Halda til Hollywood á áttræðisafmælinu

Múmínálfarnir halda senn á hvíta tjaldið í Bandaríkjunum, en þeir …
Múmínálfarnir halda senn á hvíta tjaldið í Bandaríkjunum, en þeir fagna áttræðisafmæli í ár. Ljósmynd/Wikipedia.org

Múmínálfarnir, hið ástsæla sköpunarverk Tove Janson, munu brátt prýða hvít tjöld hið vestra þar sem fyrsta múmín-kvikmyndin í fullri lengd er nú í bígerð í Bandaríkjunum.

Nýja múmín-kvikmyndin er fyrsta Hollywood-uppfærsla á sögunum um Múmínfjölskylduna og vini hennar, að því er Moomin Characters Oy Ltd. greinir frá í nýlegri fréttatilkynningu, en múmínunnendur fagna í ár 80 ára afmæli veranna.

Emmy-tilnefningahafi leikstýrir

Kvikmyndin verður unnin af teiknimyndadeild afþreyingarfyrirtækisins Annapurna, sem stofnað var af fyrrum stjórnendum Disney, þeim Robert Baird og Andrew Millstein, og framleidd af Julia Pistor, sem einnig framleiddi fyrstu kvikmyndina um svampinn geðþekka Svamp Sveinsson.

Handritshöfundur og leikstjóri hinnar væntanlegu kvikmyndar, Rebecca Sugar, hefur hlotið átta Emmy-tilnefningar fyrir teiknimyndaþættina Steven Universe og Adventure Time.

„Við erum himinlifandi með að vinna með hæfileikabúntinu Rebeccu Sugar og Annapurna að þessari tímamótamynd,“ er haft eftir Roleff Kråkström, framkvæmdastjóra Moomin Characters Oy Ltd. 

„Við erum spennt að sjá hvernig þetta afburðateymi mun endurtúlka hinar ástsælu Múmínsögur og hvernig gamlir og nýir aðdáendur munu uppgötva þær og enduruppgötva.“

mbl.is