Í heimildarmyndinni Jörðin undir fótum okkar eftir leikstjórann og handritshöfundinn Yrsu Rocu Fannberg fá áhorfendur að skyggnast inn í hversdagslegt líf íbúa á hjúkrunarheimilinu Grund og á sama tíma verða vitni að endalokum lífs þeirra.
Áhorfendur átta sig strax á því að þeir eru að upplifa eitthvað mjög persónulegt, fólkið í myndinni er að kveðja lífið.
Yrsa hefur ekki einungis áhuga á fortíðinni, hún hefur ekki síður áhuga á að vita hver þau eru í dag. Áhorfendur fá því ekki að heyra ævisögu íbúanna en þó eru atriði þar sem þeir fá að skyggnast í fortíð þeirra. Í einu atriði er tökuvélinni til dæmis beint að gluggakistu sem er þakin bikurum úr danskeppnum. Ljóst er að fyrrverandi dansdrottning á þetta herbergi og skotið segir í raun allt sem segja þarf. Það að hún velur að skreyta gluggann sinn með bikurunum er nóg fyrir áhorfendur til þess að vita að dansinn skiptir hana enn máli.
Hversdagslegt líf fólks inni á hjúkrunarheimili hljómar kannski ekki mjög spennandi viðfangsefni en það er ótrúlega fallegt en í senn sárt að fylgjast með síðustu augnablikum hjá manneskju. Það er líka áhugavert að sjá hverju þau eyða tíma í og með hverjum. Þetta er ekki algengt viðfangsefni í kvikmynd en svo virðist sem að kvikmyndabransinn, eða samfélagið yfirhöfuð, hafi í raun engan áhuga á eldra fólki þar sem það þjónar ekki lengur hinu kapítalíska kerfi.
Viðfangsefnið er því mjög frumlegt og í senn frískandi enda er raunveruleikinn eða hið hversdagslega ekki síður áhugavert. Að því sögðu er ekki um að ræða hefðbundna söguframvindu sem er keyrð áfram af hraða heldur eru áhorfendur beðnir um að staldra við og það virðist hægjast á tímanum, sem er mjög góð ákvörðun hjá Yrsu.
Í myndinni eru margar fallegar ástarsögur. Á Grund eru mörg pör, sum þeirra eyða seinustu stundum sínum þar saman á meðan önnur eru aðskilin vegna heilsuleysis. Þarna eru orðin „þar til dauðinn aðskilur okkur“ tekin alvarlega. Sum þeirra haga sér ennþá eins og bálskotnir unglingar og þegar þau kyssast hugga þau hvort annað með því að segja að þetta sé ekki síðasti kossinn þeirra. Pörin haldast oft í hendur en hendur eru ákveðið þema í myndinni. Yrsa og kvikmyndatökumaðurinn Wojciech Staroń sýna oft húðina á höndunum í mikilli nærmynd en lifaða húðin minnir frá því sjónarhorni á fallegt og viðamikið landslag.
Það virðist stundum gleymast að rétt eins og frásagnarmyndir eru heimildarmyndir tegund af listformi, þær eiga ekki einungis að fræða heldur geta líka staðið einar og sér sem listaverk og Jörðin undir fótum okkar er mjög augljóst dæmi um það. Kvikmyndatakan eftir Wojciech Staroń er til dæmis glæsileg og er ekki hægt að fjalla um myndina án þess að nefna eitt skot sem eitt og sér er listaverk.
Um er að ræða skot af glæsilegri konu sem varalitar sig í glugganum. Tökuvélin virðist vera fyrir utan og því sést endurspeglunin af hjúkrunarheimilinu Grund en hún blandast fullkomlega saman við konuna sem varalitar sig fyrir aftan glerið. Það er ekki skrítið að stilla úr því skoti sé oft notuð til að auglýsa myndina en undirrituð væri alveg til í að fá þá stillu útprentaða til að hengja upp á vegg heima hjá sér, svo falleg er hún.
Kvikmyndin er skotin á 16 mm filmu sem þjónar vel fagurfræði myndarinnar en rétt eins og það hefði ekki passað að keyra söguframvinduna áfram á miklum hraða þá hefði myndin ekki verið sú sama hefði hún verið skotin með stafrænni vél. Stafræn kvikmyndataka hefði verið of nákvæm fyrir söguna en þá hefðu áhorfendur til dæmis getað séð nánast hverja einustu hrukku á andliti fólksins. Filman gerir alla mjög myndræna og henni fylgir ákveðinn fortíðarsjarmi sem vísar til hægari og einfaldari tíma, sem er í takt við sögu myndarinnar.
Með því að skjóta á filmu setur Yrsa sér líka ákveðnar skorður, hún getur ekki skotið endalaust heldur þarf hún að velja vel hvað hún vill mynda því filman er ekki endalaus, sem er ágætt enda um viðkvæmt viðfangsefni að ræða. Þetta er allt í takt við það sem Yrsa gerir svo ótrúlega vel í myndinni en það er að mynda fólkið af mikilli alúð og hlýju. Með næmni sinni fyrir viðfangsefninu tekst henni að komast hjá því að gera lítið úr fólkinu eða missa sig í einhverju tilfinningaklámi um ást og missi, hún er bara að mynda brot úr lífi einstaklings.
Jörðin undir fótum okkar er þriðja myndin eftir Yrsu Roca Fannberg og var frumsýnd á alþjóðlegu heimildarmyndahátíðinni í Kaupmannahöfn (CPH:DOX) sem er ein virtasta heimildarmyndahátíðin. Myndin vann einnig til aðalverðlauna á einni stærstu heimildarmyndahátíð Asíu, DMZDocs, og nýlega hlaut Hanna Björk Valsdóttir, framleiðandi myndarinnar, aðalverðlaun framleiðanda á Nordisk Panorama.
Þessar viðtökur koma ekki á óvart enda er Jörðin undir fótum okkar á heildina litið ljóðræn og falleg kvikmynd sem fangar lífið á lokaspretti þess af hlýju og virðingu. Yrsa Roca Fannberg minnir áhorfendur á fegurð þess hversdagslega og mikilvægi þess að staldra við og kveðja.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
