„Gunnella fæddist í skólanum. Hún varð til í áfanga sem heitir sviðslistasaga en þá hittumst við í hverri viku og gerðum gjörninga eða opnanir eins og þetta er kallað, svona lítil stutt leikrit. Þar fæddist þessi týpa hjá mér en vissulega var hún mun ýktari, hún var öðruvísi en hún er í sýningunni en þarna kom samt hugmyndin að nafninu, búningnum og göngulaginu,“ segir Katla Þórudóttir Njálsdóttir leikkona, innt eftir hugmyndinni að Gunnellu, útskriftarverkefni hennar úr Listaháskóla Íslands, sem frumsýnd verður í Háskólabíói 2. júlí.
Er sýningin hluti af uppsetningum sviðslistahússins Afturámóti í sumar en hópurinn hlaut á dögunum Hvatningarverðlaun dómnefndar Grímunnar 2025.
„Gunnella dúkkaði svo reglulega upp hjá mér í gegnum námið sem var mjög skemmtilegt því oft þegar við áttum að gera einhverjar opnanir í öðrum áföngum, og ég vissi ekki hvað ég ætti að gera, þá náði ég bara í Gunnellu,“ bætir hún við og skellihlær.
„Síðan fórum við í svokallaða einleikjaviku hjá honum Agga, fagstjóranum okkar, og þar hafði ég ekki hugmynd um hvað ég ætti að gera. En svo hugsaði ég bara: „Veistu hvað, ég næ bara í mína konu og geri eitthvað skemmtilegt.“ Ætli Gunnella myndi ekki lýsa sjálfri sér sem hjartahlýrri, sjálfstæðri, duglegri og fyndinni konu en hún er hins vegar misskilin og hefur ekki hugmynd um hvernig aðrir myndu lýsa henni.“
Spurð í kjölfarið hvort Gunnella eigi sér einhverjar fyrirmyndir í raunveruleikanum svarar Katla því til að þessi týpa sé vissulega til.
„Gunnella starfar sem þýðandi en hún er líka stundum krossgátuhöfundur fyrir Morgunblaðið. Ég er samt ekki viss um að ég þekki hana en ég hef séð henni bregða fyrir í umhverfinu mínu, úti í búð, niðri í bæ og víðar. Ég hef vissulega heyrt af þessari konu þó að ekki sé um að ræða einhverja ákveðna manneskju.“
Þá eru einstaklingsverkefnin í LHÍ að vissu leyti gerð til þess að virkja leikaranemana sem textahöfunda. Aðspurð segist Katla finna sig mjög vel í því hlutverki enda sé virkilega gaman að fá að spreyta sig við skrifin.
„Við ráðum hvort við skrifum eða fáum einhvern annan til þess fyrir okkur, nú eða jafnvel finnum texta sem er þegar til. Ég var hins vegar alveg staðráðin í því að skrifa verkið sjálf því mér finnst fátt skemmtilegra. Ef maður fær tækifæri til þess að skrifa í skólanum þá er um að gera að nýta það en ég var bæði mjög spennt og þakklát að hafa tök á því. Í náminu fékk ég tíma og rými til að prófa mig áfram og aðgang að öllum tækjum og tólum, sem er alveg frábært. Ég mun skrifa meira, það veit ég fyrir víst,“ segir Katla harðákveðin.
Þrátt fyrir að Katla, sem er á 23. aldursári, sé einungis nýútskrifuð sem leikari úr Listaháskólanum er hún engu að síður löngu orðin þekkt hér á landi, meðal annars fyrir kvikmyndirnar Hjartastein og Ljósbrot og þætti á borð við Fanga, Vitjanir og Húsó. Einnig tók hún þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins árið 2022 og hefur getið sér gott orð sem söngvari.
Blaðamaður stenst ekki mátið að spyrja hana í framhaldinu út í þessa glæstu byrjun á ferlinum og þá hvað standi einna helst upp úr.
„Ég er búin að vera mjög heppin með verkefni og hef notið mín alveg sérstaklega í öllum þeirra. Ég verð því að koma með nokkur dæmi eins og We Will Rock You árið 2019 þar sem ég kynntist honum Kidda mínum [Kristni Óla S. Haraldssyni] en hann er ástæðan fyrir því að ég fór í þetta nám. Hann manaði mig í prufur sem ég ætlaði alls ekki í. Þannig að ég get þakkað honum fyrir þessa BA-gráðu,“ segir hún og hlær sínum dillandi og smitandi hlátri.
„Ég hef sjaldan haft eins gaman á ævi minni og þegar ég var í þessum söngleik. Þar á eftir koma Húsó og Ljósbrot því þar var svo góður hópur af fólki í kringum mig. Í Ljósbroti var ég með ótrúlega góðum vinum mínum og í Húsó vorum við í Hússtjórnarskólanum alla daga í heilan mánuð um sumar. Hún er sko best hún Snædís mín, mér þykir svo innilega vænt um þann karakter.“
Aðspurð hvernig það hafi komið til að hún fetaði listabrautina segir Katla það eflaust alltaf hafa legið fyrir henni.
