„Að koma hingað inn í Borgarleikhúsið er eins og að setjast upp í rauðan Ferrari á 220 km hraða. Eldsneyti fyrstu frumsýningar hússins er Moulin Rouge! og maður finnur hvernig húsið kraumar eins og góð vél. Það er fullur kraftur hjá öllu því frábæra starfsfólki sem starfar í öllum deildum við að undirbúa þennan stærsta söngleik sem settur hefur verið upp á Íslandi,“ segir Egill Heiðar Anton Pálsson borgarleikhússtjóri um komandi leikár.
Það er forveri hans í starfi, Brynhildur Guðjónsdóttir, sem leikstýrir Moulin Rouge! sem frumsýndur verður á Stóra sviði leikhússins 27. september. „Starfsfólk hússins er í krafti reynslunnar orðið svo vant þéttri og góðri keyrslu að maður finnur kraftinn í mótornum. Sú gleði sem ríkir í æfingasalnum smitast síðan út í allt húsið,“ segir Egill og tekur fram að það sé einstakt fyrir sig að taka við Borgarleikhúsinu á þeirri blússandi siglingu sem húsið er með „öllum þeim Grímutilnefningum og -verðlaunum sem húsið fékk fyrir síðasta leikár.“
Egill var ráðinn borgarleikhússtjóri um miðjan mars og tók formlega við stöðunni rúmum mánuði seinna. „Á þeim tíma var Brynhildur með sínu frábæra samstarfsfólki þegar búin að skipuleggja komandi leikár sem ég er svo heppinn að fá að taka við og fylgja úr hlaði. Í vændum er allt í senn fjörugt, litríkt, skemmtilegt og dýnamískt leikár þar sem allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi á hlaðborði leikársins.“
Bæklingur Borgarleikhússins var gefinn út á prenti í liðinni viku og er aðgengilegur í rafrænu formi á vef leikhússins. Að sögn Egils bíður áhorfenda auk Moulin Rouge! klassísk barnaskemmtun í Galdrakarlinum í Oz sem Þórunn Arna Kristjánsdóttir leikstýrir.
„Sjálfur Hamlet eftir Shakespeare fer á svið í leikstjórn eins umtalaðasta leikstjóra yngri kynslóðarinnar, Kolfinnu Nikulásdóttur.
Einstaklega gaman verður að sjá okkar frábæru og reynslumiklu leikkonu, Sigrúnu Eddu Björnsdóttur, í mögnuðu verðlaunaverki eftir Paulu Vogel sem nefnist Mömmó, en hér er á ferðinni hrikalega fyndið fjölskylduverk í leikstjórn Agnars Jóns Egilssonar.
Félagarnir í Hundi í óskilum snúa aftur, en í þetta sinn með Niflungahringinn allan í leikstjórn Ágústu Skúladóttur, sem verður eitthvað alveg stórkostlegt. Frá fyrra leikári heldur áhorfendasmellurinn og Grímuverðlaunasýningin Þetta er Laddi áfram, en bara í vetur, og Grímuverðlaunasýningin Fjallabak fær nokkrar aukasýningar.
Sem fyrr bjóðum við til okkar frábær samstarfsverkefni sem valin eru úr stórum hópi umsækjenda. Leikhópurinn Elefant segir okkur í verkinu Þegar ég sé þig, sé ég mig sögur af fólki með annan menningarlegan bakgrunn, en Erna Kanema Mashinkila leikstýrir. Stertabenda undir stjórn Grétu Kristínar Ómarsdóttur setur upp Skammarþríhyrninginn þar sem við sjáum hvernig heimurinn liti út ef hinseginleikinn væri fjarlægður úr honum.
Gaflaraleikhúsið mætir með nýja sýningu, Ekki hugmynd, í leikstjórn Egils Andrasonar, sem fjallar um vaxtarverki þess að verða fullorðinn. Einleikurinn Ífigenía í Ásbrú í leikstjórn Önnu Maríu Tómasdóttur kemur beint úr grasrótinni í Tjarnarbíói.
Loks sýnir Óður óperuna La bohème í leikstjórn Tómasar Helga Baldurssonar, sem er grunnsagan af Moulin Rouge!
Auk þess halda áfram frá fyrra leikári samstarfsverkefnin Innkaupapokinn, Tóm hamingja. Óbærilegur léttleiki knattspyrnunnar og Sextíu kíló Hallgríms Helgasonar,“ segir Egill og tekur fram að mikilvægur kjarni í starfi hússins sé fræðslustarfið sem birtist bæði í leiklistarskóla hússins og boðssýningum.
