leitar huggunar í brimbrettabruni, og kollega hennar, hinum finnska aðstoðarmanni Jakobi, sem prjónar hverja flíkina á fætur annarri á milli þess sem þau leysa hin ýmsu sakamál sem inn á borð þeirra detta.

Með hlutverk Hildar fer Ebba Katrín Finnsdóttir.
Með hlutverk Hildar fer Ebba Katrín Finnsdóttir. Ljósmynd/Björgvin Hilmarsson

Sannfærandi og frumleg saga

Fortíðin nagar líka Hildi sem leitast stöðugt við að upplýsa hvarf litlu systra sinna sem hurfu fyrir 25 árum á leið heim úr skólanum.

Með hlutverk Hildar fer Ebba Katrín Finnsdóttir en Jakob er leikinn af Lauri Tilkanen sem meðal annars lék í Deadwind

„Það sem heillaði okkur fyrst og fremst var hversu sannfærandi og frumleg sagan er,“ er haft eftir Tom Misselbrook hjá Cineflix Rights en þáttaröðin, sem inniheldur sex þætti, er framleidd af finnska fyrirtækinu Take Two Studios og Saga Film. 

„Hildur er norræn glæpasaga með sérstöku ívafi sem við höfum ekki séð áður. Hún fangar Nordic Blue-stemninguna, hallar sér að grípandi spennusöguþemanu en býr samt yfir léttleika. Hún fjallar ekki bara um glæpi og leyndardóma heldur tekur einnig fyrir stærri þemu eins og vináttu, fjölskyldubönd, ást, húmor og tilfinningalegar afleiðingar missis. Þessi blanda tryggir því að hún sé einstök og höfði ekki aðeins til aðdáenda hreinræktaðra glæpasagna.“

Áhersla á mannlegu tengslin

Margrét Örnólfsdóttir, meðhöfundur þáttanna, segir að henni hafi fundist frábært að heyra af velgengni bókarinnar Hildar í Finnlandi. 

„Á vissan hátt var ég svolítið efins í byrjun um sögu Satu sjálfrar – finnsks metsöluhöfundar sem er búsettur á Íslandi, á Vestfjörðum sem er staður sem ég þekki mjög vel. Það fannst mér óraunverulegt. En Satu hefur sannarlega búið hér í 20 ár og þegar ég las skáldsöguna varð ég mjög hissa en glöð að sjá hversu trúverðug hún var.“

Undir þetta tekur Tinna Hrafnsdóttir, leikstjóri þáttanna. 

„Sagan hefur yfir sér norrænan blæ vegna bakgrunns hennar en þetta fallega samband á milli Hildar og Jakobs finnst mér samt áhugaverðast. Sem kvikmyndagerðarkona vildi ég leggja áherslu á þessi mannlegu tengsl. En svo er landslag Vestfjarða stór persóna út af fyrir sig,“ bætir hún við.

„Þetta er svæði sem er fullt af andstæðum, með blöndu af sorg og fegurð, þar sem við höfum upplifað töluvert af hörmulegum snjóflóðum sem kostuðu fjölda fólks lífið.“

Sjá umfjöllun Variety

mbl.is
Loka