„Ég var ein af þessum krökkum sem hægt var að lesa utan á að myndi fara í eitthvað svona. Ég var alltaf að gera leiksýningar í stofunni og föndraði meira að segja líka aðgangsmiðana. Í raun hef ég verið að stefna að þessu allt mitt líf því ég byrjaði mjög ung að vinna við þetta, aðeins 11 eða 12 ára. Leiðin lá svo á listabraut í Verzló, sem er auðvitað bara enn eitt skrefið í þessu öllu saman, og svo er svolítið fyndið að ég ætlaði alltaf að læra að verða leikkona en ég ætlaði aldrei að gera það á Íslandi,“ segir hún kímin.
„Ég var með mjög mikla fordóma fyrir LHÍ, sko alveg rosalega. Það fyndna er að pabbi minn hafði þessa fordóma líka því hann átti nokkra vini sem voru í leikaranámi á sínum tíma en þá var skólinn náttúrlega allt annar, maður hefur heyrt ýmsar sögur. Ég lofaði því eiginlega pabba mínum að fara ekki í LHÍ en þegar ég lít til baka þá get ég sagt að ég hafi lofað honum að fara ekki í Listaháskólann eins og hann var þá. Skólinn sem ég var að klára núna er allt annar skóli.“
Viðurkennir hún í framhaldinu að ein helsta ástæðan fyrir því að hún hafi verið svona þrjósk gagnvart LHÍ hafi verið að hún hafi einfaldlega ekki þorað að fara í prufur.
„Ég þorði ekki að sækja um í íslenskum skóla. Ég var svo smeyk um að kannski myndi einhver sjá mig í prufunum og vita að ég hefði leikið eitthvað áður og ef ég fengi neitun þá yrði ég vandræðaleg því maður setur einhverja aukapressu á sig, manni líður eins og fólk ætlist til meira af manni. Það er svo fyndið að vera hræddur við höfnun þegar maður velur leikarabransann því þar upplifir fólk ekkert nema höfnun,“ segir Katla og skellir upp úr.
En hvernig er sú tilfinning að vera nýútskrifuð en hafa nú þegar þetta ákveðna forskot í bransanum miðað við marga aðra?
„Það hjálpar mér alveg 100% því þetta er svo lítill bransi hérna heima. Ef maður er búinn að leika í einni auglýsingu þá þekkir fólk mann. Þetta er í alvörunni þannig. Ég er búin að vera mjög heppin með feril í gegnum allt mitt líf. Staðreyndin er sú að þetta hefur verið eins og snjóbolti eða tröppugangur. Ég var kannski í einu verkefni og þá var einhver að vinna þar sem sagði einhverjum öðrum frá mér og svo koll af kolli. Eitt leiddi af öðru en sem betur fer er alveg ágætt að vinna með mér. Ég hef því án efa ákveðið forskot sem ég er mjög þakklát fyrir,“ segir hún auðmjúk.
Spurð út í það hvað taki svo við í haust segist Katla mjög heppin þar sem hún sé nú þegar komin með vinnu.
„Þegar maður á einhvern feril að baki þá verður maður svo stressaður yfir því að fá ekki vinnu þar sem manni líður eins og það gæti orðið vandræðalegt. Það er svo fyndið hvernig maður hugsar en ég er komin með verkefnaráðningu í Þjóðleikhúsinu sem er ótrúlega spennandi því ég hef verið minna í leikhúsinu. Hef hingað til verið meira í bíói og sjónvarpi. Það er því virkilega gaman að fá þetta tækifæri,“ segir hún og nefnir að eins og staðan sé núna sé búið að ráða hana í tvö verkefni í leikhúsinu.
„Ég má alla vega segja frá öðru þeirra þar sem það er bara handan við hornið en það er einleikurinn Þetta er gjöf sem verður frumsýndur á Litla sviðinu í september.“
Þá segist Katla elska gríndrama og heillast því helst af slíkum hlutverkum.
„Svona hlutverkum þar sem maður má vera fyndinn en það er líka dramatík í gangi. Gunnella tilheyrir alveg þeim flokki. Sýningin er meiri kómík en fólk á von á en svo verður hún dramatísk og kýlir fólk svolítið í magann. Ég hef því mestan áhuga á tragikómedíum, mér finnst þær langskemmtilegastar,“ segir hún til útskýringar.
„Vissulega var Leg, útskriftarsýningin okkar, söngleikur en það er fátt skemmtilegra en að syngja. Maður verður samt mun stressaðri fyrir söngleikjum en venjulegum leikritum því þeir reyna miklu meira á líkamann en ég er algjör söngleikjamanneskja. Ég elska að vera bara að leika en ég væri líka til í að vita af einu söngleikjahlutverki í framtíðinni.“
Spurð að lokum hvort hún eigi sér einhverjar fyrirmyndir í bransanum segist hún eiga þær margar.
„Eins og til dæmis Ebbu Katrínu Finnsdóttur og Elínu Hall. Ég lít mjög upp til þeirra sem og Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttur sem er líka algjört átrúnaðargoð hjá mér en hún er handritshöfundur og leikkona. Hún er reyndar líka kokkur en það er ég alls ekki. Hún er alveg yndisleg,“ segir hún hlæjandi og tekur fram að ef hún gæti þá myndi hún helst vilja snerta alla fleti listageirans.
„Ég hef brjálaðan áhuga á skrifum en svo væri ég líka til í að prufa leikstjórann. Svo langar mig í gullsmíði í framtíðinni og að vera bara alveg óstöðvandi í listinni. Í Gunnellu er ég leikmyndahönnuður og búningahönnuður, já og líka smiður og handritshöfundur sem er mjög skemmtilegt.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.