„Árlega bjóðum við þúsundum barna úr leik- og grunnskólum Reykjavíkurborgar að koma á sýningar í Borgarleikhúsinu,“ segir Egill, en boðssýningarnar í ár eru Ofurhetjumúsin, Kjarval og Þetta er Laddi.
„Þetta er framtíðarfjárfestingin og grunnur alls annars sem við gerum hér. Það er ósk mín að það frábæra barna-, unglinga- og ungmennastarf sem á sér stað hér fái byr undir báða vængi og verði sýnilegra, því þeim mun betur sem hugað er að menntun og menningu fyrir börn, unglinga og ungmenni, þeim mun öflugra samfélag tekst okkur að skapa.“
Aðspurður segir Egill það forréttindi fyrir sig eftir að hafa búið og starfað erlendis síðustu 25 árin að koma heim og fá að takast á við jafnspennandi starf og borgarleikhússtjórastarfið er.
„Ég skynja rosalegan kraft í íslenskum sviðslistum, bæði í grasrótinni og stofnanaleikhúsunum. Hér er mikið af hæfileikaríku fólki á öllum póstum, sem er nýmóðins og hugrakkt í nálgun sinni,“ segir Egill og tekur fram að hann sé að sannfærður um að sá frumkraftur sem kom með stofnum Listaháskóla Íslands á sínum tíma þar sem Hjálmar H. Ragnarsson var fyrsti rektor og Ragnheiður Skúladóttir deildarforseti leiklistardeildar hafi sett nýjan tón í íslenskum sviðslistum. Þannig sé ávallt mikilvægt að sá fræjum í dag sem ætlað er að blómstra í framtíðinni.
„Því hlutir verða ekki til í tómarúmi. Ef þú ætlar að breyta heiminum þá gefur þú fólki kost á góðri menntun og hugsar til framtíðar. Sá góði árangur íslenskra tónlistarmanna á erlendum vettvangi sem við sjáum um þessar mundir og gott gengi okkar í íþróttum eru afrakstur ákvarðana sem teknar voru fyrir 20-30 árum um að fjárfesta í tónlistarmenntun eða íþróttastarfi.
Ef við meinum eitthvað með því að við ætlum að hafa menningarlegt samfélag verðum við líka að fjárfesta í því,“ segir Egill og bendir á að sjá megi menninguna sem fimmta valdið í samfélaginu á eftir þrískiptingu ríkisvaldsins og fjölmiðlum.
„Menningin er allt í kringum okkur, á sviðum, á prenti og á skjánum. Hún skapar sameiginleg gildi og lífsgæði ásamt því að gefa okkur tóninn að því samfélagi sem við viljum búa í,“ segir Egill og tekur fram að það sé engin tilviljun að Grikkir hafi þegar þeir stofnuðu sitt þing fyrir um 2.000 árum ákveðið að búa samhliða til vettvang fyrir leiklistina.
„Á leiksviðinu er verið að taka málefni pólitíkurinnar og setja þau í þéttivél og sýna fram á átökin sem þar eiga sér stað. Það gat verið í hvort heldur sem er gleði- eða harmleikjum. Það er svo einstakt í frásagnarforminu að þú getur haft tvo eða fleiri sannleika á sama tíma á einum stað. Ég held að við höfum ofboðslega gott af því í staðinn fyrir að vera í lokuðum hellum samfélagsmiðla okkar þar sem við lifum mjög hættulega tíma í fölskum sannleika.
Fyrir mér er leikhúsið samkomustaður. Einstaklingurinn kemur hingað með fjölskylduna sína og börn, vinum, vinnustaðnum og stundum einn, en í reynd ert þú aldrei einn í leikhúsinu vegna stefnumótsins sem verður milli salar og sviðs,“ segir Egill og bendir á að einn dýrmætasti lærdómur heimsfaraldursins hafi verið að leikhúsið þarf á áhorfendum sínum að halda.
„Við erum ekkert án áhorfenda og í þeim skilningi er áhorfandinn mikilvægasta persónan í leikhúsinu,“ segir Egill og tekur fram að markmið hans sé að fólk upplifi að Borgarleikhúsið sé alltaf í þróun og ávallt til staðar fyrir samfélagið.
„Borgarleikhúsið er einstakt leikhús. Í raun er Borgarleikhúsið stærsta leikhús á Íslandi í fermetrum og byggingarmassa. Það var ótrúlega djarft verkefni að lítið leikhús við Tjörnina skuli hafa ýtt þeirri framkvæmd af stað að reisa Borgarleikhúsið sem í gegnum árin hefur síðan leitað sér að sínum farvegi og hvernig það rekur sig.
Borgarleikhúsið er bæði markaðsleikhús og listrænt leikhús af því að samsetningin af rekstrargrundvellinum er þannig að 40% af rekstrarfénu koma frá Reykjavíkurborg og 60% eru sjálfsaflafé. Þannig að samkvæmt rekstrarmódelinu á Borgarleikhúsið að selja miða.
Borgarleikhúsið á að vera breitt og taka á móti eins mörgum áhorfendum og mögulegt er. Samtímis, og ástæða þess að við fáum þetta rausnarlega framlag frá borginni, eigum við að reka listrænt starf í Reykjavík – sem samræmist líka vel upphaflegum markmiðum Leikfélags Reykjavíkur þegar það var stofnað á sínum tíma.“
En eitt útilokar ekki endilega annað. Það hlýtur að vera hægt að setja upp sýningar sem höfða til fjöldans sem eru líka af háum listrænum gæðum?
„Já, og þá eru andstæðurnar einmitt farnar að tala saman sem er svo spennandi og lykillinn að góðri velgengni Borgarleikhússins. Mig dreymir um að halda áfram á þeirri vegferð hússins að skapa listrænt markaðsleikhús og markaðsvænt listrænt leikhús. Að við sameinum þessa krafta, því þannig náum við að gera leikhúsið að samkomustað þar sem börn, unglingar, ungmenni og fullorðnir í öllum aldursflokkum mætast,“ segir Egill og tekur fram að lífæð leikhússins séu seldir miða.
„En á sama tíma snýst þetta líka um samfélagslega ábyrgð. Það er lýðræðslegt að skapa sviðslistir sem ná að höfða til sem flestra. Listin á ekki að vera lokaður klúbbur, enda erum við með nógu marga lokaða hella á samfélagsmiðlum. Þannig má listin ekki þróast.“
Í samtali við mbl.is daginn sem tilkynnt var um ráðningu þína sagðir þú aðspurður að þú sæir ekki fyrir þér að vera leikstýrandi leikhússtjóri eins og þú varst í Noregi. Verður ekkert skrýtið að leggja leikstjórann til hliðar?
„Reynslan í Noregi kenndi mér að það tekur mikinn tíma og orku að reka stórt leikhús. Ég ætla að vera til staðar fyrir aðra listamenn hússins og setja alla mína krafta í að reka Borgarleikhúsið. Markmið mitt er að halda mótornum gangandi og hafa þá nauðsynlegu yfirsýn sem þarf,“ segir Egill og bendir á að í hans huga séu raunar töluverð líkindi milli vinnu leikstjórans og leikhússtjórans.
„Vinna leikstjórans er að passa að öllum líði vel í vinnunni og skynji tilgang með vinnu sinni,“ segir Egill og bendir á að það sé auðvitað ekki sjálfgefið að góðir leikstjórar séu líka góðir stjórnendur. „Sú menntun sem ég hlaut sem leikstjóri í Danmörku á sínum tíma var sem millistjórnandi. Þannig lærðum við ekki aðeins að greina texta, skapa persónur, frásögn og vinna dramatúrgíska vinnu, heldur einnig áætlunargerð og mannauðsstjórnun,“ segir Egill og bendir á að hann hafi í gegnum tíðina sjálfur kennt þessa þætti þegar hann kennir leikstjórn, en hann var um árabil prófessor við LHÍ og í Ernst-Busch-leiklistarháskólann í Berlín.
„Ástæða þess að ég fór frekar seint út í það að taka að mér starf leikhússtjóra var að ég hafði ákveðnar áhyggjur af því að stjórnunarhluti starfsins yrði bæði þungur og þurr, en það er svo langt frá því.
Ég væri ekki að sækjast eftir starfi borgarleikhússtjóra eftir að hafa verið leikhússtjóri í Noregi nema vegna þess að mér þykir starf leikhússtjórans safaríkt, skemmtilegt og ævintýralegt. Ef þú veist fátt skemmtilegra en að skapa tíma, rými og aðstæður fyrir annað hæfileikafólk til að blómstra þá er leikhússtjórastarfið eitthvað fyrir þig.
Með árunum hefur mér orðið æ betur ljóst að augnablikið þegar áhorfendur mæta sviðinu er það mikilvægasta, því það er ekkert jafngefandi og að upplifa fund áhorfenda við sviðið þegar hlutirnir ganga upp, en þar að baki býr þrotlaus vinna og skipulagning á því hvaða kokteill af listafólki muni skila sem áhrifaríkustum árangri.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
